Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Sprengisandur - smá samantekt

23. október 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Fyrir ykkur sem ekki eruð á fésbókinni þá er hér svolítil samantekt frá Katrínu Jakobsdóttur eftir samtal þeirra Bjarna Ben á Sprengisandi í gær.

Við Bjarni Benediktsson hittumst á Sprengisandi hjá Kristjáni Kristjánssyni í morgun. Ég lagði þar áherslu á stefnu okkar Vinstri-grænna um að það sé tími til kominn að við náum samstöðu um uppbyggingu samfélagslegra innviða. Það er kominn tími til að við sameinumst um að forgangsraða í þágu opinbera heilbrigðiskerfisins, forgangsraða í þágu menntunar þar sem við erum því miður eftirbátar þeirra landa sem við berum okkur saman við þegar kemur að fjármögnun og forgangsraða í þágu velferðar, m.a. með því að tryggja kjör aldraðra og öryrkja, auka framboð á húsnæðismarkaði, styðja við barnafjölskyldur og nýta efnahagslegan uppgang þannig að hann skili sér til fólksins í landinu. Ég lagði líka áherslu á breytt stjórnmál þar sem fólk leggur sig fram um að skapa samstöðu um langtímasýn fyrir Ísland. Hér eru nefnilega mikil tækifæri og það skiptir máli að við gerum öllum kleift að nýta þau tækifæri.

Ég fór líka yfir það hvernig við viljum styrkja tekjugrunn ríkissjóðs með því að afla nýrra eigna- og skattatekna upp á ríflega 50 milljarða. Rúmur helmingur af því eru eignatekjur, þar á meðal auknar arðgreiðslur úr ríkisbönkunum og Landsvirkjun sem hægt væri að nýta í niðurgreiðslu skulda og eins skiptis aðgerðir. Við teljum að hægt sé að beita sér mun betur gegn skattaundanskotum og skattsvikum sem áætlað hefur verið að nemi tugum milljarða. Við viljum sjá sanngjörn afkomutengd auðlindagjöld í sjávarútvegi þannig að almenningur njóti arðsins af hinni sameiginlegu auðlind. Síðan höfum við lagt á borðið hugmyndir um auknar álögur á háar fjármagnstekjur og taka upp þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt, 1% auðlegðarskatt á hreina eign yfir 200 milljónum, hátekjuþrep á ofurtekjur og komugjöld á farseðla. Sömuleiðis höfum við viljað halda áfram að lækka tryggingagjald sem gagnast ekki síst litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Þessar tillögur ríma vel við þær áherslur sem aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt fram og okkur finnst mikilvægt að eiga samráð um skattabreytingar og tryggja þannig aukna sátt og pólitískan stöðugleika til lengri tíma. Við erum ekki spennt fyrir þeim vinnubrögðum að demba 18 milljarða skattahækkun á stærstu útflutningsgrein landsins í fullkomnu ósætti við greinina, leggja vegatolla á þá sem þurfa að fara um vegina eða að hækka skatt á mat sem leggst þyngst á lág- og millitekjuhópa.

Við ætlum nefnilega ekki að hækka skatta á almennt launafólk. Við ætlum að ráðast í þá uppbyggingu í heilbrigðismálum, menntamálum, velferðarmálum og innviðum sem fólkið í landinu kallar eftir. Það er ekki hægt að skjóta kostnaðinum við það að vanrækja þessa innviði inn í framtíðina. Við ætlum að ráðast í þessa uppbyggingu með ábyrgum hætti og með langtímasýn að leiðarljósi. Við ætlum að skilja offorsið eftir heima og vinna öðruvísi. Og við ætlum ekki að eyða þessari kosningabaráttu í að tala um Sjálfstæðisflokkinn og fylgihnetti hans. Þau geta hins vegar alveg haldið áfram að tala um okkur ef þau vilja enda liggur þeirra stefna fyrir í fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpi. Og það er ekki sóknarbolti fyrir Ísland.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).