Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Freki kallinn

30. maí 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Störf þingsins í dag.

Ég verð að taka undir með hv. síðasta ræðumanni og segja: Það er algerlega óásættanlegt að við skulum vera í þeirri stöðu sem við erum í í dag gagnvart fylgdarlausum börnum. Á sama tíma erum við að auka framlög til NATO. Við erum að borga á annan milljarð til NATO. Til hvers? Við höfum ekkert með það að gera að eyða svo miklum peningum í NATO. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Við eigum að verja þeim í mannúð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Það hlýtur að vera freki kallinn sem hér var minnst á í gær sem er við völd. Við hvern skyldi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hafa átt? Er það forsætisráðherra sem er svona frekur? (SSv: Maður spyr sig.) Maður spyr sig. Hver skyldi það vera? Hver er það sem vill ekki víkja frá því sem hann hefur ákveðið að sé rétt?

Það voru nefnilega stór orð sem hæstv. fjármálaráðherra lét hér falla í gær. Eðli málsins samkvæmt, þegar menn horfa inn á við, eins og hæstv. ráðherra virtist nú gera og tala eingöngu fyrir hönd Viðreisnar, spyr maður sig hver það sé sem hér er um að ræða. Því að það er alveg ljóst og sjá allir sem vilja sjá að það er ágreiningur uppi í ríkisstjórninni. Þau eru ekki samstiga, fara ekki sömu leið hvert með öðru. Þau haldast alla vega ekki í hendur, það er alveg augljóst. Auðvitað þarf hæstv. ráðherra að skýra við hvern hann á. Því að ef hann á ekki við hæstv. forsætisráðherra og þá fylginauta sem eru með honum í ríkisstjórn þurfum við að vita hver það er sem hamlar því að hér sé hægt að koma fram góðum breytingum, hvort sem við erum að tala um heilbrigðiskerfið eða skólamálin eða hvað það er sem við fáumst við hverju sinni.

Hver er það sem vill ekki breyta, hæstv. ráðherra? Hæstv. ráðherra hefur tækifæri hér í dag til að ljúka umræðunni um ríkisfjármálastefnuna. Ég vona svo sannarlega að hann skýri það fyrir okkur því að við þurfum að fá að vita það í stjórnarandstöðunni. Við getum lagt honum lið við ýmsar góðar breytingar ef hann er tilbúinn til að horfa fram á við en ekki í aftursætið eins og hér virðist vera gert.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Eldhúsdagur

29. maí 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Virðulegi forseti - kæru landsmenn

Er hægt að verðleggja hamingju og vellíðan? Þessi spurning leitar á hugann eftir langa umræðu um ríkisfjármálaáætlun hægri stjórnarinnar undanfarna daga. Er hægt að meta fjárhagslegt virði þess hvernig börnum okkar líður í skóla, eða foreldrum okkar á öldrunarstofnunum? Eigum við að nota einhverskonar reiknireglu til að segja okkur hvernig barni líður sem býr við þær aðstæður að geta ekki boðið í afmælisveislu eða hvernig eldri borgarar geti notið lífsins á öldrunarstofnunum eftir að hafa skilað samfélaginu ómældri vinnu í gegnum tíðina? Hvað með öryrkjana og láglaunafólkið sem getur vart framfleytt sér, á það rétt til mannsæmandi lífs? Unga fólkið sem getur ekki komið sér þaki yfir höfuðið. Skiptir það einhverju máli? Auðvitað skiptir þetta allt máli og þess vegna höfum við Vinstri græn lagt fram tillögur til þess að koma til móts við það ákall sem komið hefur fram í samfélaginu og allir flokkar lofuðu fyrir kosningar um að bæta kjör og byggja upp innviði, loforðum sem stjórnarflokkarnir eru nú á hröðum flótta frá en við viljum standa við. Því velferð og líðan snýst nefnilega ekki um prósentur, hagsveiflu eða niðurstöður exelskjals.

Okkar hlutverk hér á þingi er að standa vörð um jöfn tækifæri fólks, barna jafnt sem fullorðinna. Það eru mannréttindi sem við höfum skuldbundið okkur til að framfylgja ekki síst gagnvart þeim sem standa höllum fæti, hafa verið beittir órétti eða einhverskonar mismunun.

Núverandi ríkisstjórn sýnir ekki í verki að hún leggi áherslu á jöfnuð en það kemur líklega ekki á óvart. Heilbrigðismálin, hvort sem um er að ræða stóru sjúkrahúsin eða lágmarksþjónustu á landsbyggðunum, samgöngumálin bæði á vegum og hið rándýra innanlandsflug, löggæslan, skólamálin allt er þetta vanfjármagnað enda er þetta hægri stjórn og hagar sér sem slík. Hinum efnameiri er áfram hlíft við skattgreiðslum og minna og minna fer í samneysluna.

Ísland er velmegunarsamfélag og það á að vera forgangsverkefni að auka jöfnuð meðal okkar og stuðla að jafnrétti. Að allir geti notið velferðarkerfisins, allir sem vilja geti sótt sér menntun, að allir hafi raunverulegt val til búsetu og þeir sem geta leggi jafnframt sitt af mörkum til þess að viðhalda því.

Við eigum ekki að taka því þegjandi þegar Sjálfstæðisflokkurinn segir að ekki sé meira svigrúm í hagkerfinu, að ekki séu til peningar til að standa við kosningaloforðin og byggja upp innviðina og hlúa að þeim sem hafa það skítt í samfélaginu eða þurfa að neita sér um heilbrigðisþjónustu af því fjárhagurinn leyfir það ekki.

Góðir landsmenn

Ágreiningurinn innan ríkisstjórnarinnar er öllum augljós og ríkisfjármálaáætlun er ein af birtingarmyndum þess. Þar skila fulltrúar meirihlutans áliti sem frestar ákvarðanatökum um grundvallarramma fjármálanna fram til haustsins og reynt er að sópa ágreiningnum undir teppið. Þau standa ekki öll að baki forsætisráðherra og fjármálaráðherra sem setja trúverðugleika sinn að veði með því að ætla ekki að kvika frá ákvörðuninni um hækkun virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna.

En um eitt er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sammála að auka einkavæðingu og minnka samneyslu. Saman leggja þau upp með að svelta hið opinbera kerfi og veikja til þess að rýmka fyrir „fjölbreyttum rekstrarformum“ eins og þeim er tíðrætt um. Ráðherra leynir fyrir þingnefndum fyrirhuguðum einkavæðingaráformum og hundsar samtal við þá sem málið snýst um. Það er í raun ógnvekjandi að ríkisstjórnin fái að starfa óáreitt í sumar því hver veit hvað verður búið að einkavæða í lok sumars.

Kæru landsmenn

Við þurfum nýja ríkisstjórn í þessu landi sem tekur mannréttindi og skyldur sínar til að tryggja fólki jöfn tækifæri mjög alvarlega. Við þurfum ekki ríkisstjórn sem lafir á lyginni og er með slíka blekkingaleiki. Ríkisstjórn sem hangir saman valdsins vegna.

Ef raunverulegur vilji er til að byggja réttlátt samfélag þá sameinumst við um að setja velferð barna, elstu borgara landsins, öryrkja og þeirra sem standa höllum fæti í lífinu í forgang. Því segi ég það er afar brýnt að koma þessari hægri ríkisstjórn frá og til þess þurfum við, kæru landsmenn, að standa saman.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Störf þingsins í dag.

26. maí 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ég ætla aðeins að tala um stöðu og áform ríkisstjórnarinnar, hver þau eru og hver ekki, og vitna í fundargerð þjóðaröryggisráðs sem var birt á dögunum þar sem eitt og annað kemur fram sem styður við það sem við höfum verið að segja, Vinstri græn og fleiri stjórnarandstæðingar, í pontu um m.a. ríkisfjármálaáætlun. Þar kemur nefnilega fram, haft eftir forsætisráðherra, sem sagði á fundinum að aukning ríkisútgjalda á þessu ári væri langt umfram það sem mætti reikna með til lengri tíma og langt umfram það sem hægt væri að standa undir til lengri tíma. Það kom líka fram hjá honum að lög um opinber fjármál væru farin að hafa mikil áhrif. Í stað þess að ráðstafanir í tekjumálum ríkisins kæmu fram í nóvember til afgreiðslu fyrir árslok kæmu þær nú fram að vori og tækju til margra ára. Það væri því mikilvægt að fjármálaáætlun kæmi ætíð fram á vori eins og lögbundið er og um hana næðist góð umræða.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að áherslan í ríkisfjármálaáætlun sé á niðurgreiðslu skulda, aðhald í rekstri og skynsamlega stjórnun fjárfestinga ríkisins. Þetta er það sem við höfum búið við og séð birtast í ríkisfjármálaáætluninni.
Í stjórnarsáttmálanum kemur fram um m.a. skattamál að hlutverk skattkerfisins sem tekjuöflunartækis fyrir sameiginleg útgjöld eigi að styrkja.

Hvernig? Með því að styðja við peningastefnunefnd? Nei, það á ekki að gera það heldur með því að lækka skatta. Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn eða meiri hlutinn sagt að hann ætli ekki að styðja við hækkun skatta á ferðaþjónustuna en það hefur hvergi komið fram að hann neiti að styðja lækkun virðisaukaskattsþrepsins, þ.e. úr 24% í 22,5%. (Forseti hringir.) Hér erum við enn og aftur að veikja tekjustofna ríkisins en ekki styrkja til þess að standa undir þeirri samneyslu sem lofað var fyrir kosningar af öllum flokkum, að styrkja innviði samfélagsins.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Arfaslök ríkisfjármálastefna

24. maí 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Flutti þessa ræðu í gær - langhundur - en komst hreint ekki yfir allt sem ég vildi segja og á því eftir að fara aftur í ræðustól og gera grein fyrir ýmsum þáttum.

Frú forseti. Það er svo sem búið að rekja það töluvert hvernig þessu hefur verið háttað varðandi aðkomu Alþingis og tímaramma og annað slíkt sem er algjörlega óviðunandi og við þurfum a.m.k. mánuði í viðbót til þess að ná utan um mál eins og rammafjármögnun sem hér er undir. Á það bæði við fjárlaganefndina og úrvinnslu hennar á því sem kemur frá umsögnum fastanefnda sem líka fengu allt of lítinn tíma. Í upphafi var meira að segja ekki gert ráð fyrir því að þeir fengju stofnanir hins opinbera eða að almenningur fengi tækifæri á að tjá sig um það. En þær viðræður og samtöl sem við fulltrúar í fjárlaganefnd áttum við gesti og allur sá fjöldi umsagna sem bárust um málið voru til vitnis um að það var full þörf á því að vista þessu út á þennan hátt og tíminn var ekki nægur.

Sú umfjöllun sem þegar hefur átt sér stað hefur leitt í ljós að við þurfum að efla faglega þætti í kringum starf þingsins gagnvart þeirri vinnu sem á að fara fram um opinber fjármál þannig að hún verði markviss og þingið geti beitt fjárstjórnarvaldi sínu á markvissan og skipulegan hátt.

Ríkisfjármálaáætlun hvers tíma snertir hvern einasta Íslending á einhvern hátt. Óþörf tímaþröng og upplýsingaskortur mega ekki verða til þess að umfjöllun um svo mikilvægt mál verði flaustursleg, hvorki á vettvangi Alþingis né annars staðar.
Fjármálareglurnar sem hér eru undir fólu í rauninni í sér lögfestingu þeirrar niðurskurðarstefnu og samhaldssemi sem hægri sinnaðar ríkisstjórnir hafa því miður beitt hvarvetna í opinberum fjármálum síðustu áratugi þegar illa hefur árað í efnahagsmálum með þeim afleiðingum að víða hefur verið þrengt að velferð og mikilvægri grunnþjónustu hins opinbera með langvinnu fjársvelti. Þannig hafa verið sköpuð sóknarfæri fyrir auðmagn og einkavæðingu í þágu fjármagnseigenda með röksemdum um að þeim beri að láta til sín taka þar sem hið opinbera valdi ekki verkefnum sínum.

Þetta má sjá, þ.e. stefnumörkun stjórnvalda og áform, á bls. 16 í ríkisfjármálaáætluninni þar sem m.a. þróun samneyslu birtist sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Hún mun fara lækkandi á áætlunartímabilinu og verða undir lok þess undir meðaltali síðustu 25 ára.

Því miður þýðir slík samdráttar- og niðurskurðarstefna að sú yfirlýsing ríkisstjórnarinnar að innviðauppbygging verði að vera töluverð og mikil harmonerar ekki við það sem sett er fram í krónum og aurum. Samtök atvinnulífsins hafa bent á það í umsögn sinni að áætlun um fjármögnun uppbyggingar innviða skorti og stjórnvöld leyni afstöðu sinni til einkareksturs á sviðum sem hingað til hefur verið sinnt af því opinbera.

Ég tek undir það að í áætluninni er ekki hægt að sjá að því hafi verið sinnt sem skyldi að tengja saman áform og útgjöld og fjármögnun þeirra. Það þýðir að þetta gengur gegn varfærnisjónarmiðunum sem talin eru meðal grunngilda sem eiga að einkenna fjármálaáætlunina. Það er líka áhyggjuefni að ekki er greint frá áformum um einkavæðingu almennt í tengslum við innviðauppbyggingu. Þá læðist sá grunur að manni að bak við ófjármagnaðar yfirlýsingar um slíkt hljóti að vera áform um slíka einkafjármögnun framkvæmda og jafnvel eignarhald einkaaðila á innviðum. Það er því miður svo að aðhaldssjónarmið vega þyngra í áformum stjórnvalda heldur en fyrirætlanir um innviðauppbyggingu eða styrkingu velferðarkerfisins.

Hitt er svo annað mál að forsendur áætlana um lækkun opinberra skulda hvíla á mjög breytilegum þáttum, og það er vert að hafa í huga og ræða, á borð við ráðstöfun óreglulegra tekna og sölu eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Af þeim sökum ríkir mikil óvissa um afdrif áætlana ríkisstjórnarinnar um svo mikla lækkun opinberra skulda sem raun er á.

Það skortir líka í tillögunni alla umfjöllun um peningalegar og bókfærðar skuldir ríkisins annars vegar og hins vegar þá fjárþörf sem hefur myndast vegna ónógrar innviðafjárfestingar undangengin ár og greiningu á þjóðhagslegum áhrifum þess og þýðingu inn í framtíðina. Það er mikilvægt að hafa í huga að vanræksla á viðhaldi og uppbyggingu innviða á undanförum árum hefur myndað skuld sem ber að greiða, nema ætlunin sé að gjaldfella hana á þær kynslóðir sem á eftir okkur koma. Ofuráhersla á niðurgreiðslu hinna bókfærðu skulda á kostnað þess að viðhalda innviðum samfélagsins á velferðarkerfinu getur hæglega leitt til óskynsamlegra ráðstafana sem ganga í berhögg við þjóðarhag. Það bendir margt til þess að íslenskt samfélag sé statt á þeim slóðum um þessar mundir.

Eins og kom fram hefur framsetningin sætt mikilli gagnrýni m.a. sökum þess hversu óskýr hún er og ekki gagnsæ. Það er mjög bagalegt að slegið er saman tölum um fjárfestingu og rekstrarfé í yfirlitum yfir fjárveitingar málefnasviða. Fulltrúar fastanefnda þingsins, þ.e. annarra heldur en fjárlaganefndar sem og fjárlaganefnd, þurfti að sækja sér töluvert af viðbótarupplýsingum til þess að hægt væri að greina þetta í sundur og reyna að lesa eitthvað í fjármálaáætlunina. Það tókst að einhverju leyti en alls ekki öllu. Það er mjög mikilvægt að skilja fjárfestingar frá rekstri þannig að við getum líka í framhaldinu borið saman raunveruleg útgjöld til málaflokka og málefnasviða til lengri tíma.

Skattstefnan sem birtist í þessari ríkisfjármálaáætlun er í sjálfu sér beint framhald af skattastefnu hægri stjórnar sem hér sat á undan og sætir það engum sérstökum tíðindum. Þær breytingar sem gerðar hafa verið undanfarin ár fólu í flestum tilfellum í sér afsal á tekjum í ríkissjóð en eru látnar heita einfaldanir, eins og kemur fram á bls. 45, en ekki skattalækkanir eins og rétt væri.

Það eru því miður engin áform um að auka vægi skattheimtunnar við að efla tekjujöfnuð meðal landsmanna. Það hlutverk skattkerfisins teljum við Vinstri græn þó að beri að jafnan að hafa hátt sem og þau ríki sem leggja áherslu á jöfnuð og þar sem velferðarkerfi eru við lýði.

Virðulegi forseti. Þetta er yfirgripsmikið álit sem ég fyrir hönd Vinstri grænna skila hér og munu fulltrúar úr nefndum gera betur grein fyrir einstaka málefnasviðum á eftir en ég kemst yfir að gera núna.

Það eru gallar á því formi sem við erum að fást við. Meðal annars hefur komið fram að samræming og samhæfing ýmissa opinberra áætlana er meðal markmiða nýrrar framkvæmdar opinberra fjármála. Það er gott mál, en þetta hefur ekki alveg tekist í ríkisfjármálaáætluninni, að mér finnst, að stilla saman áætlanir ríkisstofnana þannig að þær myndi eina heild og virðist sem samstarf ráðuneyta við þær hafi verið takmarkað. Ég vona svo sannarlega að úr því verði bætt við gerð næstu fjármálaáætlunar.

Í umsögn fjármálaráðs, sem er mjög yfirgripsmikið, er m.a. gagnrýnt að einungis eitt þjóðhagslíkan er notað við gerð spáa um framvindu efnahagsmála hér á landi, þ.e. þjóðhagslíkan Seðlabankans. Athygli er vakin á því að bæði stuðli þetta að einsleitni spáa og einnig að umrætt þjóðhagslíkan sé ekki að öllu leyti til þess fallið að fást við þau viðfangsefni sem fylgja gerð fjármálaáætlunar þar sem m.a. er þörf fyrir ríkari möguleika til að meta áhrif stefnu og þróun ýmissa efnahagsstærða á bak við opinber fjármál.

Virðulegi forseti. Nú ætla ég aðeins að stikla á stóru í helstu málaflokkunum en eins og ég sagði er ljóst að ég kemst ekki yfir nema lítinn hluta.

Heilbrigðismálin hafa verið mál málanna, voru það fyrir kosningar, eru það og verða áfram. Ég ætla að lesa það sem kom fram í svari Bjartrar framtíðar, flokki heilbrigðisráðherra, við spurningum Læknablaðsins fyrir kosningar sem birtust í 10. tölublaði 2016, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Sannarlega þarf að auka fé til heilbrigðismála til að tryggja réttlæti og öryggi heilbrigðisþjónustu.“

Það voru miklar yfirlýsingar sem stjórnarliðar gáfu fyrir kosningar um endurbætur á heilbrigðiskerfinu þegar þeir voru að gera hosur sínar grænar fyrir kjósendum. Því miður verður að segjast eins og er að það er lítið um efndir þegar ráðið hefur verið fram úr þeim tölum, eins og ég kom inn á áðan, sem var erfitt að greina. Þegar upphæðir hafa verið sundurgreindar og flokkaðar kemur í ljós að einungis er gert ráð fyrir 338 milljörðum kr. í raunaukningu árið 2018 frá yfirstandandi ári til almenns rekstrar. Mun þetta duga skammt til að mæta 10 milljarða uppsafnaðri viðbótarþörf Landspítalans, rekstri, tækjakaupum og öðrum stofnkostnaði samkvæmt áætlun spítalans sem gerð var að undirlagi stjórnvalda.

Það kom líka fram á fundi velferðarnefndar Alþingis með stjórnendum Sjúkrahússins á Akureyri að þeir teldu að um 370 milljónir vantaði fyrir rekstrarþak, eða um 32 milljónir til viðbótar í raunaukningu liðarins. Yfir stendur bygging og endurbygging á Landspítalanum, eins og við öll þekkjum. Það er stærsta einstaka fjárfestingarverkefni í heilbrigðiskerfinu. Þeim framkvæmdum miðar hægt, hægar en vonir stóðu til, og fé skortir.

Eins og ég segi vantar í kringum 13 milljarða í fjármálaáætlunina til að unnt verði að ljúka uppbyggingu meðferðarkjarna og rannsóknarhúss við Hringbraut, búa þau hús tækjum og gera nauðsynlegar breytingar og endurbætur á þeim byggingum sem ætlunin er að nýta áfram. Enn fremur vantar um 6,5 milljarða til þess að unnt verði að láta áform um legudeild fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri verða að veruleika. Aðkallandi þörf er fyrir þá framkvæmd og lagfæringu á eldra húsnæðis sjúkrahússins. Í heild vantar því um 20 milljarða í fjármálaáætlun þessara fimm ára til að takast megi að ljúka þeim brýnu uppbyggingarverkefnum á sviði sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu í landinu sem bíða á áætlunartímanum.

Því er við að bæta í þann flaum fyrirheita og yfirlýsinga um uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar að það eru sett fram markmið, mælikvarðar og aðgerðir og þróun sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu þar sem segir, með leyfi forseta:
„Sérhæfð sjúkrahús á Íslandi standast samanburð við sambærileg sjúkrahús á Norðurlöndum.“

Í ljósi þess sem ég hef áður sagt um ætlaðar fjárveitingar til sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu á næstu árum er vandséð að framangreind markmið verði annað en orðin tóm. Samkvæmt áreiðanlegum gögnum, svo sem ríkisreikningi og endurskoðuðum ársreikningum Landspítalans, er hann nú rekinn fyrir svipað fé og við upphaf aldarinnar mælt á föstu verðlagi. Verður það að teljast kraftaverki líkast að tekist hafi að halda þó þeirri starfsemi uppi sem raun er á með svo snautlegum aðbúnaði. Ljóst er að þetta getur ekki gengið til lengdar, enda margir brýnir þættir í samfélags- og fólksfjöldaþróun sem kalla á að tekist verði á í uppbyggingu Landspítalans og annarra innviða af fullri einurð.

Svo virðist þegar maður les ríkisfjármálaáætlunina að gert sé ráð fyrir því að vöxtur heilbirgðisþjónustu utan opinberu sérgreinasjúkrahúsanna verði mun meiri en innan þeirra. Þetta þýðir að útgjöld til starfsemi á heilbrigðissviði sem er á vegum einkaaðila munu aukast og slík starfsemi jafnframt, enda nýtur hún velvilja þeirra sem nú ráða för. Einkarekstur í hagnaðarskyni er þeim mest að skapi og lítil fyrirstaða virðist vera fyrir fjárveitingum úr opinberum sjóðum þegar þær renna á þær slóðir.

Það er heldur ekki hægt að láta hjá líða að ræða um gefin loforð um þak í greiðsluþátttökukerfinu, þ.e. árlega hámarksgreiðslu hvers notanda heilbrigðisþjónustunnar sem átti að vera 50 þús. með því að afnema hinn illræmda sjúkrakostnað einstaklinga með erfiða sjúkdóma vegna lyfja og læknisþjónustu. Því miður virðist ekki liggja fyrir hvort það verður 50 þús. eða 70 þús., hvað þá að lyfin séu þar tekin öll undir.

Aldurssamsetning þjóðarinnar er með þeim hætti að ekki er annars að vænta en að þörf fyrir hjúkrunarheimili verði ærin á komandi tímum. Þótt gert sé ráð fyrir einhverri fjölgun hjúkrunarrýma er því miður ekki svo að hún svari áætlaðri þörf heldur einungis um helmingi hennar. Ekki eru veittar neinar upplýsingar um hvernig ætlunin sé að takast á við málefni þeirra sem ekki munu eiga kost á hjúkrunarrými. Ekki verður hjá því komist heldur að minnast á þungan rekstur mjög margra hjúkrunarheimila en margir rekstraraðilar, t.d. sveitarfélög, greiða verulegar fjárhæðir með rekstrinum og íhuga jafnvel að skila heimilunum af sér til ríkisins verði ekki ráðin á því bót. Það virðist ekki vera gert ráð fyrir svigrúmi til að rétta stöðuna af.
Í málaflokknum Fjölskyldumál eru liðir sem allir hafa á einhvern hátt mikil áhrif á afkomuöryggi og það umhverfi sem fjölskyldunum er búið. Markmiðin eru um margt ágæt en kannski vantar svolítið upp á efndirnar. Því miður virðist þeim fjármunum ekki vera til að dreifa. Það er hægt að segja að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sé frekar metnaðarlaus þegar kemur að þessu og það er frekar afturþróun en framþróun. Ekki er ætlunin að lengja fæðingarorlofið eða setja lágmarksgreiðslu þannig að það fylgi lágmarkslaunum, né heldur að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Ekki er metnaðurinn meiri þegar kemur að barnabótum þar sem haldið er áfram að þrengja kerfið þannig að mun færri njóta greiðslna í stað þess að nýta þær til að auka jöfnuð milli hópa. Aftur og enn eru notuð orðin einföldun og skilvirkni.
Þessi bágborna frammistaða þegar kemur að málefnum barnafjölskyldna og ungu fólki er þeim mun alvarlegri þegar kannanir sýna, bæði á Íslandi og í ýmsum nálægum löndum, að ungt fólk hefur dregist aftur úr eldri aldurshópum í þróun lífskjara. Stjórnvöld hljóta að taka mark á skýrslum sem sýna það að mörg þúsund börn á Íslandi búa við fátækt. Börnin eru það mikilvægasta í samfélaginu og um leið það viðkvæmasta og það er stjórnvalda að hafa þau í huga ef sporna á við barnafátækt með því að setja þau í forgang í áætlunargerð og byggja upp sterkt félagslegt velferðarnet.

Því miður virðist sem ríkisstjórnin ætli ekki að setja viðeigandi fjármuni til að tryggja innleiðingu og vonandi lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ekki eru sýnilegar aðgerðir sem tengjast beint innleiðingunni heldur er meira púðri eytt í að fjalla um nýgengi örorku og starfsgetumat.

Það sama á við hér og víða annars staðar að þrátt fyrir góða stöðu ríkissjóðs er ekki gert ráð fyrir að bæta stöðu öryrkja og þeirra sem verst standa í samfélaginu. Ætlunin virðist vera að öryrkjar búi áfram við það að framfærslutrygging þeirra, sem á að nafninu til að tryggja greiðslu til þeirra til að halda í við lægstu laun, skerðist krónu fyrir krónu. Má vísa í umsagnir Öryrkjabandalagsins og ASÍ í þeim efnum.

Til stendur að lögfesta ramma um notendastýrða persónulega aðstoð og er það vel, en erfitt er að átta sig á því hvaða raunverulegu fjármunir eiga að fylgja.

Sú aukning sem birtist í málefnasviðum gagnvart öldruðum er fyrst og fremst til að mæta áætlaðri fjölgun aldraðra og til að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna í smáskömmtum þar til það nær 100 þús. kr. á mánuði í lok áætlunartímans. Þá virðast innbyggð í áætlunina áhrifin af áætlun um hækkun lífeyristökualdurs almannatrygginga úr 67 árum í 70 ár á 24 árum.
Það er líka vert að halda því til haga að einungis hluti eldra fólks nýtur þeirrar hækkunar og eftir sitja hjón og sambúðarfólk og njóta ekki batnandi þjóðarhags, sem er algjörlega ólíðandi.

Í menntamálunum er að mörgu að hyggja. Sú ákvörðun að skýla menntamálum ekki lengur fyrir almennu aðhaldskröfunni er óskiljanleg og í engum takti við loforð um að styrkja menntakerfið eftir áralangt svelti. Það er enginn rökstuðningur í áætluninni fyrir því hvers vegna það er ekki gert.

Við vissum það að nemendum framhaldsskólanna myndi fækka, ekki bara með því að stytta námið heldur er tímabundin lífeðlisleg fækkun, en hún stendur stutt við, einungis í tvö ár. Því hefur verið haldið fram að sá sparnaður sem verður af því að stytta framhaldsskólanámið eigi að nýtast til eflingar á skólastiginu en það er svikið hér því að það kemur í ljós að heildarútgjöld til framhaldsskólastigsins lækka á tímabilinu um tæplega 1,5 milljarða miðað við árið 2017.

Því miður er það svo að það blasir við að ekkert á að gera með loforð fyrri ríkisstjórnar um að nota sparnaðinn sem leiðir af styttingunni til að styrkja námið og efla framhaldsskólastigið. Eldri bóknámsnemendum er vísað í einkarekin úrræði með tilheyrandi kostnaði og óþægindum. Við þurfum að hafa það í huga að skortur á menntun er einn helsti áhættuþáttur fátæktar og því mikið í húfi að öllum sem vilja stunda nám gefist til þess jöfn tækifæri.

Það sama gerist í háskólanum. Það var látið í veðri vaka af hálfu fjármála- og efnahagsráðherra þegar fjármálaáætlunin var kynnt að á grundvelli aukinna útgjalda til háskólanna mættu þeir vænta þess að geta aukið gæði starfseminnar og standast alþjóðlegan samanburð. Það virðist ekki vera mat þeirra sem um málið hafa fjallað að svo verði miðað við þessa áætlun.
Allt frá því á tímum síðustu vinstri stjórnar hefur verið stefnt að því að reisa Hús íslenskra fræða á Melunum í Reykjavík. Nú á að verða af því. Samkvæmt þingsályktunartillögunni eru ætluð útgjöld vegna þessa 3.290 millj. og þegar þau hafa verið tekin út fyrir rammann er ljóst að árin fram til 2021 verða mjög strembin fyrir háskólastigið og vandséð að unnt verði að láta óskina rætast um að fjármögnunin verði sambærileg við meðaltal OECD-ríkja árið 2016 og Norðurlandanna árið 2020, eins og Vísinda- og tækniráð lagði til. Íslendingar munu áfram búa við vanfjármagnaða háskólastarfsemi nema gripið verði til þess ráðs að fækka nemum á háskólastigi og draga háskólastarf verulega saman. Það er kannski það sem stendur til.

Að síðustu vil ég geta þess varðandi skólamálin að húsnæðismál Listaháskóla Íslands, sem við höfum töluvert rætt, eru í miklum ólestri og ekki virðist vera gert ráð fyrir því að úr því eigi að bæta á næstu árum. Því miður, verð ég að segja, virðulegi forseti.

Í málefnasvið 31, sem er húsnæðisstuðningur, kemur í ljós að í ljósi þeirrar stöðu húsnæðismála sem við stöndum frammi fyrir er tæplega verið að takast á við þau fyrirheit sem hafa verið látin í veðri vaka.

Viðmiðunarfjárhæðirnar varðandi vaxtabæturnar standa í stað. Þá stórfækkar auðvitað fjölskyldum sem fá slíkan stuðning. Tekjujöfnunaráhrif kerfisins fara þverrandi sem eykur enn á erfiðleika, sérstaklega yngra fólks.

Áform ríkisstjórnarinnar hljóta að vera vonbrigði, ekki síst fyrir unga fólkið sem samkvæmt rannsóknum er mun verr statt en unga kynslóðin fyrir tæpum 30 árum. Það þurfa að vera raunverulegir kostir í boði fyrir ungt fólk á húsnæðismarkaði, hvort heldur með kaupum eða leigu, því að framtíð íslensks samfélags byggist á því að við búum vel að öllu fólki og ekki síst hinu unga. En því miður blasir við að ríkisstjórnin skilar því sem næst auðu þegar kemur að lausn húsnæðisvandans í landinu, eins og hann blasir við um þessar mundir og er öllum kunnur.

Í málefnasviði 17 er m.a. fjallað um umhverfismál. Við höfum rætt töluvert um loftslagsmál, einkum viðbrögð við loftslagsbreytingum og aðgerðir til að draga úr mengun sem eru meðal brýnustu verkefna samtímans.
Miðað við áætlanir um útgjöld til þeirra málaflokka sem mynda málefnasvið 17 eru því miður ekki miklar líkur á að þeim verði sinnt sem skyldi, en þegar öllu er til skila haldið er svo að sjá sem einungis fáeinum hundruðum milljóna verði varið í málaflokkinn á gildistíma áætlunarinnar.

Við gætum stutt við Parísarsamkomulagið með landgræðslu í mun meira mæli en hér er lagt til. Við þyrftum að styðja myndarlega við markmið Parísarsamkomulagsins. Í rauninni er tilkostnaðurinn lítill en ávinningur ríkulegur.
Þá má líka sjá með því að fjárframlög til skógræktar drógust mjög verulega saman eftir hrunið haustið 2008 og hafa ekki aukist til neinna muna eftir það. Ekki er að sjá í ríkisfjármálaáætlun breytingar í því efni.

Það er áhyggjuefni að mörg hundruð milljónir vantar til þess að efla m.a. skógrækt og auka kolefnisbindinguna. Það er eitt af markmiðum Parísarsamkomulagsins. Með 200 millj. kr. viðbótarframlagi mætti t.d. tvöfalda skógrækt og fjórfalda hana með því að bæta einhverju meira við. Það væri góð fjárfesting til framtíðar og vegsauki hverri ríkisstjórn að hafa staðið að slíkri endurheimt landkosta til handa komandi kynslóðum.

Það er gert ráð fyrir tíu nýjum friðlýsingum náttúruverndarsvæða með hliðsjón af verndargildi og forgangsröðun þar sem áhersla er á vernd miðhálendisins Það er gott og gilt en ljóst að það vantar fjármuni, ekki síst í ljósi aukins ágangs á náttúruna.

Virðulegi forseti. Tíminn rýkur frá mér. Ég ætla næst að víkja að samgöngu- og fjarskiptamálum.

Við þekkjum öll söguna um það hvað Vegagerðin hefur verið svelt til langs tíma. Ríkisstjórnin hefur lýst vilja sínum til að fjárfest verði í samgöngumannvirkjum og samgöngukerfið byggt upp umfram það sem gert hefur verið undanfarin ár. Til þess vilja þau kanna nýjar leiðir, svonefnda samstarfsfjármögnun, en það er þó ekki útfært í ríkisfjármálaáætlun. Þá verð ég að taka undir gagnrýni Samtaka atvinnulífsins um að eðlilegt væri að þeim áformum væri lýst hér þannig að hægt væri að taka afstöðu til þeirra.

Ég vil líka halda því til haga að aukin gjaldtaka fyrir afnot af samgöngumannvirkjum felur í sér aukinn efnahagslegan ójöfnuð og er af þeim sökum afleitur kostur við fjármögnun samgöngumannvirkja. Ég verð að benda á það að á undanförnum árum hafa markaðir tekjustofnar til vegamála, t.d. eins og sérstakt vörugjald af bensíni, bensíngjald og olíugjald, verið veiktir verulega og þar eru í húfi upphæðir sem myndi muna verulega um og hefði munað verulega um undanfarin ár, sem hefði verið hægt að nota í vegaframkvæmdir í stað þess leggja upp með óljós áform af gjaldtöku.

Við þekkjum líka þörfina fyrir hafnarframkvæmdir um land allt sem hafa verið vanræktar og því miður virðist ekki vera mikið borð fyrir báru hér.

Ég hef sagt það oft í þessari pontu að rétt væri að skilgreina innanlandsflugið sem hluta af almenningssamgöngukerfinu og styðja þannig við það að það verði raunverulegur valkostur fyrir fólk sem þarf að ferðast milli landshluta.
Í málefnasviði 9, um almanna- og réttaröryggi, er eins og víða annars staðar talnaframsetningin ekki mjög upplýsandi. Það mætti halda að verið væri að leggja verulega aukið fé í rekstur stofnana á sviði almanna- og réttaröryggis en því miður er það svo að raunaukningin er í kringum 2,8% þegar við höfum dregið útgjöld vegna þyrlukaupa frá.

Ítarleg greining hefur líka legið fyrir á málefnum löggæslunnar og samþætting hennar og fjármálaáætlunar hefur að mörgu leyti tekist ágætlega að undanskildu því mikilvæga atriði að fjárveitingaramminn styður ekki við þau orð fjármála- og efnahagsráðherra sem hann lét falla við framsögu málsins, að í henni væri, með leyfi forseta:

„… tryggð efling löggæslu um land allt sem og landamæraeftirlit.“

Þá er ljóst að ekki er fylgt markmiðum löggæsluáætlunarinnar sem unnið hefur verið að undanfarin misseri hvað varðar mannaflaþörf, en hún gefur til kynna að miklu meiri þörf sé hvarvetna á landinu. Raunin er hins vegar sú að við blasir að fækka þarf um tíu lögreglumenn á Norðurlandi eystra og á Suðurlandi vegna veltutengdrar aðhaldskröfu. Þetta er algjörlega afleit staða og ekki í samræmi við þann veruleika sem við búum í með auknum ferðamannastraumi. Við verðum að taka mark á mannaflaþörf ríkislögreglustjóra og gera ráð fyrir auknum útgjöldum til lögreglunnar þannig að við getum tryggt almannaöryggi.

Sama má segja um sýslumannsembættin sem voru sameinuð en um leið varð til ákveðinn rekstrarvandi sem færðist yfir á öll embættin af fáum. Þar hefur ekki verið staðið við það sem átti að fylgja, þ.e. að styrkja embættin þannig að þau yrðu betur til þess fær að gegna hlutverki sínu. Af hálfu hins nýstofnaða dómsmálaráðuneytis hefur komið fram að þar er talin þörf fyrir róttækar aðgerðir í því skyni að efla starfsemi embættanna, en því miður rúmast það ekki innan fjárheimildanna. Verði ekki fjárframlag til embættanna aukin munu hinar róttæku aðgerðir vart felast í öðru en uppsögnum og fækkun starfsstöðva sem væri mjög miður, ekki síst fyrir íbúa landsbyggðarinnar þar sem ýmis mikilvæg þjónusta sem þarf að veita í nærsamfélaginu er m.a. á verksviði sýslumanna.

Sama má segja um Persónuvernd. Verkefni hennar hafa þrefaldast, en framlögin hafa staðið í stað frá árinu 2003. Persónuvernd hefur óskað eftir 95 millj. kr. viðbótarframlagi þar sem m.a. er fram undan innleiðing viðamikillar evrópskrar persónuverndarlöggjafar, en það er ekki gert ráð fyrir því hér. Auðvitað er það ótækt að sú stofnun geti ekki sinnt skyldum sínum sem skyldi.

Starfsemi Landsréttar mun hafa verulega áhrif á fjárhagslegt umhverfi dómstólanna þar sem gert er ráð fyrir 600 milljörðum kr. í rekstur hans árlega. Það er ríflega sú upphæð sem útgjöld vegna starfsemi dómstóla munu aukast um ár hvert á áætlunartímabilinu. Ég er með nokkrar töflur í áliti mínu því til stuðnings.

Nokkur atriði að lokum, virðulegi forseti. Það er ekki gert ráð fyrir fjárveitingu til byggingar náttúruminjasafns þrátt fyrir samþykkt Alþingis þar um. Ég vil líka segja að það orkar tvímælis að setja menningarstarfsemi, listir og æskulýðsmál saman undir einn lið áætlunarinnar. Það er frekar ógagnsætt. Mér finnst mikilvægt að við gerum æskulýðsmálum hátt undir höfði, þar á meðal þáttum sem lúta að því að styrkja lýðræðisvitund ungmenna og kostningaþátttöku þeirra.

Síðan í blálokin um ferðamálin. Við þurfum að efla flugþróunarsjóð svo að við getum haldið úti flugi frá Keflavík til innanlandsflugvalla. Við þurfum að gera áætlun um borgarlínu. Það er sérstakt að hún sjáist ekki í áætluninni þrátt fyrir að hafa verið í umræðu töluvert lengi. Það er undrunarefni.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert athugasemdir við byggðamálaáætlun ríkisstjórnarinnar, að það vanti framtíðarsýn fyrir málaflokkinn og hvernig eigi að framfylgja henni.

Ég verð líklega að koma síðar inn á önnur mál sem mig langar að viðra en vil segja að endingu að þótt ég hafi bent á margt sem veldur vonbrigðum varðandi áform stjórnvalda um fjármögnun opinberrar starfsemi á gildistíma ríkisfjármálaáætlunarinnar og annað sem því miður er öldungis óhaldbært í þeim efnum þá skiptir mestu að ramminn utan um tekjuöflun hins opinbera er allt of þröngur. Fyrir þær sakir verður þróttur ríkisins og sveitarfélaga til að sinna þjónustu við borgarana og byggja upp í þágu velferðar í samtíð og framtíð minni en ástæða er til. Það svigrúm sem verið hefur í ríkisfjármálum hefur ekki verið nýtt sem skyldi til samfélagslegrar uppbyggingar og hafa skattar og gjöld á auðugustu hópa samfélagsins verið lækkuð með þeim hætti að ríkið hefur orðið af 25–30 milljarða tekjum á ársgrundvelli sem hefði verið hægt að nýta til umbóta og uppbyggingar í þágu samfélagsins.

Hvernig við sem samfélag ákveðum að haga málum okkar er jafnframt ákvörðun um það hvernig samfélag við viljum byggja upp. Vinstri græn vilja að markmið og tilgangur ríkisfjármála sé að tryggja öllum tækifæri til að njóta sín í samfélaginu og að öllum séu tryggð mannsæmandi kjör. Það er hægt að gera með fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem miðar að því að auka jöfnuð í samfélaginu með því að afla ríkissjóði tekna með réttlátum hætti sem síðar verða nýttar til að efla heilbrigðisþjónustu, menntakerfi, velferðarkerfi, til uppbyggingar innviða og til að tryggja viðkvæmustu hópunum mannsæmandi kjör.
Í ljósi þess sem ég hef rakið flytur 1. minni hluti breytingartillögu við tekju- og gjaldahlið, til að mæta þeim brýnu þörfum sem samfélagið stendur frammi fyrir.

Ég ætla að lesa greinargerð með breytingartillögunni sem í rauninni byggir á þeirri ríkisfjármálaáætlun sem við Vinstri græn lögðum fram þegar við fórum í kosningabaráttu okkar haustið 2016. Greinargerðin hljóðar svo, með leyfi forseta:
„Eigi fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 að þjóna markmiðum um eflingu mikilvægra innviða m.a. uppbyggingu á sviði heilbrigðis-, mennta- og samgöngumála, gefa færi á bættum kjörum öryrkja og aldraðra, og umbótum í húsnæðis- og fjölskyldumálum, þarf að stækka útgjaldaramma hennar og auka tekjur á móti.
Hér er lögð til nokkru meiri tekjuöflun en nemur aukningu útgjalda, einkum framan af tímanum. Það leiðir til meiri afgangs af rekstri ríkissjóðs sem nemur um 0,5% af vergri landsframleiðslu fyrstu tvö ár tímabilsins en nokkru minna eftir það. Þessi áhersla gegnir þeim mikilvæga hagstjórnarlega tilgangi að vinna gegn þenslu og styrkingu gengis gjaldmiðilsins sem auðveldar lækkun vaxta.

Sökum þess hversu óljósar forsendur eru í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og plaggið ógagnsætt telur 1. minni hluti óhjákvæmilegt að í stað sundurliðaðra útgjalda í núverandi áætlun verði ramminn allur stækkaður til að koma til móts við verulega þörf. Síðan verði unnið að útfærslu á ráðstöfun rammans samhliða vinnu að fjárlagafrumvarpi sem taki mið af útgjaldaþörfinni.“

Virðulegi forseti. Þetta er kannski það sem hefur verið gegnumgangandi í gagnrýni þingmanna stjórnarandstöðunnar, og ekki bara stjórnarandstöðunnar, líka stjórnarliða, varðandi það ógagnsæi sem veldur því að ekki er hægt að átta sig á nema sumu. Þrátt fyrir að við höfum beðið um og fengið eitt og annað sundurliðað er þetta form eitthvað sem við þurfum að fara betur yfir til þess að leggja fram næst mun skýrar en gert hefur verið.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Álit og umsagnir VG vegna ríkisfjármálaáætlunar

23. maí 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Hérna er slóðin á nefndarálit mitt fyrir hönd VG vegna ríkisfjármálaáætlunar hægri stjórnarinnar. Fyrst er nefndarálitið sem ég skila sem fjárlaganefndarmaður og svo fylgja umsagnir félaga minna í þingflokknum fyrir hverja nefnd þingsins. Langt og mikið plagg en hægt að skoða hvern málaflokk fyrir sig eftir mína samantekt.

http://www.althingi.is/altext/146/s/0809.html

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Málefni Hússtjórnarskólans á Hallormsstað og menningarhús á Héraði

23. maí 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Störf þingsins í dag.

Ég tek undir það og væntanlega þingheimur allur og við sendum samúðarkveðjur okkar til Breta og aðstandenda þeirra sem urðu fyrir þessari ömurlegu árás.

Ég ætlaði að ræða hér málefni Hússtjórnarskólans á Hallormsstað og þá sorgarsögu sem við erum að verða vitni að í dag þar sem mennta- og menningarmálaráðherra hefur tekið þá ákvörðun að framlengja ekki samning við skólann. Skólinn hefur starfað síðan 1930. Á sama tíma og verið er að leggja niður starfsemi skólans á líka að svíkja loforð um uppbyggingu menningarhúss, en fyrrverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Illugi Gunnarsson, flaug í skyndi austur á Egilsstaði og undirritaði viljayfirlýsingu þar sem fjármagni var lofað á næsta ári í byggingu þess. Hvað er menning ef ekki hússtjórnarskóli.

Það hafa verið viðraðar margar hugmyndir af hálfu skólafólks Hallormsstaðarskóla í ráðuneytinu til að auka ásókn nemenda og breyta námsbrautarskilgreiningum til að laða að nemendur, en það hefur ekki fengið mikinn hljómgrunn í mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem það hefur ekki fallið undir hin formlegu, hefðbundnu bóklegu fög. Á sama tíma tölum við gjarnan um að við þurfum að auka verknám. Fulltrúar skólans hafa lagt fram ýmsar tillögur um nám, m.a. fyrir þá sem hyggja á frekara nám í matvælatengdum greinum eða framreiðslu, þá sem vilja afla sér undirbúnings fyrir nám í klæðskeraiðn eða textílhönnun, vegna þess að þar er jú sérstakt færi í dag. Nemendur hafa líka fengið þarna undirstöðu undir frekara matreiðslunám, í ferðaþjónustu, færni í þrifum á eldhúsi og framleiðslu, sem við vitum að full þörf er á í dag. Þarna er hægt að inna þetta af hendi, þarna er þekkingin til staðar. En ráðherra hefur kosið að nýta sér ekki þessa þekkingu með því að framlengja ekki samninginn. Það er mjög miður, virðulegi forseti.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar

19. maí 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Nú hefur meirihluti fjárlaganefndar skilað áliti sínu á ríkisfjármálaáætlun. Fátt sem kemur á óvart en það verður þó að segjast að hann er heldur gagnrýnni en ég átti von á sem er gott útaf fyrir sig. Það sem verra er er að ekki eru lagðar til breytingar á tekju- og gjaldahlið til að mæta þeirri brýnu þörf í uppbyggingu velferðarkerfisins og annarra innviða sem nauðsynleg er.

En stóra fréttin er að sjálfsögðu sú að meirihluti fjárlaganefndar styður ekki stærstu einstöku tillögu fjármálaráðherra um breytingu á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna og ef það gengur eftir er ljóst að ríkisfjámálaáætlunin er ekki fjármögnuð.

Það sem kemur ekki á óvart er að meirihlutinn vill einkavæða innviðina eins og t.d. Keflavíkurflugvöll með öllu tilheyrandi og styðja við “fjölbreytt” rekstrarform í öllu mögulegu, auka gjaldtöku í samgöngum en minnka samneysluna.

Ég er ánægð með þá tillögu að menntakerfið eigi ekki að sæta jafn miklu aðhaldi og lagt er til af hálfu ráðherra en svo er að sjá hvort það gengur eftir því það hlýtur að verða tekið af einhverju öðru ef ekki á að auka tekjurnar.

Ekkert á að koma til móts við þarfir lögreglunnar og sýslumanna, dómstigið nema að afar litlu leyti.

Eldri borgarar og öryrkjar njóta ekki uppsveiflunnar í hagkerfinu og svo mætti lengi telja.

En ríkisfjármálaáætlunin verður rædd í þinginu á þriðjudaginn og hvet ég sem flesta til að fylgjast með þeirri umræðu.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Panama

12. maí 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Birti hér svar sem ég var að fá frá fjármálaráðherra um skattrannsókn á grundvelli keyptra gagna.

1. Hve margir aðilar með íslenska kennitölu koma fyrir í gögnum sem skattrannsóknarstjóri keypti sumarið 2015 og gjarnan eru kennd við Panama?

Samkvæmt upplýsingum frá skattrannsóknarstjóra er fjöldi einstaklinga með íslenska kennitölu, sem fyrir koma í þeim gögnum sem skattrannsóknarstjóri keypti sumarið 2015, samtals 349. Fjöldi aflandsfélaga með íslenska kennitölu, sem fyrir koma í keyptu gögnunum, er 61.

2. Hversu mörg mál hafa verið tekin til formlegrar rannsóknar á grundvelli upplýsinga úr gögnunum og hve mörg þeirra hafa leitt til endurálagningar eða ákæru?

Alls hafa 34 mál verið tekin til formlegrar rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra vegna gruns um skattalagabrot sem tengjast hinum svonefndu Panamagögnum. Af þeim voru 27 tekin til rannsóknar eftir að skattrannsóknarstjóri festi kaup á umræddum gögnum. Eitt mál hefur verið tekið til rannsóknar í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar í tengslum við Panamalekann. Við rannsóknir skattrannsóknarstjóra á þessum málum hefur vaknað grunur um skattalagabrot í sex öðrum málum. Af þeim málum er tekin hafa verið til rannsóknar er rannsókn lokið í þremur málum. Tveimur af þeim hefur verið vísað til héraðssaksóknara en ákvörðun hefur verið tekin um að gera kröfu um sekt hjá yfirskattanefnd í þriðja málinu. Rannsóknir í sjö málum eru á lokastigi. Rannsókn átta mála hefur verið felld niður, m.a. vegna þess að grunur hefur ekki reynst á rökum reistur eða ekki hefur reynst unnt að upplýsa mál með fullnægjandi hætti. Endurálagning hefur enn ekki átt sér stað í þeim málum sem rannsókn er lokið í og ekki hefur verið gefin út ákæra í þeim málum sem send hafa verið héraðssaksóknara.

Þau mál, sem var að finna í keyptu gögnunum og ekki voru tekin til formlegrar rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra (SRS), voru framsend til ríkisskattstjóra í október 2015 með vísan til þess að greining SRS á umræddum gögnum benti til þess að skattskil aðila gætu verið athugunarverð, án þess þó að sýnt þætti að um refsiverð undanskot væri að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafa þegar verið send út bréf til 229 einstaklinga í tengslum við hin keyptu gögn. Til viðbótar þeim sem hafa fengið bréf hafa fleiri íslenskir aðilar sem fram komu í keyptu gögnunum hlotið skoðun hjá embættinu án þess að formlegar bréfaskriftir hafi nú þegar átt sér stað.

3. Hversu háum fjárhæðum nemur endurálagning opinberra gjalda á grundvelli gagnanna, annars vegar í heild og hins vegar eftir tegundum opinberra gjalda?

Eins og fram kemur í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar þá er rannsókn lokið í þremur málum hjá skattrannsóknarstjóra, en endurálagning í þeim málum hefur ekki átt sér stað. Önnur mál, sem eru til meðferðar hjá skattrannsóknarstjóra, eru enn í rannsókn.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra nemur endurálagning opinberra gjalda á grundvelli keyptu gagnanna 81.951.171. kr. Að baki þeirri fjárhæð eru fjórir einstaklingar. Þar af nam auðlegðarskattur 80.997.139 kr. og tekjuskattur 954.032 kr.

4. Hversu háum fjárhæðum nema sektir og önnur viðurlög í umræddum málum?

Eins og áður er komið fram hefur tveimur málum skattrannsóknarstjóra verið vísað til héraðssaksóknara til refsimeðferðar, jafnframt því að tekin hefur verið ákvörðun um að gera kröfu um sekt hjá yfirskattanefnd í þriðja málinu. Ákvörðun um refsimeðferð í málum sem enn eru til rannsóknar verður tekin í framhaldi rannsóknarloka.
Ríkisskattstjóri hefur ekki heimildir til að beita sektum en hefur þó lagaheimildir til að beita 25% álagi skv. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Var þeirri heimild beitt í nefndum málum, sbr. svar við 3. lið fyrirspurnarinnar.

5. Hve margir einstaklingar annars vegar og lögaðilar hins vegar hafa sætt endurálagningu á grundvelli gagnanna og hvernig skiptast fjárhæðir endurálagningar og sekta og annarra viðurlaga milli einstaklinga, félaga í rekstri, eignarhaldsfélaga og annarra félagsforma?

Til svars við þessum lið fyrirspurnarinnar er vísað til svars við 2.–4. lið.

6. Í hve mörgum tilfellum og fyrir hve stórum hluta krafna vegna endurálagningar hefur ríkissjóður trygg veð?

Skattrannsóknarstjóri hefur farið fram á kyrrsetningu eigna vegna rannsókna í þremur af þeim málum sem hafa verið til rannsóknar. Tollstjóri annast slíka kyrrsetningu að beiðni skattrannsóknarstjóra. Endurálagning ríkisskattstjóra fer án frekari íhlutunar inn í innheimtukerfi ríkisins þar sem nauðsynlegum innheimtuaðferðum er beitt sé umrædd endurálagning ekki greidd.

7. Hve mörgum málum sem urðu til vegna upplýsinga úr Panamaskjölunum er enn ólokið og hversu háum fjárhæðum má gera ráð fyrir að endurálagning geti numið?

Af þeim málum sem skattrannsóknarstjóri tók til meðferðar eru eins og fram hefur komið rannsóknir í sjö málum á lokastigi og rannsóknir í 16 málum eru enn í gangi, eða samtals í 23 málum. Samkvæmt upplýsingum frá skattrannsóknarstjóra er útilokað að segja með nákvæmni hversu háar fjárhæðir er um að ræða í óloknum málum, en í einstökum málum sem eru til meðferðar nema undandregnir skattstofnar allt að nokkrum hundruðum milljóna króna. Þá er fyrirséð að fleiri mál verði tekin til rannsóknar á næstu mánuðum, þar sem grunur liggur nú fyrir um skattalagabrot, en rannsókn er ekki formlega hafin.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra er í gangi úrvinnsla á fjölmörgum málum. Á grundvelli mála sem langt eru komin þá má áætla að fjárhæðir gjalda vegna þessa málaflokks geti þrefaldast á næstu mánuðum frá því sem áður var nefnt. Þá er rétt að taka fram að eftir að vinna við þennan málaflokk hófst hafa borist sex skatterindi þar sem einstaklingar, ýmist persónulega eða vegna félaga á þeirra vegum, hafa óskað eftir endurupptöku á áður innsendum skattframtölum. Um er að ræða fjármuni og/eða fjármagnstekjur erlendis sem áður hafði ekki verið gerð grein fyrir á framtölum. Hækkun á auðlegðarskatti vegna þessa hefur nú þegar numið 36.400.647 kr., tekjuskatti alls 25.780.957 kr. og fjármagnstekjuskatti 6.179.803 kr. Jafnframt eru óafgreidd sjö skatterindi af sama meiði sem leiða til viðbótarskattlagningar.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Ræða Lilju Rafneyjar á 1. maí á Suðureyri

4. maí 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Lilja Rafney þekkir stöðu verkafólks betur en margur enda verkakona í áratugi. Var í forystu verklaýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum lengi og hefur staðið fyrir hátíðarhöldum 1. maí á Suðureyri til margra ára. Hér er ávarp hennar á baráttudegi verkafólks þann 1. maí s.l.

Góðir félagar til hamingju með alþjóðlegan baráttudag verkafólks.

Sjaldan eða aldrei í sögu íslenskrar þjóðar hefur efnahagur landsins verið jafn góður og nú um stundir,okkur hefur tekist með sameiginlegu átaki þjóðarinnar og hagstæðum ytri skilyrðum m.a. með fjölgun ferðamanna,öflugum sjávarútvegi,makrílveiðum og annara hagstæðra ytri skilyrða tekist að vinna okkur hratt út úr Hruninu.
Það mætti því ætla að smjör drypi af hverju strái og hagur almennings og landsins alls væri traustur og hægt væri að bæta kjör þeirra sem höllum fæti standa og efla t.d. innviði á landsbyggðinni.

En það er ekki sá veruleiki sem alltof stór hluti þjóðarinnar býr við því miður. Ég vil nefna hér tvennt sem endurspeglar ójöfnuð sem viðgengst í okkar ríka samfélagi.
Fátækt er veruleiki alltof margra og lýsir sér með margvíslegum hætti . Helstu áhættuhópar eru tekjulágt fólk ,einstæðir foreldrar með börn og aldraðir og öryrkjar.

Fátæk börn eru smánarblettur á þjóðfélagi sem tilheyrir ríkustu þjóðum heims og í dag líða um 10% barna skort á Íslandi.
Það er eitthvað mikið að hjá þjóð sem telur sig búa í velferðarþjóðfélagi en lætur slíkt samt viðgangast.
Því börn eru sá hópur sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér og verða að sætta sig við þær aðstæður sem þeim eru skapaðar hverju sinni. Þau líða fyrir fátækt á heimili sínu hverjar svo sem orsakir fátæktarinnar eru. Sum börn bíða þess aldrei bætur og félagslega geta þau orðið utan garðs og ekki þátttakendur í því samfélagi sem þorri bara á Íslandi hefur aðgang að.

Það er dapurlegt að vita til þess að fjöldi barna fer á mis við ótal hluti sem teljast sjálfsagðir í nútímasamfélagi. Þar má nefna íþróttir,listnám og annað uppbyggilegt frístundastarf sem öll börn óháð efnahag foreldra ættu að hafa aðgang að.
Mikil hætta er á að í neysluþjóðfélagi okkar beri fátæk börn það með sér með einhverjum hætti t.d. í klæðaburði og öðru hvernig ástatt er og að þau verði fyrir aðkasti og einelti skólafélaga sinna og eru þar með komin í félagslegan áhættuhóp. Allt þetta dregur úr möguleikum þeirra í framtíðinni til sömu lífsgæða og tækifæra sem önnur betur sett börn hafa.
Oftar en ekki lenda foreldrar fátækra barna í tímabundnum áföllum sem þarf að vera hægt að bregðast við strax svo þeir geti náð sér aftur á strik sem fyrst og lendi ekki í vítahring fjárhagserfiðleika sem ekki er hægt að komast út úr.
Stór hluti vandans eru lág laun umönnunarstétt og verkafólks. Laun hefðbundinna kvennastétta í kennslu og heilbrigðisstéttum eru ekki metin að verðleikum til jafns við ábyrgðarstörf sem felast í að höndla með fjármuni. Það er ólíðandi að laun fyrir 100 % starf standi ekki undir lágmarksframfærslu.

Skattgreiðslur láglaunahópa hafa aukist á síðustu árum þar sem skattleysismörk hafa ekki fylgt launaþróun í landinu og verið er að eyðileggja þrepaskipt skattkerfi. Ríkisvaldið hefur tekið meira og meira af lágum tekjum fólks í skatta og ýtt undir það að fólki lendi í fátæktargildru.

Í velferðarríki gegnir ríkisvaldið mikilvægu hlutverki til að jafna afkomu fólks og möguleika. Tekjujöfnunaraðgerðir geta bætt hag fátækra barna á Íslandi nú þegar og fjárfest þar með í framtíð þeirra með því að afla tekna af hinum tekjuháu í þjóðfélaginu.

Launahækkanir undanfarinna missera hafa skilað sér misvel til almennings í landinu og fyrirtæki eru misburðug til að rísa undir þeim. Stóru sjávarútvegsfyrirtækin mala gull meðan mörg þau minni á landsbyggðinni reyna að halda sjó. Stærsta atvinnugrein þjóðarinnar í dag ferðaþjónustan er alltof oft uppvís af því að greiða lág laun undir kjarasamningum sem bitnar oftar en ekki á ungu og erlendu starfsfólki ,slíkt á ekki að líðast. Sjávarútvegsfyrirtæki hóta að fara með vinnslu úr landi ef verkafólk og sveitarfélög dansa ekki eftir þeirra höfði. Kúgunartæki eru allt of víða í gangi sem menn veifa eða beita þegar halda á fólki á mottunni og sína hver ræður. Peningar og völd eru stjórntæki sem beitt hefur verið gegn launafólki í háa herrans tíð og gert er enn í dag.

Aukin misskipting og fátækt eru afleiðing þess að fjármunum er stýrt kerfisbundið þangað sem þeir eru fyrir. Þeir ríku verða ríkari og fátækari fátækari það er gömul saga og ný.

En auðvita er þetta ekkert náttúrulögmál og verkalýðshreyfingin þarf að taka sér tak og gera betur fyrir sitt fólk einnig stjórnvöld,sveitarfélög og ýmis félagasamtök , hvert og eitt okkar getur líka haft áhrif.

Við verðum að beita öllum tiltækum úrræðum til að koma í veg fyrir félagslegan ójöfnuð og fátækt.
Það er vissulega ekkert náttúrulögmál að einhver hluti þjóðarinnar þurfi að búa við fátækt eða örbirgð heldur er það samfélagsmein sem unnt er að uppræta ef vilji er fyrir hendi.
Ég vil líka koma inná misjöfn búsetuskilyrði eftir landsvæðum það er vissulega stór hluti af lífskjörum launafólks á viðkomandi svæði. Kostnaður vegna þátta eins og t.d. heilbrigðisþjónustu, menntunar, orkuverðs, vöruverðs, flutningskostnaðar, samgangna,mnýframkvæmda og annarar þjónusta vigtar þungt hjá þeim sem búa í mikilli fjarlægð frá stórhöfuðborgarsvæðinu. Aðrir þættir vega vissulega þarna jákvætt upp á móti en við eigum að standa fast á þeirri kröfu að búsetuskilyrði séu jöfnuð.

Það er kjarabót sem skiptir máli fyrir allt launafólk sem vill búa a landsbyggðinni og gerir þá sjálfsögðu kröfu að þjónustustigið sé gott og grunnþjónustan sé tryggð. Það er því miður veruleikinn víða að þjónustustigið hefur dregist saman á mörgum stöðum ekki bara í minnstu byggðunum heldur líka á stærri stöðum. Þetta skrifast á ýmsa þætti s.s. breytt rekstrarumhverfi en einnig á opinbera og einkaaðila. Það vantar sárlega samfélagslega ábyrgð í allar ákvarðanartökur í stað þess að ákvarðanir stjórnist eingöngu af hámarks arðsemi og græðgi.

Yfirskrift dagsins er „Húsnæði-sjálfsögð mannréttindi „ við þekkjum öll umræðuna um uppsprengt húsnæðisverð og rokdýrt leiguverð á höfuðborgarsvæðinu þar þarf vissulega að taka til hendinni svo venjulegt launafólk geti átt þess kost að búa við þau mannréttindi að hafa þak yfir höfuðið á sanngjörnu verði. Á landsbyggðinni er annarskonar vandi í húsnæðismálum þar hefur varnarbarátta verið háð lengi vegna neikvæðrar íbúaþróunar en lítið sem ekkert verið byggt sökum lágs markaðsverðs og hás byggingarkostnaðar. Þar er sívaxandi ásókn í sumarhús í þéttbýli og víða skortir orðið leiguhúsnæði fyrir fólk sem er að byrja að búa eða vill minnka við sig og vill búa á landsbyggðinni en hefur ekki aðgengi að fjármagni til að byggja eða kemst ekki í öruggt leiguhúsnæði. Verkalýðshreyfingin hefur farið í samstarf við sveitarfélög í stærstu sveitarfélögunum um uppbyggingu almennra íbúða en landsbyggðin má ekki gleymast þar býr launafólk sem á rétt á að búa við aðgengi að öruggu húsnæði. Launþegahreyfingin hefur skyldur gagnvart öllum launþegum og á að taka slaginn með landsbyggðinni líka í húsnæðismálum.

Verkalýðshreyfingin kom með öflugum hætti að uppbyggingu húsnæðis á landsbyggðinni á sínum tíma og væru mörg byggðarlög illa stödd ef það húsnæði væri ekki til staðar í dag.
Nú þarf Verkalýðshreyfingin ,stjórnvöld og sveitarfélög að horfa til landsbyggðarinnar í uppbyggingu á húsnæði því áframhaldandi þensla á höfuðborgarsvæðinu er engum til góðs.

Ef framboð á húsnæði er ekki til staðar þá fáum við ekki fólk til þess að flytja til landsbyggðarinnar og unga fólkið leitar áfram annað ef húsnæði og atvinnutækifærin eru ekki til staðar.
Verkalýðshreyfingin er fjöldahreyfing sem getur látið til sín taka og haft áhrif ,hún er ekki bara forystan hverju sinni heldur fólkið sjálft sem skipar hreyfinguna . Það fólk þarf að fylgja fast eftir baráttunni fyrir bættum kjörum-baráttunni gegn fátækt og ójöfnuði og fylgja eftir þeirri kröfu að búsetuskilyrði landsmanna séu jöfnuð.

Góðir félagar við erum ein þjóð með fjölbreytta flóru íbúa og eigum auðlindir landsins saman og kjör almennings eiga að endurspeglast í þeirri staðreynd. Það eiga allir að njóta góðs af batnandi hag þjóðarinnar og fá sömu tækifæri í lífinu óháð búsetu og efnahag.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður.
Ræða flutt á 1. maí hátíðarhöldum á Suðureyri 2017.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

90 daga gistileyfi

3. maí 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ég ræddi á Alþingi í dag um lögin um heimagistingu sem tóku gildi um áramótin. Vissulega er ekki langt liðið á árið en alveg ljóst að einhverjar brotalamir eru í ferlinu.

Á fund okkar í fjárlaganefnd hafa komið fulltrúar sveitarfélaga sem hafa haft við þetta frumvarp miklar athugasemdir, bæði vegna þess að sveitarfélög fá ekki tilkynningu um það hverjir skrá sig og svo hafa þau áhyggjur af eftirlitinu. Það sama átti sér stað þegar við fjölluðum um þetta í þinginu, við höfðum áhyggjur af eftirlitsþættinum. Eitt stöðugildi er í eftirlitinu sem vistað er hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Ég tel það morgunljóst að það dugar ekki ef ætlunin er að ná utan um málið.

En áhyggjurnar snúa ekki bara að eftirlitinu að það sé ekki nægjanlega gott heldur var ætlunin að “draga upp á yfirborðið” þá sem væru í svartri starfsemi en sú hefur því miður ekki orðið raunin, að því ég best veit og skráningar ekki ýkja margar.

Síðan er kostnaðurinn líka mun meiri en til stóð. Þetta átti allt að vera miklu einfaldara, þetta átti ekki að vera íþyngjandi.

Í lögunum segir: “Að auki felst í frumvarpinu að einstaklingar sem ætla að bjóða upp á heimagistingu skv. nýrri skilgreiningu þurfi að skrá sig á vef sýslumanna og staðfesta að þeir uppfylli ákveðnar kröfur um brunavarnir sem og ástand og samþykkt eignar sem íbúðarhúsnæðis. Fyrir skráningu verður greitt árgjald, 8000 kr. Þetta er ætlað til að einfalda og bæta eftirlit með leyfislausri starfssemi.”

“Einstaklingar sem skrá sig þurfa ennfremur að skila sýslumanni árlega nýtingaryfirliti og/eða tekjuyfirliti ásamt því að fá úthlutað skráningarnúmeri sem ber að birta og nota í allri markaðssetningu og eins ber að merkja viðkomandi húsnæði með númerinu.”

Sem sagt lagt upp með 8.000 kr. en síðan hefur fólk sem hefur sótt um jafnvel þurft að borga heilbrigðiseftirlitsgjald, hærri fasteignaskatta o.s.frv. jafnvel vegna leigu á sumarbústaðnum sínum eða í öðru húsnæði sem það á og hefur heimild til að leigja á þennan hátt.

Í allri umræðu um þetta mál kom aldrei fram að kostnaðurinn gæti verið á bilinu 100-200 þús. krónur til að fá leyfi auk þess sem þeirra biðu hærri fasteignaskattar.

Þáverandi ráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, sagði: “En það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig þessi lagasetning, sem er gríðarleg einföldun fyrir akkúrat þann hluta sem varðar einstaklingana, mun hafa til þess að færa þessa starfsemi meira upp á yfirborðið. Núna er það þannig að menn falla í efri flokk í fasteignagjöldum ef þeir leigja út. (Forseti hringir.) Þeir þurfa að sækja um rekstrarleyfi, heilbrigðisvottorð og allt það sem fælir fólk frá því að skrá, (Forseti hringir.) en kannski stundar fólk þessa starfsemi þrátt fyrir það.”

Þetta virðist ekki hafa orðið niðurstaðan. Fólk sem ætlar að leigja í 2-3 mánuði á ári er ekki tilbúið til að “koma upp á yfirborðið” þegar greiða þarf hærri fasteignagjöld, leyfisgjöld, heilbrigðiseftirlitsgjöld osfrv. Þess utan er augljóst að einungis einn aðili hjá sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu eigi að sjá um eftirlit á öllu landinu. Það sér hver heilvita maður að það gengur ekki upp. Við þurfum að skoða þetta mál aftur og fara betur yfir það.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

« Fyrri færslur Nýrri færslur »