Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Að loknum kosningum

30. október 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ég sótti um vinnu hjá þjóðinni á laugardaginn í þriðja sinn á 5 árum. Það hefur tekið á en er samt ótrúlega skemmtilegt. Hafandi starfað sem kennari og náms- og starfsráðgjafi þá þekki ég það að vera í vinnu hjá fólki og fyrir fólk. Að finna að ég geri gagn, hvort heldur er fyrir nemendur og foreldra eða almennt fyrir þjóðina þá er ég þakklát fyrir tækifærið.

Mér þykir afar skemmtilegt að tala við fólk og í þessari kosningabaráttu sem að baki er þá bætti ég mikið í reynslubankann. Það var sérstaklega ánægjulegt að ganga í hús og spjalla við fólk sem tók alltaf vel á móti okkur.

Svo voru það allir fundirnir en við heimsóttum hvern einasta stað í kjördæminu okkar frá Siglufirði til Djúpavogs og tókum fólk tali.

Því er hins vegar ekki að neita að kosningabaráttan tók á sig ljóta mynd með hálfgerðum Trump-isma þar sem afar hart var sótt að okkur í VG. Við tókum þá ákvörðun að fara ekki á slíkt plan og við fundum að fólk virti það við okkur.

Það má vel vera að þessi aðferð hafi kostað okkur einhver prósent en við erum sátt í hjartanu eftir að hafa háð heiðarlega baráttu og rætt um málefni og stefnu okkar en einblína ekki á hvað aðrir flokkar hafa gert eða ætla að gera.

En nú þegar niðurstaðan liggur fyrir vona ég að okkur takist að mynda góða félagshyggjustjórn fyrir fólkið í landinu. Það leiða næstu dagar í ljós.

Takk fyrir mig allir þeir sem lögðu á sig ómælda vinnu til stuðnings okkur í VG og að sjálfsögðu þið sem okkur kusuð. Við munum gera betur.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).