Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Stefna í þágu landsbyggðanna

29. október 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Mótun og framfylgd byggðastefnu sem í senn miðar að því að tryggja íbúum landsbyggðanna réttmæta hlutdeild í velferðarþjónustu samfélagsins og stuðla að traustri búsetu er meðal mikilvægustu viðfangsefna stjórnmálanna. Vinstri græn vilja stuðla að byggð um allt land á forsendum sjálfbærni og virðingar fyrir fólki og umhverfi. Völ er á ýmsum úrræðum til að styrkja byggðir landsins en áður en þeim er beitt er mikilvægt að vita hvar skóinn kreppir.

Íbúum í dreifbýli hefur fækkað á undanförnum áratugum og þéttbýlisbúum fjölgað. En staðreyndin er að Ísland er strjálbýlt land og byggð á stórum svæðum í landinu einkennist af fámennum samfélögum og löngum vegalengdum milli byggðra bóla og opinber stefna þarf að miðast við það í öllu tilliti.

Hvað viljum við og hvað gerum við?

Vinstri græn vilja stuðla að góðu gengi landsbyggðanna. Við viljum einfaldlega að landið haldist í byggð. Við viljum nýta mannauð landsbyggðanna og þá þekkingu sem landsbyggðarfólk býr yfir til heilla fyrir íslenskt samfélag og við viljum nýta náttúruauðlindirnar á sjálfbæran hátt þannig að umhverfinu sé hlíft og bæði einstaklingar og samfélag hljóti sanngjarnan skerf.

Það bíður okkar að hrinda í framkvæmd byggðastefnu þar sem sú staðreynd að Ísland er víðáttumikið og strjálbýlt land nýtur fullrar viðurkenningar. Stefnumörkun í samgöngumálum, – ekki síst hvað almenningssamgöngur snertir, – þarf að miðast við þetta og einnig skipulag heilbrigðis- og menntamála. Byggðastefna okkar nær til alls landsins, – einnig þéttbýlisins við Faxaflóa. Ekkert byggðarlag er öðru æðra. Við byggjum landið saman og höfum þörf fyrir hvert annað í efnahagslegu og félagslegu tilliti.

Við erum konur, karlar, börn, ungmenni, innfæddir Íslendingar og aðflutt. Sum hinna aðfluttu dvelja hér langan aldur og gera landið og samfélagið að sínum heimahögum en aðrir standa skemur við. Okkur ber að gæta þess að allir fái tækifæri til að láta til sína taka og gott af sér leiða án tillits til kyns eða uppruna. Í byggðastefnu okkar er gengist við því að við erum ekki öll nákvæmlega eins eða með sama bakgrunn en lögð áhersla á mikilvægi allra og hið óendanlega mikilvæga jafnrétti sem er grunnforsenda góðs samfélags.

Grettistak þarf í húsnæðismálum

Byggðastefna er ávallt mikilvægur farvegur stjórnmálanna til að færa fram þau mál sem eru brýn fyrir þróun og framvindu samfélagsins í heild og einstakra byggða. Nú brenna húsnæðismál víða á landsbyggðarfólki, líkt og í höfuðborginni. Of lítið er um nýbyggingar á úti um land og húsnæðisskortur hamlar sums staðar eðlilegum vexti. Viðbrögð við þessu hljóta að vera á verkefni stjórnmálanna og ljóst er að ekki ræður markaðskerfið við ástandið. Við Vinstri græn bendum á félagsleg úrræði svo sem byggingu leiguhúsnæðis sem fjármagnað er með atbeina hins opinbera sem lausn á vandanum og þar gegnir Íbúðalánasjóður mikilvægu hlutverki.

Atvinnulíf á okkar tímum er margbrotið og tekur örum breytingum. Öflugar grunnrannsóknir eru meðal styrkustu stoða nútíma atvinnulífs og menntun og símenntun er mikilvæg. Ekki síður á landsbyggðunum en annars staðar. Rannsóknir og menntun hljóta því að skipa veglegan sess í byggðastefnu og byggðaráðstöfunum.

Ef þú vilt raunverulega breytingu á stjórnarháttum þá kýstu Vinstri græn – gerum betur.
Birtist fyrst í Austurglugganum.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).