Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Öryggi barna og staða lögreglunnar

Í störfum þingsins ræddi ég um öryggi barna.

Frú forseti. Mig langar að taka undir orð hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur um Bláan apríl og eins að allir dagar ættu að vera dagar barna, burt séð frá því hvort við erum að tala um dag einhverfunnar, um áfengi í búðir eða hvað svo sem við erum að fjalla um.

Það er ástæða þess að ég ætlaði að eiga hér orðastað við hv. þm. Vilhjálm Árnason sem er staddur erlendis. Hann er lögreglumaður og þingmaður og hefur starfað í fjárlaganefnd og er nú í allsherjar- og menntamálanefnd. Mig langaði til að ræða við hann um stöðu lögreglunnar eftir að við höfum litið fjármálaáætlun augum.

Það kom nefnilega fram, og hefur verið í blöðum bæði í gær og í dag, að barnaníðingur fær ekki viðeigandi refsingu vegna þess að lögreglan hefur ekki haft tilskilin úrræði til að bregðast við. Það kemur fram, og er haft eftir yfirlögregluþjóni sem að málinu kom, að sá langi tími sem fór í rannsóknina skýrðist af gríðarlegu umfangi gagna en líka af því að tölvurannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu byggi við mannfæð. Fjöldi mála væri til rannsóknar en kerfið réði ekki við að fá jafn umfangsmikinn pakka og hér var um að ræða.

Að sjálfsögðu þykir yfirlögregluþjóni ekki gott að lögreglan hafi ekki þau úrræði sem til þarf til að takast á við slíkt. Ef eitthvað er þá hlýtur það að vera frumskylda okkar þingheims að sjá til þess að börnin okkar búi við öryggi, að við og börnin okkar þurfum ekki að óttast að barnaníðingar á hverjum tíma gangi lausir og að við þurfum að horfast í augu við það sem foreldrar að þeir nálgist börnin okkar og barnabörnin. Lögreglan hefur ekki mannafla til að takast á við þetta verkefni og hún hefur það ekki með nýrri ríkisfjármálaáætlun, þar sem fé til hennar er engan veginn nægjanlegt.