Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Ræða Lilju Rafneyjar á 1. maí á Suðureyri

4. maí 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Lilja Rafney þekkir stöðu verkafólks betur en margur enda verkakona í áratugi. Var í forystu verklaýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum lengi og hefur staðið fyrir hátíðarhöldum 1. maí á Suðureyri til margra ára. Hér er ávarp hennar á baráttudegi verkafólks þann 1. maí s.l.

Góðir félagar til hamingju með alþjóðlegan baráttudag verkafólks.

Sjaldan eða aldrei í sögu íslenskrar þjóðar hefur efnahagur landsins verið jafn góður og nú um stundir,okkur hefur tekist með sameiginlegu átaki þjóðarinnar og hagstæðum ytri skilyrðum m.a. með fjölgun ferðamanna,öflugum sjávarútvegi,makrílveiðum og annara hagstæðra ytri skilyrða tekist að vinna okkur hratt út úr Hruninu.
Það mætti því ætla að smjör drypi af hverju strái og hagur almennings og landsins alls væri traustur og hægt væri að bæta kjör þeirra sem höllum fæti standa og efla t.d. innviði á landsbyggðinni.

En það er ekki sá veruleiki sem alltof stór hluti þjóðarinnar býr við því miður. Ég vil nefna hér tvennt sem endurspeglar ójöfnuð sem viðgengst í okkar ríka samfélagi.
Fátækt er veruleiki alltof margra og lýsir sér með margvíslegum hætti . Helstu áhættuhópar eru tekjulágt fólk ,einstæðir foreldrar með börn og aldraðir og öryrkjar.

Fátæk börn eru smánarblettur á þjóðfélagi sem tilheyrir ríkustu þjóðum heims og í dag líða um 10% barna skort á Íslandi.
Það er eitthvað mikið að hjá þjóð sem telur sig búa í velferðarþjóðfélagi en lætur slíkt samt viðgangast.
Því börn eru sá hópur sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér og verða að sætta sig við þær aðstæður sem þeim eru skapaðar hverju sinni. Þau líða fyrir fátækt á heimili sínu hverjar svo sem orsakir fátæktarinnar eru. Sum börn bíða þess aldrei bætur og félagslega geta þau orðið utan garðs og ekki þátttakendur í því samfélagi sem þorri bara á Íslandi hefur aðgang að.

Það er dapurlegt að vita til þess að fjöldi barna fer á mis við ótal hluti sem teljast sjálfsagðir í nútímasamfélagi. Þar má nefna íþróttir,listnám og annað uppbyggilegt frístundastarf sem öll börn óháð efnahag foreldra ættu að hafa aðgang að.
Mikil hætta er á að í neysluþjóðfélagi okkar beri fátæk börn það með sér með einhverjum hætti t.d. í klæðaburði og öðru hvernig ástatt er og að þau verði fyrir aðkasti og einelti skólafélaga sinna og eru þar með komin í félagslegan áhættuhóp. Allt þetta dregur úr möguleikum þeirra í framtíðinni til sömu lífsgæða og tækifæra sem önnur betur sett börn hafa.
Oftar en ekki lenda foreldrar fátækra barna í tímabundnum áföllum sem þarf að vera hægt að bregðast við strax svo þeir geti náð sér aftur á strik sem fyrst og lendi ekki í vítahring fjárhagserfiðleika sem ekki er hægt að komast út úr.
Stór hluti vandans eru lág laun umönnunarstétt og verkafólks. Laun hefðbundinna kvennastétta í kennslu og heilbrigðisstéttum eru ekki metin að verðleikum til jafns við ábyrgðarstörf sem felast í að höndla með fjármuni. Það er ólíðandi að laun fyrir 100 % starf standi ekki undir lágmarksframfærslu.

Skattgreiðslur láglaunahópa hafa aukist á síðustu árum þar sem skattleysismörk hafa ekki fylgt launaþróun í landinu og verið er að eyðileggja þrepaskipt skattkerfi. Ríkisvaldið hefur tekið meira og meira af lágum tekjum fólks í skatta og ýtt undir það að fólki lendi í fátæktargildru.

Í velferðarríki gegnir ríkisvaldið mikilvægu hlutverki til að jafna afkomu fólks og möguleika. Tekjujöfnunaraðgerðir geta bætt hag fátækra barna á Íslandi nú þegar og fjárfest þar með í framtíð þeirra með því að afla tekna af hinum tekjuháu í þjóðfélaginu.

Launahækkanir undanfarinna missera hafa skilað sér misvel til almennings í landinu og fyrirtæki eru misburðug til að rísa undir þeim. Stóru sjávarútvegsfyrirtækin mala gull meðan mörg þau minni á landsbyggðinni reyna að halda sjó. Stærsta atvinnugrein þjóðarinnar í dag ferðaþjónustan er alltof oft uppvís af því að greiða lág laun undir kjarasamningum sem bitnar oftar en ekki á ungu og erlendu starfsfólki ,slíkt á ekki að líðast. Sjávarútvegsfyrirtæki hóta að fara með vinnslu úr landi ef verkafólk og sveitarfélög dansa ekki eftir þeirra höfði. Kúgunartæki eru allt of víða í gangi sem menn veifa eða beita þegar halda á fólki á mottunni og sína hver ræður. Peningar og völd eru stjórntæki sem beitt hefur verið gegn launafólki í háa herrans tíð og gert er enn í dag.

Aukin misskipting og fátækt eru afleiðing þess að fjármunum er stýrt kerfisbundið þangað sem þeir eru fyrir. Þeir ríku verða ríkari og fátækari fátækari það er gömul saga og ný.

En auðvita er þetta ekkert náttúrulögmál og verkalýðshreyfingin þarf að taka sér tak og gera betur fyrir sitt fólk einnig stjórnvöld,sveitarfélög og ýmis félagasamtök , hvert og eitt okkar getur líka haft áhrif.

Við verðum að beita öllum tiltækum úrræðum til að koma í veg fyrir félagslegan ójöfnuð og fátækt.
Það er vissulega ekkert náttúrulögmál að einhver hluti þjóðarinnar þurfi að búa við fátækt eða örbirgð heldur er það samfélagsmein sem unnt er að uppræta ef vilji er fyrir hendi.
Ég vil líka koma inná misjöfn búsetuskilyrði eftir landsvæðum það er vissulega stór hluti af lífskjörum launafólks á viðkomandi svæði. Kostnaður vegna þátta eins og t.d. heilbrigðisþjónustu, menntunar, orkuverðs, vöruverðs, flutningskostnaðar, samgangna,mnýframkvæmda og annarar þjónusta vigtar þungt hjá þeim sem búa í mikilli fjarlægð frá stórhöfuðborgarsvæðinu. Aðrir þættir vega vissulega þarna jákvætt upp á móti en við eigum að standa fast á þeirri kröfu að búsetuskilyrði séu jöfnuð.

Það er kjarabót sem skiptir máli fyrir allt launafólk sem vill búa a landsbyggðinni og gerir þá sjálfsögðu kröfu að þjónustustigið sé gott og grunnþjónustan sé tryggð. Það er því miður veruleikinn víða að þjónustustigið hefur dregist saman á mörgum stöðum ekki bara í minnstu byggðunum heldur líka á stærri stöðum. Þetta skrifast á ýmsa þætti s.s. breytt rekstrarumhverfi en einnig á opinbera og einkaaðila. Það vantar sárlega samfélagslega ábyrgð í allar ákvarðanartökur í stað þess að ákvarðanir stjórnist eingöngu af hámarks arðsemi og græðgi.

Yfirskrift dagsins er „Húsnæði-sjálfsögð mannréttindi „ við þekkjum öll umræðuna um uppsprengt húsnæðisverð og rokdýrt leiguverð á höfuðborgarsvæðinu þar þarf vissulega að taka til hendinni svo venjulegt launafólk geti átt þess kost að búa við þau mannréttindi að hafa þak yfir höfuðið á sanngjörnu verði. Á landsbyggðinni er annarskonar vandi í húsnæðismálum þar hefur varnarbarátta verið háð lengi vegna neikvæðrar íbúaþróunar en lítið sem ekkert verið byggt sökum lágs markaðsverðs og hás byggingarkostnaðar. Þar er sívaxandi ásókn í sumarhús í þéttbýli og víða skortir orðið leiguhúsnæði fyrir fólk sem er að byrja að búa eða vill minnka við sig og vill búa á landsbyggðinni en hefur ekki aðgengi að fjármagni til að byggja eða kemst ekki í öruggt leiguhúsnæði. Verkalýðshreyfingin hefur farið í samstarf við sveitarfélög í stærstu sveitarfélögunum um uppbyggingu almennra íbúða en landsbyggðin má ekki gleymast þar býr launafólk sem á rétt á að búa við aðgengi að öruggu húsnæði. Launþegahreyfingin hefur skyldur gagnvart öllum launþegum og á að taka slaginn með landsbyggðinni líka í húsnæðismálum.

Verkalýðshreyfingin kom með öflugum hætti að uppbyggingu húsnæðis á landsbyggðinni á sínum tíma og væru mörg byggðarlög illa stödd ef það húsnæði væri ekki til staðar í dag.
Nú þarf Verkalýðshreyfingin ,stjórnvöld og sveitarfélög að horfa til landsbyggðarinnar í uppbyggingu á húsnæði því áframhaldandi þensla á höfuðborgarsvæðinu er engum til góðs.

Ef framboð á húsnæði er ekki til staðar þá fáum við ekki fólk til þess að flytja til landsbyggðarinnar og unga fólkið leitar áfram annað ef húsnæði og atvinnutækifærin eru ekki til staðar.
Verkalýðshreyfingin er fjöldahreyfing sem getur látið til sín taka og haft áhrif ,hún er ekki bara forystan hverju sinni heldur fólkið sjálft sem skipar hreyfinguna . Það fólk þarf að fylgja fast eftir baráttunni fyrir bættum kjörum-baráttunni gegn fátækt og ójöfnuði og fylgja eftir þeirri kröfu að búsetuskilyrði landsmanna séu jöfnuð.

Góðir félagar við erum ein þjóð með fjölbreytta flóru íbúa og eigum auðlindir landsins saman og kjör almennings eiga að endurspeglast í þeirri staðreynd. Það eiga allir að njóta góðs af batnandi hag þjóðarinnar og fá sömu tækifæri í lífinu óháð búsetu og efnahag.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður.
Ræða flutt á 1. maí hátíðarhöldum á Suðureyri 2017.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

90 daga gistileyfi

3. maí 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ég ræddi á Alþingi í dag um lögin um heimagistingu sem tóku gildi um áramótin. Vissulega er ekki langt liðið á árið en alveg ljóst að einhverjar brotalamir eru í ferlinu.

Á fund okkar í fjárlaganefnd hafa komið fulltrúar sveitarfélaga sem hafa haft við þetta frumvarp miklar athugasemdir, bæði vegna þess að sveitarfélög fá ekki tilkynningu um það hverjir skrá sig og svo hafa þau áhyggjur af eftirlitinu. Það sama átti sér stað þegar við fjölluðum um þetta í þinginu, við höfðum áhyggjur af eftirlitsþættinum. Eitt stöðugildi er í eftirlitinu sem vistað er hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Ég tel það morgunljóst að það dugar ekki ef ætlunin er að ná utan um málið.

En áhyggjurnar snúa ekki bara að eftirlitinu að það sé ekki nægjanlega gott heldur var ætlunin að “draga upp á yfirborðið” þá sem væru í svartri starfsemi en sú hefur því miður ekki orðið raunin, að því ég best veit og skráningar ekki ýkja margar.

Síðan er kostnaðurinn líka mun meiri en til stóð. Þetta átti allt að vera miklu einfaldara, þetta átti ekki að vera íþyngjandi.

Í lögunum segir: “Að auki felst í frumvarpinu að einstaklingar sem ætla að bjóða upp á heimagistingu skv. nýrri skilgreiningu þurfi að skrá sig á vef sýslumanna og staðfesta að þeir uppfylli ákveðnar kröfur um brunavarnir sem og ástand og samþykkt eignar sem íbúðarhúsnæðis. Fyrir skráningu verður greitt árgjald, 8000 kr. Þetta er ætlað til að einfalda og bæta eftirlit með leyfislausri starfssemi.”

“Einstaklingar sem skrá sig þurfa ennfremur að skila sýslumanni árlega nýtingaryfirliti og/eða tekjuyfirliti ásamt því að fá úthlutað skráningarnúmeri sem ber að birta og nota í allri markaðssetningu og eins ber að merkja viðkomandi húsnæði með númerinu.”

Sem sagt lagt upp með 8.000 kr. en síðan hefur fólk sem hefur sótt um jafnvel þurft að borga heilbrigðiseftirlitsgjald, hærri fasteignaskatta o.s.frv. jafnvel vegna leigu á sumarbústaðnum sínum eða í öðru húsnæði sem það á og hefur heimild til að leigja á þennan hátt.

Í allri umræðu um þetta mál kom aldrei fram að kostnaðurinn gæti verið á bilinu 100-200 þús. krónur til að fá leyfi auk þess sem þeirra biðu hærri fasteignaskattar.

Þáverandi ráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, sagði: “En það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig þessi lagasetning, sem er gríðarleg einföldun fyrir akkúrat þann hluta sem varðar einstaklingana, mun hafa til þess að færa þessa starfsemi meira upp á yfirborðið. Núna er það þannig að menn falla í efri flokk í fasteignagjöldum ef þeir leigja út. (Forseti hringir.) Þeir þurfa að sækja um rekstrarleyfi, heilbrigðisvottorð og allt það sem fælir fólk frá því að skrá, (Forseti hringir.) en kannski stundar fólk þessa starfsemi þrátt fyrir það.”

Þetta virðist ekki hafa orðið niðurstaðan. Fólk sem ætlar að leigja í 2-3 mánuði á ári er ekki tilbúið til að “koma upp á yfirborðið” þegar greiða þarf hærri fasteignagjöld, leyfisgjöld, heilbrigðiseftirlitsgjöld osfrv. Þess utan er augljóst að einungis einn aðili hjá sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu eigi að sjá um eftirlit á öllu landinu. Það sér hver heilvita maður að það gengur ekki upp. Við þurfum að skoða þetta mál aftur og fara betur yfir það.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Stiklað á stóru í fjármálaáætlun næstu fimm ára

27. apríl 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Frú forseti. Ég verð að byrja á að segja að ég sakna þess að hafa ekki séð formann fjárlaganefndar í dag. Hér er einungis einn fulltrúi úr fjárlaganefnd meiri hlutans. Mér þykir mjög miður að þeir skuli ekki vera hér og hlusta í dag eins og við í minni hlutanum höfum þó gert.

Við erum ekki bara að fjalla um betri rekstur og gagnsæi í fjármálum ríkisins, við erum að fjalla um fólkið í samfélaginu og hvernig við skiptum fjármunum ríkisins til sameiginlegrar neyslu. Skattalækkanir undanfarinna ára hafa veikt tekjustofna ríkisins og dregið hefur úr aðhaldi ríkisfjármálanna í meiri uppsveiflu. Það þýðir að tekjustofnar ríkisins nægja ekki til að fjármagna nauðsynleg útgjöld til uppbyggingar innviða og velferðar þrátt fyrir uppsveifluna. Sex einstaklingar eiga nú jafn mikið og helmingur mannkyns. Auðurinn sópast frá þeim sem minnst eiga og safnast á hendur hinna fáu sem eiga mest.
Sú fjármálaáætlun sem við fjöllum um hér mun ekki sækja fjármuni til þeirra sem meira hafa til að styrkja samneysluna og áform um aukna einkavæðingu og útvistun er það sem koma skal. Aðhaldið sem hér er boðað verður til þess að rekstur sjúkrastofnana hangir áfram á horriminni. Áform um fjölgun hjúkrunarrýma fram til ársins 2022 eru ekki nema rúmlega helmingurinn af áætlaðri viðbótarþörf fyrir ný hjúkrunarrými til ársins 2020.

SAk situr eftir enn og aftur, Sjúkrahúsið á Akureyri, þar til í lok þessarar áætlunar en þá á að hefja undirbúning verksins. Þrátt fyrir langt tímabil hagvaxtar segir ráðherrann að ekki sé hægt að setja meira fé fyrr en um mitt tímabil áætlunarinnar í þennan mikilvæga málaflokk, en þó glittir í heimsmetaorðræðuna þegar ráðherra heilbrigðismála segir aldrei hafa verið eins vel gert.
Ekki stendur til að gera breytingar á réttindum örorkulífeyrisþega í almannatryggingakerfinu til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á réttindum ellilífeyrisþeganna fyrr en á árinu 2019. Það þýðir að öryrkjar búa áfram við flókið kerfi og með krónu á móti krónu skerðingum, sem kemur verulega illa við þann hóp sem verst stendur.

Fæðingarorlof á að hækka í þrem áföngum um 100 þúsund kall, úr 500 í 600 þúsund. Það væri kannski skynsamlegt að horfa til þess að lengja það líka í eitt ár og sjá til þess að allir hafi að minnsta kosti að lágmarki 300 þúsund.

Loksins á að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð, en því miður er það gert í ágreiningi við sveitarfélögin, eins og sjá má af framlögðu frumvarpi félagsmálaráðherra, en þar greinir aðila á um hundruð milljóna. Allt er á sömu bókina lært hvað varðar samskipti við sveitarfélögin. Samkomulagið sem gert var um fjármálastefnuna þar sem taka átti á gráu svæðunum er hjómið eitt og birtist okkur hér.

Háskólarnir eru langt frá því að ná viðmiðum OECD og Norðurlandanna. Framhaldsskólarnir eru skornir niður um 1.700 milljónir á tímabilinu og loforð eru svikin um að fjármunir sem féllu til við styttingu námsins í þrjú ár yrðu eftir í framhaldsskólakerfinu.
Hvað með Listaháskólann, sem er í heilsuspillandi húsnæði? Er gert ráð fyrir að hann komist í langtímahúsnæði? Það sé ég ekki.
Umhverfismálin, loftslagsmálin, mál málanna, þau fá milljarð á næsta ári, lækka svo en hækka svo örlítið árið 2020. Málaflokkur sem ætti að vera í öndvegi fær hér slæma útreið.

Þrátt fyrir nýtt dómstig lækka framlög á tímabilinu um tæpar 400 milljónir. Dómstólasýslan sem á að vera ný og sjálfstæð stjórnsýslustofnun og á að takast á við umfangsmikil verkefni fær ekki til þess fjármuni, en eins og segir á bls. 116 með leyfi forseta:
„Svigrúm fjármálaáætlunar er ekki nægjanlegt til að fjármagna þessi áform.“
Löggæslan hefur þurft að takast á við ótrúlega mörg verkefni, m.a. vegna aukins ferðamannastraums, sem kallar á aukna landamæragæslu og hálendiseftirlit: Áhersla er á netglæpi, kynferðisbrot og heimilisofbeldi, en samt sjáum við í fréttum að barnaníðingur er laus allra mála vegna þess að lögreglan hefur ekki haft mannskap og úrræði.

Gæslan á nú loks að fá að endurnýja þyrlur en erfitt er að sjá að hægt verði að manna þær og skipin okkar með viðunandi hætti, enda kemur fram á bls. 181 að stefnt sé að því að styrkja rekstur Gæslunnar að nokkru leyti á tímabili áætlunarinnar til að mæta lækkuðum tekjum af erlendri starfsemi. Með leyfi forseta:
„Fjárhagslegt svigrúm til fjölgunar áhafna á þyrlur og varðskip er því miður lítið.“

Eru fangelsismálin fullfjármögnuð? Ég veit það ekki og get ekki lesið það út úr þessari fjármálaáætlun. Mál hafa verið að fyrnast undanfarin ár. Samkvæmt áætluninni bíða 550 manns afplánunar. Vandi sýslumanna var viðurkenndur í fjárlagavinnu nú í haust, en eins og kemur fram á bls. 193 næst ekki jafnvægi í rekstri embættanna nema leyst verði úr eldri halla og fjárveitingar auknar. Uppsafnaður halli nemur 266 milljónum. Að öðrum kosti, ef þessu er ekki mætt, mun þurfa að draga verulega úr starfsemi embættanna í formi fækkunar afgreiðslustaða og starfsfólks. Það þýðir fækkun opinberra starfa, m.a. á landsbyggðinni. Ef nýta ætti eingöngu uppsagnir eru það 53 starfsmenn sem hér um ræðir.
Innanríkisráðuneytið hefur fengið aðgerðalista um fækkanir á afgreiðslustöðum. Ég verð að spyrja: Hvað ætlar ríkisstjórnin að ganga langt í fækkun?

Samgöngu- og fjarskiptamál fá 5 milljarða á ári, sem staðfestir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar ætlar ekki að standa við kosningaloforð um uppbyggingu vegakerfisins. Almenningssamgöngurnar bæði á sjó og landi vantar í kringum 250 milljónir árlega til að rétta úr kútnum. Ég sé ekki að gert sé ráð fyrir þeim í þessari áætlun. Hafnirnar og flugvellirnir hafa algerlega setið á hakanum þrátt fyrir að lög segi að ríki eigi að taka þátt í hafnaruppbyggingu. Síðasta ríkisstjórn gat ekki einu sinni klárað flughlaðið á Akureyri þrátt fyrir gefins haug af efni. Nú er boðað að einhverjum flugvöllum verði lokað. Í ár er t.d. eingöngu veitt fé í rekstur flugvalla en ekkert til viðhalds.

450 milljónir eru settar í ljósleiðara næstu þrjú ár. Við verðum að halda því til haga að kostnaður sveitarfélaga og íbúa er gríðarlega mikill og það var ekki uppleggið í upphafi málsins. Enn er talað um fjölda tenginga en ekki að koma á tengingum til litlu, afskekktu byggðanna.

Það þarf að fækka í rannsóknarnefnd samgönguslysa þar sem ekki næst utan um málaflokkinn með öðrum hætti, enda ekki lagðir fjármunir til þess í fjármálaáætluninni. Ætti þessi nefnd kannski að vera með sérstakt rannsóknar- og aðgerðafé? Við skulum velta því fyrir okkur.

Samgönguráðherra sagði að á næstunni kæmi fram byggðaáætlun til sjö ára og verður áhugavert að sjá hvort ekki verður veruleg aukning fjár í sóknaráætlanir því að miðað við fjárlög 2017 er gert ráð fyrir óbreyttu fjárframlagi næstu fimm árin. Í aðra röndina er talað um að færa verkefni nær heimamönnum en svo fylgir sáralítið fjármagn.

Hvað varðar hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna er afar mikilvægt að unnar verði greiningar á því hvernig þetta komi við greinina, ekki síst í hinum dreifðu byggðum þar sem ferðaþjónustan skiptir miklu máli en er ekki enn orðin heilsársgrein. Það er alveg ljóst að einhvers konar mótvægisaðgerðir þurfa að koma til. Ekki er hægt að ganga einvörðungu út frá því hvernig greinin vex á völdum stöðum. Við erum með svokölluð köld svæði, ef svo má komast að orði, en þó skiptir sú atvinna sem ferðaþjónustan skapar þar afar miklu máli þegar kemur að búsetu fólks.

Í stefnu ríkisstjórnarinnar er ekki að finna neitt um húsnæðismál. Í áætluninni lækka stofnframlögin þrátt fyrir að ljóst sé að sá íbúðafjöldi sem áður var rætt um að þyrfti næstu árin dugar engan veginn til. Vaxtabætur lækka verulega frá árinu 2020 og verða óbreytt að raunvirði.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar ætlar samkvæmt fjármálaáætluninni að verja 0,26% af vergum þjóðartekjum til þróunarmála á ári hverju út tímabilið, en til upprifjunar hefur Ísland undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um að fylgja markmiði Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki veiti 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Ekkert bólar á því að Ísland muni uppfylla þessi markmið næstu fimm árin eins og Norðurlöndin hafa gert í áraraðir. Það er skömm ríkisstjórnarflokkanna að leggja slíkt til á tímum efnahagslegs uppgangs.

Fyrirliggjandi er að kjarasamningar um þriðjungs starfsmanna ríkisins eru lausir, þar á meðal kennara, Bandalags háskólamanna og Læknafélags Íslands. Skilaboð fjármálaráðherra eru þau að takmarkað svigrúm sé til launahækkana og í áætluninni er einungis gert ráð fyrir 1,5% viðmiði í kaupmáttaraukningu. Mér þykir afar ólíklegt að þessir aðilar sætti sig við slíkt lítilræði.

Að síðustu er Alþingi gert að draga saman seglin þrátt fyrir yfirlýsingar um að styrkja þingið og þingmenn, sem mikil þörf er á, ekki síst nú þegar við tökumst á við innleiðingu laga um opinber fjármál.

Frú forseti. Vinstri græn standa fyrir frelsi, frelsi til að mennta sig, njóta heilbrigðisþjónustu og eiga sömu tækifæri í stað þess að vera einvörðungu spyrt við hagsmuni sem bornir eru á markaðstorg. Við viljum ekki að frelsi snúist um að samfélagslegar eignir eins og bankar séu færðir í hendur fárra og gróðinn einkavæddur og tapið ríkisvætt. Vinstri græn leggja áherslu á velferðarsamfélag sem byggir á jöfnuði, manngildi og sanngjörnu skattkerfi. Til að svo megi verða þurfa þeir sem hæstu launin hafa að greiða meira til samfélagsins en þeir sem minna hafa, en ekki eins og nú þegar auðmenn geta gengið að því vísu að hægri ríkisstjórnin haldi yfir þeim hlífiskildi.

Það verður að segjast eins og er að það plagg sem við fjöllum um í dag, þetta fimm ára plan hægri ríkisstjórnarinnar, er óásættanlegt. Því hlýtur að verða mikilvægasta verkefni okkar, ásamt þjóðinni, að koma þessari ríkisstjórn frá völdum.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Um kennaraskort

24. apríl 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að eiga þetta samtal hér við mig og þingmenn í dag. Nýútkomin skýrsla frá Ríkisendurskoðun um kostnað og skilvirkni kennaramenntunar á Íslandi leiðir í ljós fyrirsjáanlegan kennaraskort á landinu. Í skýrslunni kemur fram að skráðum nemendum við kennaradeildir Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri hafi fækkað um 35% frá árinu 2009 og að 51% færri nýnemar voru skráðir í deildirnar haustið 2016 samanborið við árið 2009.

Fyrir rétt um ári síðan birtist grein í Fréttablaðinu þar sem Helgi Eiríkur Eyjólfsson meistaranema og Stefán Hrafn Jónsson, prófessor við HÍ, kynntu niðurstöður rannsóknar sinnar. Þar kemur m.a. fram að allt að 50% aukning á útskriftum kennara næstu árin myndi ekki duga til að viðhalda kennarastéttinni. Á árunum 2014–2016 brautskráðust frá HÍ og HA að meðaltali 105 nemendur á ári með réttindi til að starfa á öllum skólastigum en það þarf a.m.k. 200 kennara bara í grunnskólann til að halda stéttinni við þannig að ljóst má vera að vandinn er mikill.

Jóhanna Einarsdóttir, forseti menntavísindasviðs Háskóla Íslands, segir þetta vera það sem þau hafa áður bent á og um sé að ræða samfélagslegan vanda þar sem stórir árgangar kennara eru að fara á eftirlaun og brautskráning kennara ekki haldið í við þá þróun. Hún segir að vilji sé allt sem þarf, málið sé hjá stjórnvöldum enda sé að skapast neyðarástand.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur m.a. fram að um 60% menntaðra leikskólakennara og um helmingur menntaðra grunnskólakennara sé við kennslustörf í leik- og grunnskólum landsins. Það segir okkur að kennaraskortur verður ekki eingöngu leystur með fjölgun kennaranema heldur þarf að horfa á málið í stærra samhengi. Áskorunin felst í því að laða menntaða kennara til starfa og hvetja þá til að halda áfram störfum innan stéttarinnar og þar getum við ekki horft fram hjá kjörum og starfsaðstæðum kennara. Því er ekki úr vegi að spyrja ráðherrann hvort hann telji að það markmið ráðuneytisins að fjölga kennurum yngri en 40 ára á árabilinu 2015–2019 gangi eftir að hans mati.

Viðbrögð ráðuneytisins við skýrslu Ríkisendurskoðunar eru athyglisverð að mörgu leyti. Merkilegast er þó að ekki hafi verið brugðist við fyrir löngu enda vandamálið ekki nýtt af nálinni eins og fram hefur komið. Heildstæð stefna var unnin í fyrra til fimm ára fyrir málefnasvið háskóla og vísindastarfsemi og var sú stefnumótun lögð til grundvallar við fjárlagagerðina. Einnig kemur fram að fjármálastefna ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára sé sett fram til að efla kennaramenntun og stuðla með því að endurnýjun í hópi kennara og betri framvindu nemenda í háskólum.

HÍ og HA segja hins vegar báðir í sínum viðbrögðum við skýrslunni að stjórnendur hafi ítrekað kynnt fyrir menntamálayfirvöldum, með leyfi forseta, „að langvarandi vanfjármögnun háskólastigsins hér á landi hefur hamlað framþróun starfsins, ekki síst nýliðun, endurnýjun innviða og þróun náms og nýbreytni í kennsluháttum“.

Nú þegar hefur HÍ fækkað námsleiðum vegna fjárskorts og HA segir t.d., með leyfi forseta, að það „væri mjög áhugavert að geta boðið bæði tónlistarkjörsvið og myndlistarkjörsvið í samvinnu við framhalds- og sérskóla í bænum“.
Því getur maður ekki annað en spurt sig hvernig ráðuneytið sjái fyrir sér að þetta komi heim og saman þar sem fyrir liggur að sú aukning sem boðuð er til háskólastigsins er allt of lítil og jafnvel er verið að skera niður námsframboð.

Frú forseti. Það er að mörgu að hyggja í þessu máli. Sífellt er sótt harðar að skólunum og starfsfólki þeirra og því mikilvægt að fram komi hjá ráðherra með hvaða hætti hann hyggist tryggja stuðning menntayfirvalda við kennara þannig að skólarnir geti stutt nægilega vel við bakið á yngri og eldri kennurum í þeim fjölþættu samskiptavandamálum sem þeir geta lent í gagnvart ytra starfsumhverfi. Með hvaða hætti mun ráðherra t.d. tryggja stuðning og ráðgjöf til skólastjórnenda og kennara í þeim tilfellum þegar tiltekin mál eru orðin mjög erfið í nærumhverfinu og jafnvel komin til umræðu í fjölmiðlum þar sem kennarar hafa ekki marga möguleika á að tjá sig opinberlega um sín sjónarmið? Ég get heldur ekki látið hjá líða að spyrja hæstv. ráðherra um vanda þeirra nemenda sem búa við geðræn vandamál en sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra þekkir hann að fábrotin úrræði eru til í skólum fyrir þá nemendur. Þetta er eitt af því sem veldur miklu álagi á kennara og nemendur. Eru einhver úrræði í úrvinnslu í ráðuneytinu til að taka á vanda þessa hóps?

Gjarnan er vitnað í Finna þegar kemur að góðu skólakerfi en þess má geta að í Finnlandi er þörfin fyrir sérkennslu greind og brugðist við henni mjög snemma enda er hún hugsuð sem forvarnaúrræði. Í finnskum grunnskólum fengu 28% nemenda sérkennslu árið 2013. Margir telja að sérkennslukerfi þeirra sé einn meginþátturinn í framúrskarandi árangri og jöfnuði sem einkennir finnska skólakerfið.

Ég veit að spurningarnar eru margar og ég vona að ráðherra komist yfir að svara þeim. Ég ætla að fara aðeins yfir þær. Sú fyrsta varðar Ríkisendurskoðun sem hvetur stjórnvöld til að grípa til aðgerða til að sporna við yfirvofandi kennaraskorti og dvínandi aðsókn í kennaranám. Mun ráðherra beita sér fyrir einhvers konar ívilnunum, t.d. í gegnum námslánakerfið eða með öðrum hætti? Telur ráðherra að breyta þurfi kennaranáminu á einhvern hátt? Ef svo er, hvernig? Er ráðherra sammála því að laun kennara séu ein orsök þess að einungis um helmingur útskrifaðra kennara ræður sig til kennslu? Telur ráðherra að sveitarfélög séu almennt fjárhagslega í færum til að bregðast við kennaraskorti? Hvað hefur verið gert af hálfu ríkisstjórnarinnar til að laða menntaða kennara til starfa og hvað er ráðgert í því efni á næstu mánuðum? Með hvaða hætti telur ráðherra að hægt sé að bæta starfsaðstöðu í skólum, gera kennarastarfið eftirsóknarverðara og efla skólastarf í landinu?

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

24. apríl 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Fyrir páska var til umræðu fjármálaáætlun hægri stjórnarinnar. Ég lagði orð í belg.

Frú forseti. Við ræðum fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 sem lengi hefur verið beðið eftir, er óhætt að segja. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum alla vega beðið og rætt um það að miðað við stefnuna sé ekki von á góðu. Því miður hefur það orðið raunin. Stefnan staðfestir það sem við Vinstri græn og fleiri höfum haldið fram í umræðunum, þ.e. að sú sókn í innviðauppbyggingu sem boðuð var af hálfu Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar fyrir kosningar sé hér fyrir borð borin.

Fjálglega er talað um sókn í velferðarmálum og að bjart sé fram undan eins og hæstv. ráðherra sagði, jafnvægi og framsýni séu það sem áætlunin beri í skauti sér. Ríkisstjórnin ætlar að herða verulega á aðhaldskröfunni, bæði til ráðuneyta og ríkisstofnana. Aðhaldsmarkmiðið verður almennt 2% á næsta ári og tekur til fleiri málefnasviða en lagt var upp með í fjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar; 2% veltutengt aðhald á næsta ári og eru það eingöngu heilbrigðis- og öldrunarstofnanir sem búa við 0,5% aðhaldskröfu.

Þessi 2% aðhaldskrafa nær til framhaldsskólastigsins, háskólastigsins. Þar verður aðhaldið fjórum sinnum strangara en það hefði verið samkvæmt ríkisfjármálaáætlun Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það er lækkun á dómstólakerfinu, sveitarfélögunum og byggðamálunum, ferðaþjónustumálum, framhaldsskólakerfinu og í húsnæðisstuðningi. Fram kemur að uppsöfnuð lækkun á útgjaldavexti ríkissjóðs verði í kringum 29 milljarðar til og með árinu 2022 og í heildina nemi uppsafnað aðhald út tímabilið 90 milljörðum. Þetta er á bls. 57.

Átti ekki að stórauka framlög til skólamála? Af þeim 660 milljónum sem háskólarnir hækka um milli 2017/18 fer stærsti hlutinn, eins og hér hefur verið bent á, í byggingu húss íslenskra fræða. Eina úrræði ríkisstjórnarinnar er að benda á að takmarka eigi nemendafjölda í háskólum ef tryggja eigi sambærilega fjármögnun og á hinum Norðurlöndunum. Talað er um yfirvofandi kennaraskort en engar tillögur um hvernig hægt sé að mæta honum. Það er jú sagt að við þurfum að endurskoða lögin um menntun þeirra og gera aðgerðaáætlun. Þetta er ekki nýtt vandamál.

Framhaldsskólarnir fá ekki að njóta fjármunanna sem sparast áttu við fækkun nemenda þrátt fyrir miklar yfirlýsingar þess efnis.

Framlög til sjúkrahússþjónustu eru um 7,3 milljarðar kr. á tímabilinu 2018–2022 ef frá eru talin framlög vegna byggingar nýs Landspítala. Það liggur alveg fyrir, eins og hér var rakið áðan af hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, að þessir fjármunir nægja engan veginn til að styrkja rekstur heilbrigðisþjónustunnar enda vandséð að hún muni halda í við fjölgun sjúklinga, hvað þá að hægt sé að standa við loforð um lægri greiðsluþátttöku sjúklinga eins og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ítrekað sagt.
Ég hef miklar áhyggjur af að þessi ríkisstjórn ætli að halda áfram á braut útvistunar og einkavæðingar.

Ég geri ekki lítið úr áformum um fjölgun sálfræðinga á heilsugæslum. Það var ákveðið í tíð síðustu ríkisstjórnar og góð áform eru hjá núverandi ríkisstjórn í þessa veru. Því miður get ég ekki séð að þessu séu ætlaðir nægjanlegir fjármunir.
Tíminn er lítill og af mörgu að taka. Í stefnu ríkisstjórnarinnar er ekki að finna neitt um húsnæðismál. Í þessari áætlun lækka stofnfjárframlögin þrátt fyrir að ljóst sé að sá fjöldi íbúða sem áður var rætt um að þyrfti næstu árin dugar engan veginn til. Gerðir voru ákveðnir samningar en það er alveg ljóst að það dugar engan veginn til. Vaxtabætur lækka verulega og frá árinu 2020 verða þær óbreyttar að raunvirði. Stóra málið í fjölskylduaðgerðum ríkisstjórnarinnar í baráttunni gegn fátækt er að setja af stað heildarendurskoðun um stuðning við barnafjölskyldur og þar eru hugmyndir um að hafa einar barnabætur þar sem settar eru saman hefðbundnar barnabætur og allar þær bætur sem foreldri fær í gegnum almannatryggingar. Það fer vonandi ekki sömu leið og gagnvart eldri borgurum sem endaði með því að mun færri fengu hækkun en ella hefði verið.

Í málaflokki 27, sem fjallar um örorku og málefni fatlaðs fólks, er gert ráð fyrir fækkun öryrkja, m.a. í gegnum starfsgetumat. Það er varhugavert að ætla að innleiða starfsgetumat áður en kannað hefur verið til hlítar hverjar afleiðingar þess gætu orðið fyrir þann hóp sem skal undir slíkt seldur. Kjör örorkulífeyrisþega eru léleg og ekki skánuðu þau við aðgerðir síðustu ríkisstjórnar. Ég tek undir þær hugmyndir að lengja tímabil sem einstaklingur getur verið á endurhæfingarlífeyri og tel mikilvægt að til séu staðir fyrir fólk sem er í endurhæfingu frekar en að pressan sé á atvinnuþátttöku því að almennt er vinnumarkaðurinn ekki svo áfjáður í að fá öryrkja til starfa.

Það kemur fram hækkun á bls. 54, í kafla um launa- og verðlagsforsendur og forsendur um hagrænar breytingar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Bætur og almannatryggingar eru áætlaðar í samræmi við meðalprósentuhækkanir launa á vinnumarkaði þar sem gert er ráð fyrir að þær verði umfram verðbólgu á tímabilinu. Miðað er við að hækkun bóta verði á bilinu 3,1–4,8%.“
Þetta er langt undir hækkun lágmarkslauna og þýðir í raun að staða lífeyrisþega versnar.

Loks á að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð. Því miður er það í ágreiningi við sveitarfélögin eins og sjá má á framlögðu frumvarpi félagsmálaráðherra en þar greinir á um hundruð milljóna. Allt er á sömu bókina lært hvað varðar samskipti við sveitarfélögin. Samkomulagið sem gert var um stefnuna, þar sem taka átti á gráu svæðunum, er hjómið eitt og birtist okkur hér. Meðaltal NPA-samnings vegna ársins 2014 var rúmlega 11 milljónir og kostnaðarþátttaka ríkisins hefur á þeim tíma farið úr 20% í 25%, en sveitarfélögin telja að hún þurfi að vera 30%. Á þessum tíma voru það í kringum 5.000 manns sem nýttu sér slíka þjónustu. Þeim á örugglega eftir að fjölga.

Það er óneitanlega sérkennilegt að lesa á bls. 328, með leyfi forseta:

„Staðan í málefnum barna með geð- og þroskaraskanir einkennist af skorti á heildarsýn, sem og skorti á samþættingu og samstarfi og skorti á þjónustu á ákveðnum sviðum.“

Afleiðing af þessu er meðal annars sú að ungum öryrkjum fjölgar. Mér þykir þetta segja afar mikið um aðgerðaleysi síðustu ríkisstjórnar og get eiginlega ekki séð að á þessu sé tekið í þessari áætlun. En það er nú reyndar þannig að það er erfitt að átta sig á mörgu, enda bara um heildarsummu að ræða í hverjum málaflokki og lítið sem ekkert brotið niður á málefnin og við því í algeru tómi með það hvernig fjármunum er ráðstafað.

Umhverfismál sem talin eru með allra mikilvægustu málaflokkum næstu áratuga — hvað sjáum við þar? Loftslagsmálin sem okkur verður svo tíðrætt um? Framlög til þessa málaflokks hækka í kringum milljarð á milli áranna 2017–2018 en svo lækka þau á milli 18 og 19. Það er ekki ásættanlegt hjá ríkisstjórn sem segist ætla að setja loftslagsmál í öndvegi.

Ég vil svo í lokin, því að tíminn flýgur áfram og maður veður á súðum við að koma sem mestu að, spyrja hæstv. ráðherra um nokkur atriði.

Á bls. 11 í áætluninni segir, með leyfi forseta:

„Auk þess verður settur skýrari rammi um hagnýtingu náttúru og auðlinda ríkisins, bæði til lands og sjávar. Þar þarf meðal annars að líta til tekjuöflunar ríkisins og sjálfbærni við nýtingu auðlindanna.“

Hvað er átt við? Hvaða mál eru hér í farvatninu? Verður til dæmis aðgangur að laxeldisleyfi áfram án auðlindagjalda?

Síðar segir:

„Koma þarf á samræmdu kerfi grænna skatta sem fela í sér eðlilegar álögur á mengandi starfsemi og skapa jafnframt hvata til samdráttar í losun og til annarra mótvægisaðgerða. Útfærsla á því krefst góðs undirbúnings, en fyrsta skrefið er stigið með þessari fjármálaáætlun og felst það í hækkun kolefnisgjalds.“

Eins og hæstv. ráðherra kom hér inn á. En felst losun mengandi starfsemi eingöngu í losun kolefnis? Er kolefnisgjald lagt á fleira en útblástur bifreiða, samanber undanþágur sem stóriðjan hefur, að minnsta kosti á hluta gjaldsins? Hvaða grænu skatta er ætlunin að samræma og með hvaða hætti? Hvaða stefnu aðhyllist ríkisstjórnin við skattlagningu rafbifreiða sem dregið hafa úr losun kolefnis? Verða þeir skattlagðir vegna tekjumissis ríkissjóðs? Í hverju felast í raun aðgerðir til að draga úr losun kolefnis?

Ég verð líka í blálokin að gagnrýna og taka undir með Mark Bly, prófessor í alþjóðlegri stjórnmálahagfræði. Hann hefur gagnrýnt fjármálaregluna sem er algerlega í anda þess sem við Vinstri græn ræddum þegar lögin voru samþykkt og mér finnst birtast hér í stefnunni og nú áfram í ríkisfjármálaáætluninni. Regluna sem er við lýði þekkjum við, en Mark Bly bendir á að fjármálareglur á borð við þessar séu að verða æ algengari. Þannig sé engu líkara en að reynt sé að festa í sessi og gera nánast óafturkræfa þá aðhaldsstefnu sem riðið hefur húsum víða um heim undanfarna áratugi. Slíkt gagnist engum nema lánardrottnum og ráðandi stéttum.

Undir þetta verð ég því miður að taka því að mér finnst allt benda í þá átt þegar við lesum þessa áætlun.
Ég ætla líka í lokin að varpa fleiri spurningum fram. Ýmist er talað um krónutölu eða hlutfallsaukningu í þessu plaggi sem er erfitt að nálgast; og það styður ekki gagnsæi. Hvers vegna er ekki búið að samræma markmiðasetningu ráðuneyta? Sum ráðuneyti eru hér með kostnaðartölur, önnur ekki, og sum hreinlega taka alls ekki á þessu og vinna ekki samkvæmt núverandi lögum, þau skila bara hálfköruðu verki (Forseti hringir.) til þingsins og ætla okkur svo að klára að vinna slakann.
Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að geta ekki komið í fleiri ræður í þessari atrennu.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Ungt fólk til ábyrgðar!

5. apríl 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Í störfum þingsins í dag.

Í morgun varð ég þess heiðurs aðnjótandi að stýra fundi sem bar heitið Raddir unga fólksins – er hlustað á skoðanir ungmenna? Þar var á ferðinni ungmennaráð Barnaheilla, umboðsmanns barna og UNICEF ásamt fulltrúa Ungmennafélags Íslands.

Ég velti fyrir mér í framhaldinu þegar verið er að tala um ungmennaráð að við erum með starfandi ungmennaráð hjá ýmsum félagasamtökum og við erum með starfandi ungmennaráð hjá sveitarfélögum. Nú hefur því verið velt upp í hópnum, talsmenn barna hér á Alþingi, að stofna ungmennaráð Alþingis. Það er nokkuð sem við ætlum að taka fyrir og skoða og ég vona að við berum gæfu til að finna flöt á því að ungmenni hafi hér aðgang að ákvarðanatöku. Við erum að velta fyrir okkur: Geta ungir haft völd? Hvaða eiginleika þarf til að hafa völd í samfélaginu?

Það eru uppi staðalímyndir, bæði hjá okkur eldra fólkinu og líka unga fólkinu. Geta ungir t.d. aukið þekkingu eldra fólks í pólitík eða veldur aldurstengd valdauppbygging kerfisbundinni mismunun, t.d. ef við horfum til þess hvernig strúktúrinn er í skóla, á milli ungra nemenda og eldri nemenda?

Er það ekki okkar að veita upplýsingar, vera ráðgefandi og þiggja ráð og ábendingar með því að bjóða öðrum til viðræðna við okkur, t.d. á þingi, gefa þeim val um það að taka þátt? Lýðræðisfræðsla snýst ekki um að skipta upp í lið, börn og fullorðnir, heldur að allir séu tilbúnir að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi, hver á sínum forsendum. Kosningaþátttaka var eitt af því sem var rætt í morgun og hugnast öllum þeim sem tóku til máls að færa kosningaaldur niður í 16 ár. Því skora ég á þingheim að taka vel í tillögu okkar Vinstri grænna um það mál en við höfum lagt til að byrjað verði á því að 16 ára ungmenni fái að kjósa til sveitarstjórna vegna þess að það krefst ekki breytingar á stjórnarskrá. Með því getum við sýnt í verki að við viljum fá álit þeirra á málefnum sem skipta ekki bara þau máli heldur okkur öll.

Svo vil ég minna á að um helgina verður haldin ráðstefna ungmennaráðs UMFÍ þar sem umfjöllun verður um lýðræðið og það að ungt fólk er leiðtogar nútímans, ekki bara framtíðarinnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Öryggi barna og staða lögreglunnar

4. apríl 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ræddi málefni barna og öryggi þeirra í dag í störfum þingsins.

Mig langar að taka undir orð hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur um Bláan apríl. Við eigum að hugsa alla daga sem daga barna, burt séð frá því hvort við erum að tala um dag einhverfunnar, um áfengi í búðir eða hvað svo sem við erum að fjalla um.

Það er ástæða þess að ég ætlaði að eiga hér orðastað við hv. þm. Vilhjálm Árnason sem er staddur erlendis. Hann er lögreglumaður og þingmaður og hefur starfað í fjárlaganefnd og er nú í allsherjar- og menntamálanefnd. Mig langaði til að ræða við hann um stöðu lögreglunnar eftir að við höfum litið fjármálaáætlun augum.

Það kom nefnilega fram, og hefur verið í blöðum bæði í gær og í dag, að barnaníðingur fær ekki viðeigandi refsingu vegna þess að lögreglan hefur ekki haft tilskilin úrræði til að bregðast við. Það kemur fram, og er haft eftir yfirlögregluþjóni sem að málinu kom, að sá langi tími sem fór í rannsóknina skýrðist af gríðarlegu umfangi gagna en líka af því að tölvurannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu byggi við mannfæð. Fjöldi mála væri til rannsóknar en kerfið réði ekki við að fá jafn umfangsmikinn pakka og hér var um að ræða.

Að sjálfsögðu þykir yfirlögregluþjóni ekki gott að lögreglan hafi ekki þau úrræði sem til þarf til að takast á við slíkt. Ef eitthvað er þá hlýtur það að vera frumskylda okkar þingheims að sjá til þess að börnin okkar búi við öryggi, að við og börnin okkar þurfum ekki að óttast að barnaníðingar á hverjum tíma gangi lausir og að við þurfum að horfast í augu við það sem foreldrar að þeir nálgist börnin okkar og barnabörnin. Lögreglan hefur ekki mannafla til að takast á við þetta verkefni og hún hefur það ekki með nýrri ríkisfjármálaáætlun, þar sem fé til hennar er engan veginn nægjanlegt.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Áfram um ómögulega stefnu ríkisstjórnarinnar

4. apríl 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Hélt áfram á dögunum að ræða fjármálastefnu hægri stjórnarinnar. Hér er krækja á hið talaða mál fyrir þá sem nenna ekki að lesa. http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20170329T175133

Ég ætla að ræða þessi mál aftur enda eru þau brýn. Ég verð að byrja á að grípa upp það sem átti sér stað í andsvörum. Við í fjárlaganefnd fengum ágætisminnisblað um skuldir og vaxtagjöld ríkissjóðs og þróun og samsetningu heildarskulda. Þar er kafli sem heitir: Þróun vaxtagjalda ríkissjóðs. Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að það sé dyggð og kostur að greiða niður skuldir hef ég haldið því fram að við ættum að fara hægar í það, m.a. vegna þess að það kostar líka sitt að fresta uppbyggingu innviða eins og gert hefur verið allt síðasta kjörtímabil. Í ljósi þess að hér var hagsveifla og heldur áfram, og í ljósi þess að ágætlega hefur árað, tel ég að það hafi verið mistök að fara jafn hratt í niðurgreiðslu skulda og gert hefur verið. Hér kemur fram, með leyfi forseta, og það er eitt af því sem er mikilvægt út af samsetningu lána:
„Vextir óverðtryggðra ríkisbréfa eru allt frá 5% upp í 8,75%.“ — Mjög háir vextir. —„Vextir verðtryggðra bréfa eru á bilinu 3-3,8%. Vextir á skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjadölum eru tæplega 6%, af láni sem var tekið árið 2012, og vextir á evruskuldabréfum ríkissjóðs eru um 2,5% af láni sem var tekið árið 2014. Bæði lánin eru með föstum vöxtum og eru óuppgreiðanleg. Ef ríkissjóður hefði áhuga á að leysa til sín hluta af þeim útgáfum þarf að kaupa þær til baka á markaðsvirði.“

Þetta þýðir að við greiðum ekki beint niður það sem er okkur hvað óhagkvæmast og dýrast og getum illa ráðið við það. Auðvitað er þá gott, þegar kemur að stóru skuldadögunum á næsta ári og síðar, að geta verið búin að búa í haginn með niðurgreiðslu að einhverju leyti. Það breytir því ekki að ég er þeirrar skoðunar að það sé allt of dýrt að fresta uppbyggingu innviða eins og gert hefur verið — og mér sýnist, miðað við þessa ríkisfjármálastefnu, að eigi að gera áfram — nema ef þeir verða hólfaðir sérstaklega niður. Mér finnst maður æ oftar heyra það í umræðunni að fara eigi í uppbyggingu í helbrigðiskerfinu, sem er vel. Einhvern veginn virðist hitt vera sett til hliðar, sem þó hefur verið rætt töluvert bæði úti í samfélaginu og hér á þingi, þ.e. þeir milljarðar sem eiga að fara í stofnframlög vegna húsnæðismála sem félagsmálaráðherra hefur fullyrt að staðið verði við og tengdust kjarasamningagerð og svo uppbyggingu í vegakerfinu, svo að það sé tiltekið hér.

Mér sýnist, miðað við þessa stífu áætlun sem lokuð er inni til næstu fimm ára, að þetta geti orðið verulega erfitt. Við vitum, og það kemur fram í áliti fjármálaráðs og ASÍ og hjá fleirum, að hlutur tekjuskatts í fjáröflun ríkisins í tíð síðustu ríkisstjórnar var veiktur, þ.e. þriggja þrepa kerfið varð að tveggja þrepa kerfi. Ekki var ákveðið að halda áfram með innheimtu auðlegðarskatts eða annað slíkt. Peningastefnunefnd Seðlabankans ítrekar að þessar aðgerðir hafi ekki stutt við peningastefnuna. Þar að auki komu þessar ráðstafanir þeim skattgreiðendum einum að gagni sem voru sæmilega vel haldnir með tekjur. Tekjujöfnunaráhrif tekjuskattsálagningarinnar voru fyrir bí með þessu.

Forsætisráðherra, sem er ekki lengur fjármálaráðherra, boðar á fundi í dag lækkun virðisaukaskatts. Það þýðir væntanlega samt hækkun á einhverju. Við erum jú með tvö þrep, 11 og 24%. Mér þykir líklegt — þar sem það hefur áður verið viðrað af hans hálfu í þinginu að hafa þetta hlutfall í kringum 19%, að það þyrfti að vera það — að það komi til með að skipta gríðarlega miklu máli hverjar mótvægisaðgerðirnar verða. Ef maturinn fer í 19% virðisaukaskattsþrep, ef við gæfum okkur að það yrði niðurstaðan, greiða allir sama hlutfall hvað það varðar, hvort sem þeir búa vel eða ekki, þ.e. án tillits til tekna eða efnahags. Sú skattbyrði mun þá leggjast mun þyngra á þá sem minna hafa en þá tekjuhærri eins og eðlilegt er, við fáum jú matinn á sambærilegu verði. Ég sé ekki fyrir mér hvernig þær mótvægisaðgerðir gætu litið út. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var það ekki gert nema að mjög takmörkuðu leyti, þ.e. gagnvart þeim sem minnst höfðu.

Tollar og vörugjöld voru felld niður en mér finnst það ekki hafa skilað sér nema að afar litlu leyti til neytenda. Það veikti hins vegar peningastefnuna og efnahagskerfið. Áður en farið verður í frekari breytingar í þessa átt væri skynsamlegt að láta taka það út hvort þetta hafi skilað sér til neytenda með beinum hætti. Allt þetta veikir þær forsendur sem hér eru undir.
Hér hefur líka verið rætt um að leggja skatta á ferðaþjónustuna. Helst hefur verið rætt um bílastæðagjöldin, ekki hefur margt annað verið viðrað. Það hefur reyndar aðeins komið til tals að setja gistináttaskatt. Mig minnir að það hafi verið sjálfur ráðherrann sem sagði í gær að hann gæti séð það fyrir sér að hann renni til sveitarfélaganna. Það væri náttúrlega vel. En það þarf að gera miklu meira en að ræða um það, það þarf að láta hendur standa fram úr ermum. Það yrði þá partur af samkomulagi ríkis og sveitarfélaga sem ekki hefur verið gengið frá að fullu.

Ég hef töluverðar áhyggjur af því að þetta gangi ekki eftir. Það er talað um eftirspurnarþenslu. Við þekkjum að það getur hrundið verðbólgu í gang og viðskiptahalla við útlönd og þetta sem gert var, eins og ég rakti áðan, á síðasta kjörtímabili studdi ekki við það. Hvað þá ef fólk ætlar að fara í eitthvað slíkt áfram núna.

Forsætisráðherra nefndi að tryggingagjald yrði lækkað á kjörtímabilinu. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra talaði líka um það, þegar hann ræddi fjármálastefnuna og mælti fyrir henni, að lækka tryggingagjald. Ég hvet bæði formann fjárlaganefndar og aðra til að hugleiða það aðeins. Það var lækkað um 0,5% í tengslum við kjarasamningana á sama tíma og Fæðingarorlofssjóður er ekki tryggur til nánustu framtíðar ef áform ganga eftir um þann útgjaldaauka sem þar er undir, sem bæði varðar lengingu á fæðingarorlofinu og hækkun á þakinu. Mér finnst mjög margt vera að koma fram úti í samfélaginu en ekki endilega hér á þinginu, af hálfu ráðherranna, sem ekki styður við það sem hér er lagt fram.
Fjárlaganefnd fór í heimsókn til Ríkisendurskoðunar og fjársýslunnar í morgun. Ég vil aðeins fara ofan í það hvers vegna við höfum áhyggjur af þessari stefnu. Við höfum áhyggjur af því að hún sé lokuð inni á þann hátt sem hér er gert, þ.e. með útgjaldaþaki og skuldaviðmiði; hún er lokuð allan hringinn. Svo er það aðkoma þingmanna sem við höfum rætt töluvert og ástæða er til að hafa áhyggjur af. Mér finnst að niðurstaða þurfi að fást í það samtal. Umboðsmaður Alþingis hefur lýst áhyggjum sínum við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og ríkisendurskoðandi tók undir það í morgun. Sú stofnun og fleiri hafa líka lýst því yfir að ef til vill þurfi að fara ofan í þetta verklag, að fólk hafi ekki endilega séð það fyrir, þegar það sat við að semja lögin, hvernig margt af því sem þarna er undir kæmi út í praxís. Það er eitthvað sem við þurfum að reyna að átta okkur á, hvort við teljum að gera þurfi breytingar nú þegar eða hvort við ætlum að láta þetta ár líða og ganga í gegnum það alveg til enda og taka svo á því á næsta ári. Eða hvað?

Við höfum mikið rætt aðkomu þingmanna, m.a. vegna þess að okkur finnst mörgum hverjum gagnsæið ekki vera til staðar, ekki í tengslum við stefnuna núna, að hún nái utan um áætlunina. Og þó að við fáum málefnasviðin á föstudaginn í gegnum áætlunina þá geti líka verið erfitt að átta sig á niðurbrotinu sem kemur ekki í ljós fyrr en við fjárlagagerðina. Þá er spurning hver aðkoma fjárlaganefndar eigi að vera frá áætlun og fram til fjárlaga. Á hún að vera einhver? Á þetta alfarið að vera ráðuneytisplagg? Þá þurfum við að horfa til þess að við verðum væntanlega að afgreiða áætlunina undir lok þings. Það er ekki ósennilegt að það verði úr, í lok maí, á því tímabili. Þá er þingið að fara í leyfi. Það er í leyfi fram í miðjan ágúst þegar kalla má nefndir saman aftur. Ég velti þessu fyrir mér: Þýðir það breytta vinnufyrirkomulag að við höfum ekki aðkomu nú frekar en áður?

Frumvarpið hefur jú alltaf komið ofan úr ráðuneyti og frá ráðherra. Þá höfum við heldur ekki nein áhrif á þessa skiptingu fyrr en þetta er orðin staðreynd. Er það eitthvað sem við viljum? Eins og við þekkjum hefur sundurliðunin ekki gildi sem lögformlegt plagg að öðru leyti en sem fylgirit, hún er ekki þingskjal í merkingu þess orðs. Þess vegna vorum við í flækju með það þegar við reyndum að gera breytingar á því í desember. Það er eitt af því sem við verðum að fá úr skorið, þ.e. hvernig við eigum að gera það. Ég held að það sé alveg tært. Við erum búin að átta okkur á að ráðherrar taka það mismikið til sín, það sem ekki var tíundað í greinargerð, virðast ekki álíta að þeim beri að fara eftir því o.s.frv. Þrátt fyrir að vilja hafi verið lýst hér í þinginu, jafnvel í álitum og í orðræðu, virðist það sem ekki kom beinlínis fram í texta ekki vera tekið með. Þetta er eitthvað sem við getum ekki beðið með, við getum ekki látið árið líða að öllu leyti að mínu viti. Ég held að það sé margt sem við þurfum að huga að.

Ég hefði líka viljað koma inn á margt annað í ljósi þeirra fregna sem bárust í dag, um skýrsluna um Búnaðarbankann, m.a. vegna þess að við stöndum frammi fyrir því að selja bankana sem töluvert hefur verið rætt í þessari umræðu. Þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra segi að það byggist ekki allt á sölu bankanna, heldur telji hann að hann geti gengið út frá tilteknum arði í staðinn ef honum ekki tekst að selja þessar stofnanir, held ég að skýrsla dagsins í dag hljóti að marka þau spor að við getum með engu móti annað en gengið úr skugga um og tryggt gagnsæi í eignarhaldi, að yfirvöld verði ekki blekkt. Því hver á að gæta hagsmuna fólksins í landinu? Það klikkaði í þessu samhengi hjá Búnaðarbankanum. Ég held að það sé ljóst að við þurfum að vera með það á hreinu hver á að sjá um það í því ferli sem fram undan er.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Fjármálastefna hægri stjórnarinnar - ræðan mín - langhundur :-)

29. mars 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Hérna er ræðan mín en þeir sem nenna ekki að lesa en vilja hlusta þá þarf að kópera slóðina og hún er hér: http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20170328T152847

Herra forseti.

Ég ætla að fara yfir álit 1. minni hluta um tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu, sem skylt er að leggja fram samkvæmt lögum um opinber fjármál. Þingsályktunartillagan er nú lögð fram öðru sinni. Fyrst var slík tillaga lögð fram á 145. löggjafarþingi og var samþykkt 18. ágúst sl. Þá var um leið lögð fram þingsályktunartillaga um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 og var hún samþykkt og byggðist hún á stefnunni, eins og sú sem við fáum væntanlega á föstudaginn.

Það er vissulega stutt síðan lög um opinber fjármál voru samþykkt og því má sjá að innleiðing þeirra nýju starfshátta sem þeim fylgja stendur enn yfir og nýjabrum er á ýmsu í framkvæmdinni. Það á þó ekki við um þá þingsályktunartillögu sem við erum hér að fjalla um, að hún beri vott um einhverja nýbreytni. Þvert á móti er hún afar áþekk þeirri sem lögð var fram 2016 af hálfu Bjarna Benediktssonar, þáverandi fjármálaráðherra, enda þótt alþingiskosningar hafi farið fram síðastliðið haust og ný ríkisstjórn verið mynduð í janúar, eins og við þekkjum, og fjármála- og efnahagsráðherra komi nú úr öðrum flokki.

Fjármálastefna áranna 2017–2022 er afar keimlík stefnu fyrri ríkisstjórnar og það eru engar umtalsverðar breytingar áformaðar á tilhögun ríkisfjármála á gildistíma hennar. Þannig er sá tónn sem sleginn er fyrir uppbyggingu innviða samfélagsins og opinberrar starfsemi í þágu landsmanna ærið dimmur og dapurlegur og væntingar til fjármálaáætlunar, sem birta á á föstudaginn, geta ekki orðið annað en smáar fyrir hönd velferðarkerfisins og félagslegra viðfangsefna.

Það verður að segjast eins og er að það er frekar bagalegt að meiri hluti fjárlaganefndar skuli ekki taka tillit til flestra þeirra þátta sem fjármálaráð leggur til, þeir eru afar mikilvægir, en við umræðu um gerð laganna var einmitt lögð áhersla á mikilvægi ráðsins sem óháðs aðila. Það hlýtur að teljast alvarleg athugasemd þegar fjármálaráð segir, eins og var komið inn á áðan, að markmið stefnunnar geti orðið til þess að stjórnvöld geti fests í atburðarás þar sem þau fái ekki rönd við reist ef spár ganga ekki eftir. Og fjármálaráð staðfestir það sem við Vinstri græn höfum ítrekað sagt, að sjálfvirka sveiflujöfnunin var veikt þegar milliþrepið í tekjuskattskerfinu var lagt niður. Fjármálaráð bætir um betur og segir að með tekju- og útgjaldastefnunni sé sjálfvirki sveiflujafnarinn beinlínis tekinn úr sambandi. Fjármálaráð bendir einnig á að stjórnvöld þurfi að undirbúa sérstakt áhættumat eða sviðsmyndir til að auka gagnsæi stefnunnar og undirbúa viðbrögð, en ekki hefur heldur verið gerð tilraun til að mæta þeirri óvissu sem bent er á að sé í stefnunni.

Það er mjög mikilvægt að minnast þess varðandi fjármálaráð og umræðuna um það á sínum tíma þegar lögin voru sett að lögð var fram tillaga um að fjármálaráð yrði staðsett í fjármálaráðuneytinu. Því höfnuðum við í minni hlutanum vegna þess að ráðið á að vera algjörlega sjálfstætt og óháð í verkum sínum og það er það auðvitað ekki ef það er staðsett þar.
Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um opinber fjármál á að byggja fjármálastefnu á sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi. Í fyrirliggjandi tillögu eru þau skilyrði laganna nýtt til að undirbyggja slíka aðhaldsstefnu í opinberum rekstri og hún hlýtur óhjákvæmilega að koma hart niður á getu samfélagsins til að sinna sameiginlegum verkefnum og vekur upp spurningar um hlutverk ríkissjóðs, sveitarfélaga og opinberra fjármála almennt.

Segja má að tvennt einkenni tillögu að fjármálastefnu öðru fremur. Annað er markmið um ærinn afgang af rekstri ríkissjóðs, eða í kringum 250 milljarðar á gildistíma áætlunarinnar, og hitt eru svo áform um verulega lækkun skulda A-hluta ríkissjóðs. Hvort um sig er í sjálfu sér góðra gjalda vert og gæti átt ágæta samleið við heppilegar kringumstæður, en eins og málum er háttað virðast ekki líkur á hagfelldri niðurstöðu af slíkri fjármálastefnu. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2017 er gert ráð fyrir að skuldir ríkisins lækki um nálægt 130 milljarða á árinu. Forsendur þess að þau áform gangi eftir byggjast m.a. á því að eignarhlutur ríkisins í Arion banka verði seldur. Þar sem veruleg óvissa ríkir um andvirði þeirra 13% hlutafjár í bankanum sem eru í eigu ríkisins er ljóst að brugðið getur til beggja vona með niðurstöður þessara áætlana. Þess vegna var umræðan áðan afar áhugaverð. Það hlýtur að teljast eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur ef ráðherrann segir eitt og meiri hluti fjárlaganefndar annað.

Það eru miklir almannahagsmunir tengdir eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og áformum um ráðstöfun þeirra. Því verður að gera þá eindregnu kröfu til stjórnvalda að þær aðgerðir sem beitt verður standist fyllilega kröfur um óhlutdrægni og gagnsæi en verði ekki tilefni til vantrausts, tortryggni og gruns um að hagsmunir almennings hafi verið sniðgengnir. Ég tek því undir það sem kemur fram í áliti meiri hlutans hvað þetta varðar, að mjög mikilvægt sé, eins og þeir segja, að svara spurningum á borð við hvernig bankarnir verði best búnir undir að fara í söluferli og að það geti verið kostur að leita til erlendra aðila um ráðgjöf og umsýslu vegna sölunnar. Ég held að það geti verið afar gagnlegt og skapi það traust sem okkur vantar og við höfum séð núna. Þegar við horfum til þeirra almannahagsmuna sem tengdir eru þessum eignarhlutum vil ég halda því til haga að í kringum 67% landsmanna vilja ekki að ríkið selji hlut sinn í Landsbankanum, helmingur er á móti því að ríkið selji hlut sinn í Íslandsbanka og Arion banka. Það var gerð könnun áður en þó var upplýst um að vogunarsjóðirnir og Goldman Sachs væru að kaupa stóran hlut í Arion banka. Ég er sannfærð um að ef það væri gerð slík könnun í dag væri hópurinn enn þá stærri sem væri á móti slíkri sölu. Það er því alveg kristaltært í mínum huga að ekki má undir neinum kringumstæðum leiða þau málum til lykta án þess að Alþingi fjalli um þau.

Áform um hraða niðurgreiðslu skulda í því skyni að lækka vaxtagreiðslur og draga úr endurfjármögnunaráhættu ríkissjóðs tengjast einnig því lögbundna markmiði um opinber fjármál að heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, það er mjög margt dregið frá, séu lægri en 30% af vergri landsframleiðslu. Áform stjórnvalda um að ná því markmiði í árslok 2019 byggjast m.a. á því að landsframleiðslan aukist að nafnvirði á því tímabili. Enda þótt þjóðhagsspá á vetri 2016, sem lögð er til grundvallar fjármálastefnunni, geri vissulega ráð fyrir vexti í landsframleiðslu allan gildistíma fjármálastefnunnar blasir það við að forsendur áætlana um niðurgreiðslu skulda geta hæglega breyst á svo skömmum tíma að áformin verði í raun allsendis óraunhæf og óframkvæmanleg. Þar sem skuldalækkunin er svo ríkur þáttur í áætluninni sem raun er verður að telja þetta til þess fallið að rýra trúverðugleika hennar verulega.

Ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi sagt við umræðu um stefnuna að það vantaði þrátt fyrir það sem gert væri ráð fyrir í stefnunni í kringum 5 milljarða til þess að greiða niður áætluð áform ríkisstjórnarinnar til viðbótar við þau lausatök sem hér eru.
Það er hins vegar álit 1. minni hluta að rétt væri að fara hægar í að greiða niður skuldir heldur en lagt er upp með í fjármálastefnunni og leggja meiri áherslu á uppbyggingu samgöngumannvirkja og heilbrigðis- og félagsþjónustu, svo maður nefni þau brýnustu viðfangsefni sem við erum sífellt að ræða. Það er stefnt að því að skuldir fari undir viðmiðunarmörk laganna. Að mínu mati er það algjörlega þarflaust og þjónar ekki markmiðum um velferð landsmanna þegar það verður á kostnað almannaþjónustunnar, eins og það liggur fyrir, því að hvaðan annars staðar á það að koma en úr velferðinni?
Tillagan um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2022 ber þess merki að hvorki er ætlunin að bregðast við þenslu í efnahagslífinu með sértækum aðgerðum né að styrkja tekjugrunn ríkisins. Það þarf ekki að orðlengja um það að þarna getur að líta eindregin birtingarform hægri stefnunnar sem réðu ferð þegar fjármálastefna síðustu ríkisstjórnar var gerð og gera það ekki síður nú þegar önnur útgáfa hennar birtist.

Mikill vöxtur ferðaþjónustunnar er meðal þess sem veldur þenslu. Þetta er stjórnvöldum auðvitað vel ljóst en þau kjósa samt sem áður að gera ekki ráðstafanir til að draga úr þeim þensluáhrifum með hæfilegri skattlagningu á ferðaþjónustugreinarnar, svo sem komugjaldi, sem nýta mætti til nauðsynlegrar innviðauppbyggingar og ekki síst til þess að styrkja sveitarfélögin í því sem þau standa frammi fyrir. Þetta er afleitt og þeim mun bagalegra sökum þess að ferðaþjónusta hérlendis óx svo hratt og skyndilega að innviðir samfélagsins eru vanbúnir til að takast á við ferðamannafjöldann. Mikil þörf er því fyrir fjárfestingu á því sviði eins og við heyrum alla daga, hvort sem við erum að tala um viðkvæm svæði, náttúruverndarsvæði eða vegakerfið.
Bent er á það í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um málið að afkomumarkmið sveitarfélaga eins og það er sett fram í fjármálastefnunni sé vart trúverðugt og ekki í samræmi við samþykktar fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna. Fjármálaráð vekur að sínu leyti athygli á því að misræmi milli fjármálastefnu ríkisins og fjármálastjórnar sveitarfélaganna geti leitt til þess að markmið fjármálastefnu ríkisins fari forgörðum, jafnvel þótt farið sé að settum reglum eins og skylt er. Af þeim viðbrögðum að dæma sem tillagan að fjármálastefnunni hefur vakið meðal talsmanna sveitarfélaganna og hjá fjármálaráði er fyllsta ástæða til að álíta að einmitt svona kunni að vera ástatt og allar líkur séu á því að áætlanir sem varða sveitarfélögin séu haldlitlar.
Við fengum í gær eða fyrradag óundirritað samkomulag um afkomu sveitarfélaganna fyrir næsta ár og fram til ársins 2022. Þegar ég er búin að lesa það líður mér eiginlega eins og það hafi verið samið í fjármálaráðuneytinu en ekki hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Mér finnst það bera þess merki að núna erum við með stefnu sem er fram komin og það er ekki búið að ná samkomulagi, að sveitarfélögin komi að orðnum hlut. Það er í rauninni samstarf eftir á sem á að reyna að lagfæra. Mér finnst mjög bagalegt að þetta skuli vera svona, af því að þetta er ein forsenda þess að lög um opinber fjármál nái fram að ganga.

Það segir í 3. gr. í samkomulaginu, sem ég ítreka að er óundirritað en við fengum sent með því fororði að það tæki líklega ekki miklum breytingum, með leyfi forseta:

„Það þarf að þróa hagstjórnarþátt opinberra fjármála t.d. með bættu áhættumati og sviðsmyndagreiningu. Það þarf að bæta forsendur ákvarðana um afkomumarkmið og þróa samspil opinberra fjármála og peningastefnu.“
Þetta á að reyna að láta liggja fyrir í marslok á hverju ári af því að það liggur ekkert fyrir um neinar sviðsmyndir ef eitthvað fer illa.

Það segir líka hér, með leyfi forseta, í 5. gr.:

„Afkomuhorfur hins opinbera eru tiltölulega jákvæðar en þó eru þær heldur lakari en æskilegt væri út frá sjónarmiði hagstjórnar og þegar tekið er tillit til mikilla jákvæðra áhrifa sem núverandi efnahagslegur uppgangur hefur á tekjur hins opinbera.“

Svo er farið yfir nokkur mál sem ríki og sveitarfélög ætla að reyna að fara í gegnum. Það er margt þarna sem mér hefði fundist eðlilegt að lægi fyrir, að áður en stefnan væri lögð fram væri því náð. Ég velti fyrir mér hvort samþykki í marsmánuði framvegis dugi til, eða verður stefnan aftur komin fram áður en þessu verður lent?

Sú svelti- og samdráttarstefna sem rekin hefur verið gagnvart sveitarfélögunum er raunar sérstakt áhyggjuefni. Hafa ber í huga hve mikilvægu hlutverki starfsemi sveitarfélaganna gegnir og einnig að jafnvægis- og skuldaregla sem innleiddar hafa verið í fjármálakafla sveitarstjórnarlaga hafa orðið til þess að bæta bókhaldslega stöðu margra sveitarfélaga en jafnframt hefur aðlögunin að kröfum þessara reglna orðið til þess að fjárfestingar sveitarfélaganna hafa orðið langtum minni en þörf krefur. Þetta hefur m.a. verið rætt innan þjóðhagsráðs og vikið er að því í 3. tölublaði fréttabréfs Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem fjallað er um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga á árabilinu 2016–2019 og bent á knýjandi fjárfestingarþörf þeirra. Fjárhagsstaða margra sveitarfélaga landsins hefur svo sannarlega batnað, reikningslega séð, á undanförnum árum en staða þeirra gagnvart þjónustuhlutverki sínu og skyldum við íbúana er veik og það má lítið út af bera til þess að sveitarfélögin fái ekki rækt hlutverk sitt. Þess má og minnast að tjón samfélagsins vegna vanrækslu við uppbyggingu innviða samfélagsins er hvorki fært til reiknings í ríkisreikningum né ársreikningum sveitarfélaganna.

Ástæða er til að lýsa áhyggjum yfir því andvaraleysi gagnvart núverandi efnahagsþenslu sem birtist í fjármálastefnunni. Það er vakin athygli á því í greinargerð að mikilvægt sé að grípa til þensluhamlandi aðgerða en ekki verður brugðið á það ráð sem nærtækast er og yrði líklega flestum að láni, sem felst í því að styrkja tekjugrunn ríkisins þannig að hann verði ekki í járnum eins og nú er raunin og beita því fé sem fæst til uppbyggingar í þágu samfélagsins þar sem mikil þörf er fyrir endurbætur á innviðum og eflingu velferðarkerfisins.

Í því sambandi er vert að minna á sjálfsagða gjaldstofna á borð við auðlindagjöld sem hiklaust ætti að beita í því sambandi. Það er líka vert, af því að við erum alltaf að tala um samskipti ríkis og sveitarfélaga, að við þurfum að styrkja tekjugrunn sveitarfélaganna og við þurfum að breyta skattkerfinu. Ég tek undir alla vega eitt af því sem kemur fram hjá 4. minni hluta þar sem talað er um að gistináttagjald eigi í auknum mæli að renna til sveitarfélaganna, sem rímar við stefnu okkar Vinstri grænna og það sem við höfum talað fyrir. Ég hef líka skoðun á því sem segir í nefndaráliti 4. minni hluta, með leyfi forseta:
„Að lokum leggur 4. minni hluti áherslu á að þeir einstaklingar sem eingöngu hafi framfærslu af fjármagnstekjum greiði eðlilegan hluta þeirra í formi útsvars til sveitarfélaganna.“

Það hefur færst allt of mikið í vöxt að þetta sé að gerast og sveitarfélögin verði af miklum tekjum vegna þessa, sama og gerðist í rauninni með einkahlutafélögin, þegar þau urðu til snarminnkuðu tekjur sveitarfélaganna. Ég held að við þurfum í alvörunni að fara að huga að þessu. Það er búið að vera í skoðun ótrúlega lengi og einhvern veginn gerist ekki neitt.
Það er boðað í fjármálastefnunni að sjálfvirkri sveiflujöfnun verði beitt gegn efnahagsþenslunni. Í ljósi þess að hreyfingar tekna og gjalda hafa verið festar við nafnvöxt landsframleiðslunnar er þó sýnt að næsta lítið verður úr áhrifum sjálfvirkrar sveiflujöfnunar á þensluna.

Þótt ljóst megi vera að stjórnvöld hyggjast ekki gera ráðstafanir til að auka tekjur hins opinbera birtist skattstefnan vart nægilega skýrt í áætluninni. Þurft hefði nákvæmari útlistanir á áherslum á þessu mikilvæga sviði, þróun skattheimtunnar, beitingu tilfærslukerfisins og fleiru sem þessi mál varðar. Það er líka vert að minna á að skattbreytingar fyrri ríkisstjórnar fólu allar í sér afsal á tekjum ríkissjóðs. Þetta hefur sannarlega sagt til sín og veikt þrótt hins opinbera til að takast á við verkefni sín meira en unað verður við. Nauðsynlegt er að skýrt verði hvernig ætlunin er að bregðast við þessari stöðu. Stjórnvöld hafa lýst áhuga á því að kanna stofnun varúðarsjóðs og er vikið að því í greinargerð með fjármálastefnunni. Vera má að slíkur sjóður gæti komið íslenska hagkerfinu vel og orðið í senn til að jafna sveiflur í því og verja það áföllum. En verði af stofnun þess konar sjóðs krefst það viðhlítandi ráðstafana í skattamálum sem tilefni er til að efast um að séu á færi þeirra sem nú ráða för í ríkisfjármálum, a.m.k. ekki að mati þeirrar sem hér stendur.

Í álitsgerð fjármálaráðs um tillöguna frá 9. febrúar 2017 er bent á að betur hefði mátt hyggja að forsendum spár um hagvöxt en þar er einungis byggt á þjóðhagsspá Hagstofunnar sem talið er að geti reynst ónákvæm vegna galla í reiknilíkönum og skekkju í gögnum. Undir þetta tek ég og einnig að þar sem markmið um afgang af rekstri ríkissjóðs miðast við umrædda spá er mikilvægt að leita leiða til að veruleikatengja fjármálastefnuna enn frekar en gert er, enda virðast þær aðferðir sem nú er beitt geta leitt til þess að markmið hennar og áherslur snúist fremur um innri veruleika og samhengi fjármálastefnunnar en að hún taki eins og unnt er mið af þróuninni í því samfélagi sem hún á að þjóna. Í því ljósi er mikilvægt að í framtíðinni fái efnahags- og viðskiptanefnd málið til skoðunar í tæka tíð til að henni gefist tækifæri til að meta þær þjóðhagsforsendur sem lagðar eru til grundvallar, en í þetta sinn var þingsályktunartillagan send allt of seint til nefndarinnar sem fékk í rauninni bara sólarhring eftir að ég hafði ítrekað að send yrði beiðni.

Fjármálastefnan er lögð fram sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eins og lög um opinber fjármál mæla fyrir um, en hvergi eru þó finnanleg í henni töluleg gildi um áætlaða landsframleiðslu. Lesandinn þarf að verða sér úti um þessar upplýsingar til að geta áttað sig á inntaki fjármálastefnunnar og hefði því verið rétt að þær væru í texta hennar. Meiri hlutinn brást við og setti vissulega inn tölulegar upplýsingar sem nefndinni bárust og er það vel, en þetta er eitthvað sem mér finnst að þurfi að vera hverju sinni, þ.e. þegar hún er lögð fram.

Annar augljós veikleiki í forsendum fjármálastefnunnar og þeim aðferðum sem beitt er við gerð hennar er að markmið um afkomu sveitarfélaganna eru lítt raunhæf og styðjast ekki við fjárhagsáætlanir þeirra. Einnig þar virðist fjármálastefnan ekki í tengslum við raunveruleikann. Sérstaklega er gagnrýnivert að ekki skyldi nást samstaða um þann talnagrunn sem afkomumarkmið sveitarfélaganna byggist á en slíkt samkomulag, þar sem tekið væri réttmætt tillit til sjónarmiða sveitarfélaganna, yrði ótvírætt til að styrkja gildi fjármálastefnunnar mjög og á, eins og ég sagði áðan, að vera hluti af því að regluverkið lög um opinber fjármál gangi eftir. Þar sem samkomulag um þennan mikilvæga þátt náðist ekki er líklegt að sú heildarstefnumörkun í opinberum fjármálum sem fjármálastefnan á að fela í sér hafi farið forgörðum.

Þess ber að geta að ekki hefur verið leyst úr reikningshaldslegri óvissu varðandi meðferð skuldaviðurkenninga gagnvart lífeyrissjóðnum Brú. Það er einmitt tekið fram í þessu samkomulagi sem sveitarfélögin sendu okkur í gær. Það er heldur ekki búið að taka ákvörðun um það að ef þær verða taldar til skulda samkvæmt skuldareglunni þá má gera ráð fyrir að skuldahlutfall sveitarfélaganna hækki um 1,6% af vergri landsframleiðslu. Mér finnst mjög merkilegt að hugsa til þess að ríkissjóður telur sig ekki þurfa að taka lífeyrisskuldbindingar sínar inn í stefnuna, þ.e. það er allt dregið frá, en það eru einhver vafamál með sveitarfélagið gagnvart þessu. Það finnst mér mjög sérstakt. Ef það á að ræða skuldahlutfallið hjá báðum aðilum hlýtur það gerast á sömu forsendum, þótt þau byggi vissulega ekki á sama uppgjörsgrunni. Það er að sjálfsögðu gagnrýnivert að ríkisfjármálastefna til fimm ára skuli lögð fram fyrirvaralaust án þess að svo mikilvægt álitamál sé áður leitt til lykta. Auðvitað ætti Alþingi að taka þennan þátt til sérstakrar meðferðar núna þegar við afgreiðum málið.

Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkis og sveitarfélaga nema um 650 milljörðum kr. eða um 27% af vergri landsframleiðslu, þetta eru engir smáaurar. Það hafa ekki verið lagðar fram sannfærandi tillögur til lausnar á þeirri stöðu, sem vitanlega skiptir miklu fyrir fjármálastefnu hins opinbera á komandi árum. Þetta er eitt af því sem fjármálaráð vitnar til að sé óeðlilegt að taka ekki tillit til þegar meta á skammtíma- og langtímaskuldastöðu þjóðarbúsins. Það er heldur ekki unnt að líta fram hjá því að aldurssamsetning landsmanna og lýðfræðilegar þróunarhorfur eru með þeim hætti að fram undan er mikil uppbygging innviða öldrunar- og heilbrigðisþjónustu ef ekki á að fara illa. Ekki verður af fjármálastefnunni ráðið hvernig unnt á að vera að fjárfesta nægilega mikið og hratt á þessu sviði á gildistíma hennar þrátt fyrir drjúg loforð. Í því samhengi er einnig vert að íhuga hvort ekki sé ráðlegt að beita aðferðum kynslóðareikninga til þess að tryggja sjálfbærni opinberra fjármála til lengri tíma, eins og vikið er að í álitsgerð fjármálaráðs um þingsályktunartillöguna. 1. minni hluti telur að þá ábendingu ætti að taka alvarlega.
Mig langar líka aðeins að koma inn á fyrirkomulagið við umfjöllun um hið nýja fyrirkomulag opinberra fjármála. Ferlið er vissulega í þróun og það er vonandi margt sem á eftir að breytast. Það er þó eitt alveg ljóst í mínum huga. Það að samþykkja þessa stefnu án þess að sjá raunverulega hvaða samfélagslegu markmið hún nær að uppfylla finnst mér ekki ásættanlegt. Lögin segja vissulega að það eigi að samþykkja stefnuna fyrst, svo áætlunina og síðan fjárlögin að hausti. Ég hefði talið betra að við tækjum aftur saman, eins og síðast, stefnuna og áætlunina þar sem engar tölur, eins og við höfum áður rætt, birtast í stefnunni, einungis hlutföll, af því að ef ég skil þingmenn meirihlutans rétt og hæstv. fjármálaráðherra markast áætlunin af óhagganlegri stefnu til fimm ára nema til hamfara komi. Í ofanálag er svo ráðherraræðið aukið með stórum pottum sem þeir geta ráðstafað að vild án aðkomu þingsins.

Þegar ég horfi á þessa stefnu og les hana og fer í gegnum hana með þeim sem við höfum skoðað hana með sé ég ekki fyrir mér hvernig fjármálaáætlunin kemur til með að líta út. Ef stefnan er svona niðurnjörvuð hljótum við að þurfa að sjá hvernig hún kemur út í áætlun. Annað eins erum við að beygja núna á fyrstu metrunum meðan við erum að reyna að átta okkur á því hvernig þetta virkar. Ég held að það væri af hinu góða.

Tíminn sem ætlaður er til vinnunnar er líka allt of takmarkaður. Eins og ég kom inn á áðan verður ríkisfjármálaáætlunin lögð fram á föstudaginn og við ætlum að ræða hana eftir helgi, að mér skilst. Þaðan fer hún, þ.e. þegar umræðu er lokið í þinginu en í planinu er gert ráð fyrir einum löngum þriðjudegi, til allra nefnda. Þær hafa í kringum tvo daga til að kalla til sín ráðuneyti og fá kynningu á viðeigandi málaflokkum sem þær hafa alla jafna ekki fjallað um með þeim hætti sem ætlast er til af þeim núna. Það er heldur ekki ólíklegt að einhverjar nefndir vilji kalla til sín stærstu aðilana til skrafs og ráðagerða, mér dettur í hug t.d. Landspítalinn eða háskólastofnanirnar eða Vegagerðin eða hvað það er, þegar áætlunin liggur fyrir. Þetta eru stóru málaflokkarnir sem hafa verið hvað mest í umræðunni. Til þess eru ætlaðir svona u.þ.b. tveir, kannski þrír dagar ef vel viðrar. Síðan fer þingið í páskafrí og nefndirnar hafa um viku til að klára yfirferð sína og skila einhvers konar greinargerð eftir páskafríið. Við verðum að horfast í augu við það, af því að höfum verið að ræða þetta fram og til baka í fjárlaganefnd, hvort það sé skilað einhverri greinargerð þar sem frávikin eru sundurliðuð, að það er ekkert öðruvísi með þetta heldur en með allt annað sem við erum að fjalla um. Þetta er náttúrlega hápólitískt plagg, bæði stefnan og áætlunin, því verðum við að gera ráð fyrir því að álitin geti orðið mörg. Ég held að það liggi alveg fyrir því að þingmenn vilja auðvitað koma pólitískum áherslum sínum inn í fjármálaáætlunina sem rammar inn stóra samhengið.

Eftir þetta hefur fjárlaganefnd svo smátíma til að samræma og yfirfara niðurstöður nefndanna og skila svo af sér álitum sínum. Þingið þarf að aðlaga sig að þessum breytingum að mínu mati svo þetta verði viðunandi vinna sem fram fer ef hún á að skila tilætluðum árangri.

Virðulegi forseti. Viðleitnin til að bæta meðferð opinbers fjár og skapa festu í opinberum fjármálum sem birtist í lögum um opinber fjármál og fjármálastefnu sem af þeim leiðir hefur að ýmsu leyti geigað, eins og ég hef rakið. Ýmsar forsendur fjármálastefnunnar eru svo veikar að efasemdir um að hún haldi eru mikla meira en réttmætar. Hin mikla áhersla sem lögð er á lækkun skulda niður fyrir lögboðin mörk ber vott um einsýni og er fremur til marks um markmiðssetningu um tiltekinn árangur í bókhaldi en haldgóða stefnu um samfélagslega uppbyggingu.

Lög um opinber fjármál og fjármálastefna til fimm ára fela í senn í sér tæki til að móta tiltekin markmið, aðferðirnar til að ná þeim markmiðum og rammanum utan um þær. Hið síðastnefnda, fjármálareglur laga um opinber fjármál, mætti mikilli gagnrýni af hálfu okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þegar málið var til umræðu á Alþingi og það kemur á daginn að hún var ekki tilefnislaus, eins og ég hef rakið í máli mínu. En þótt margt megi finna að lögum um opinber fjármál og að þessari þingsályktunartillögu um fjármálastefnu fyrir komandi ár þá skiptir hitt þó mestu að beiting þessara tækja stjórnast nú af skefjalausri hægri stefnu þar sem sífellt er hopað lengra frá markmiðum velferðarsamfélagsins. Slíka stefnu væri algjörlega fráleitt að styðja.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Um réttindi barna til endurgreiðslu vegna gleraugnakostnaðar

24. mars 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Herra forseti.

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum, nr. 160/2008, um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Það varðar endurgreiðslu vegna gleraugnakaupa barna.

Ég ætla að fara aðeins í gegnum frumvarpið, þ.e. hvað það er sem breytist.

Við 1. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður sem hljóðar svo: Enn fremur annast stofnunin umsýslu vegna þátttöku ríkisins í kostnaði við gleraugnakaup barna.

2. gr. Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Gleraugnakaup barna.

Ráðherra skal setja reglugerð þar sem kveðið er á um þátttöku ríkisins í kostnaði við kaup á gleraugum. Þar skal m.a. mæla fyrir um að:

1. börn njóti greiðsluþátttöku við kaup á gleraugum allt að tvisvar á ári til tíu ára aldurs,

2. börn frá 11 ára aldri að 18 ára aldri njóti greiðsluþátttöku við kaup á gleraugum einu sinni á ári,

3. fjárhæð endurgreiðslu sé 75% af verði sjónglerja í hverjum verðflokki og 75% af verði umgjarðar,

4. börn til tíu ára aldurs, sem hafa þörf fyrir gleraugu sem hluta læknismeðferðar til að sjón þeirra þroskist eins eðlilega og kostur er, njóti fullrar greiðsluþátttöku við kaup á gleraugum tvisvar á ári (sjónglerja og umgjarðar) enda sé umgjörð valin í samráði við augnlækni eða sjóntækjafræðing. Sá aðili sem annast þjónustu við sjónskerta fyrir hönd ríkisins leitar árlega tilboða í sjóngler og umgjarðir hjá gleraugnasölum og miðast fjárhæð greiðsluþátttöku við lægsta tilboðsverð.

3. gr. Lög þessi taka gildi 1. janúar 2018.

Ég flutti frumvarp sama meginefnis og fyrirliggjandi þingmál, en það varð ekki útrætt, það var á 145. þingi. Eftir að hafa mælt fyrir málinu voru sendar umsagnarbeiðnir vegna þess til 23 aðila.

Í umsögn Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga frá 8. apríl 2016 var áætlað að samþykkt frumvarpsins hefði í för með sér um 167 millj. kr. útgjaldaauka fyrir ríkissjóð vegna aukinnar þátttöku í gleraugnakaupum barna og einnig aukinn kostnað við starfsemi stofnunarinnar vegna verkefna sem hljótast myndu að breyttu hlutverki hennar á þessum vettvangi sem gæti numið einu stöðugildi. Eru fjárhagsleg áhrif frumvarpsins á ríkissjóð í samræmi við það.

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð benti einnig á að enda þótt stofnunin hafi annast framkvæmd endurgreiðslna vegna gleraugnakaupa allt frá því að starfsemi hennar hófst 1. janúar 2009 sé þessi umsýsla ekki meðal skilgreindra verkefna hennar.
Brugðist er við þessari ábendingu í 1. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að umsýsla vegna þátttöku ríkisins í gleraugnakaupum verði meðal skilgreindra verkefna Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar. Með því yrði núverandi tilhögun staðfest og tekin af öll tvímæli um skyldur stofnunarinnar á þessu sviði.

Aðrar breytingar sem lagðar eru til við lög nr. 160/2008, um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, eru hinar sömu og í frumvarpinu sem lagt var fram á 145. löggjafarþingi. Lagt er til að við lögin bætist ný grein þar sem kveðið verði skýrt á um þátttöku ríkisins í kostnaði við kaup á gleraugum. Breytingin miðar að því að rýmka reglur um greiðsluþátttöku ríkisins þannig að börn njóti greiðsluþátttöku við kaup á tvennum gleraugum á ári til tíu ára aldurs. Sjónþroski barna undir tíu ára aldri getur krafist þess að þau skipti um gleraugu oftar en einu sinni á ári og því er eðlilegt að ríkið taki þátt í kostnaði við kaup á gleraugum tvisvar á ári á þessu aldursskeiði. Jafnframt er lagt til að frá 11 ára aldri og þar til börn ná 18 ára aldri taki ríkið þátt í kostnaði við kaup á einum gleraugum á ári.

Í 4. tölul. er kveðið á um fulla endurgreiðslu vegna gleraugnakaupa fyrir börn sem þurfa gleraugna við til þess að sjón þeirra þroskist eðlilega. Í þessum tilvikum eru viðeigandi gleraugu svo þýðingarmikil fyrir eðlilegan þroska barnsins að rétt virðist að þau séu greidd að fullu úr sameiginlegum sjóði landsmanna þannig að tryggt verði að ekkert barn þurfi að vera án þeirra enda eru gleraugu fyrir þennan hóp barna í rauninni hluti læknismeðferðar en ekki hjálpartæki.

Í gildandi reglugerð um þátttöku ríkisins í kostnaði við gleraugu, nr. 1155/2005, er kveðið á um þátttöku ríkisins í kostnaði við kaup á gleraugum barna tvisvar á ári til loka þriðja aldursárs, árlega frá fjögurra til átta ára aldurs og annað hvert ár á aldrinum 9 til 17 ára aldurs. Breytingin felst í því að auka greiðsluþátttöku ríkisins við kaup á gleraugum fyrir eldri börn.
Lagt er til að greiðsluþátttaka ríkisins verði 75% af tilboðsverði á sjónglerjum og gleraugnaumgjörðum sem sá aðili sem annast þjónustu við sjónskerta aflar árlega með útboði eða lætur afla fyrir sína hönd. Gæti vafalaust komið til mála að Ríkiskaup önnuðust þennan þátt.

Engin ákvæði eru í gildandi reglugerð um uppfærslu eða endurskoðun fjárhæðarinnar vegna verðlagsbreytinga og hafa engar slíkar breytingar verið gerðar frá því að reglugerðin tók gildi í desember 2005, samanber þskj. 335 á 145. löggjafarþingi. Það varðaði fyrirspurn sem ég lagði fram við þáverandi félagsmálaráðherra. Þetta hefur orðið til þess að gildi stuðnings hins opinbera við gleraugnakaup barna hefur rýrnað í samræmi við verðbólguþróun og markmið aðgerðarinnar þannig farið forgörðum að nokkru leyti. Flutningsmaður telur því bæði rétt og tímabært að gera þá breytingu að greiðsluþátttaka verði miðuð við ákveðið hlutfall af kostnaði, eins og að framan greinir.

Þetta eru ekki svo margir einstaklingar sem um ræðir sem falla sérstaklega í þann hóp sem snýr að því að þurfa gleraugu til þess að sjón þeirra þroskist eðlilega. Því held ég að til þess að þau standi jafnfætis öðrum og að ekki sé komið í veg fyrir það að þau geti öðlast sjón eðlilega eins og aðrir, heldur verði jafnvel öryrkjar sökum þess að sjónin þroskast ekki sem getur leitt til blindu. Við erum að tala um slíka sjúkdóma m.a., þá eigi ríkið auðvitað að bregðast við.

Það er líka til háborinnar skammar að verðviðmiðin skuli ekki hafa hækkað í svo langan tíma eins og kom fram í svari mínu við fyrirspurn til fyrrverandi félags- og húsnæðismálaráðherra um þessi mál. Þetta er líka hluti af því að brúa bilið milli þeirra sem minna hafa á milli handanna, þeirra sem búa við fátæktarmörk eða þeirra sem hafa hreinlega ekki efni á því að kaupa gleraugu handa börnunum sínum þrátt fyrir veittan stuðning. Stuðningurinn minnkar ár frá ári, ekki bara fyrir yngstu börnin, heldur fyrir þau eldri líka. Þess vegna held ég að þessi kostnaður sem hér er tekinn fram eru smámunir í samanburði við í rauninni hvað það leiðir af sér mikil lífsgæði fyrir þá sem þurfa á því að halda.

Virðulegi forseti. Ég vona svo sannarlega að þetta mál nái fram að ganga og fái góðar umsagnir um leið og það verður tekið fyrir í velferðarnefnd — ég geri ráð fyrir að það fari þangað þó að ég sé hreinlega ekki viss um það. En mér finnst líklegt að málið fari til þeirrar nefndar miðað við að það tilheyrir félagsmálaráðherra og því kerfi.

Ég ætla að láta þetta duga um þetta mál. Ég vona svo sannarlega að það drukkni ekki í lokamálum ríkisstjórnar heldur fái faglega umfjöllun inni í nefndinni.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

« Fyrri færslur Nýrri færslur »