Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Nýgengi örorku ungs fólks - hvað er til ráða?

7. febrúar 2018 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Nýgengi örorku hjá ungu fólki er gríðarleg. Ríflega helmingur þeirra sem fengu 75% örorkumat á síðasta ári glímir við geðraskanir. Staða okkar er töluvert lakari en í samanburðarlöndum og við þurfum að staldra við og spyrja okkur hverjar orsakirnar séu.

Í nýjasta Læknablaðinu kemur fram að tæplega 13% aukning er á ávísun metýlfenídat-lyfja og nýir notendur um 3.200. Það er tæplega 78% aukning á fimm ára tímabili. Í nýrri BS-rannsókn við Háskóla Íslands kemur fram að tæp 7% framhaldsnema við skólann hafa misnotað örvandi lyfseðilsskyld lyf og 13% nemenda í grunnnámi.

Það er að mínu mati of lítið rætt um ástæður og samspil fíkniefna- og lyfjanotkunar og geðheilbrigðis. En hvað er til ráða? Við þurfum að grafast fyrir um orsakir og undirliggjandi þætti þess að svo margt ungt fólk glímir við geðraskanir og við þurfum líka að skoða öll úrræði frá grunni. Eitt af þeim úrræðum sem við höfum er Virk en þar höfum við séð mikinn árangur, bæði fjárhagslegan og samfélagslegan, sem hefur á undanförnum árum skilað þúsundum einstaklinga í virka þátttöku á vinnumarkaði, við virka atvinnuleit eða að fólk hefur farið í lánshæft nám og þannig öðlast nýtt tækifæri til samfélagsþátttöku.

Nýr heilbrigðisráðherra hefur lagt áherslu á að auka geðheilbrigðisþjónustu við ungt fólk og reyna að stemma stigu við þeirri þróun. Auknir fjármunir voru settir í fjárlög þessa árs, bæði til heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa sem og BUGL. Ætlunin er að fjölga sálfræðingum og þverfaglegum geðheilsuteymum innan heilsugæslunnar og auka aðgengi fólks að hugrænni atferlismeðferð.

Mikilvægast í mínum huga er að ná utan um orsakir nýgengis örorku hjá ungu fólki og ekki síst þau úrræði sem við brúkum því að augljóslega er pottur brotinn í því öllu saman, annars stæðum við ekki í þessum sporum. Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til dáða í þeim efnum

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).