Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Fjárfesting í menntun – gerum betur

19. október 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Skólar á öllum stigum, allsstaðar á landinu, hafa um of langt skeið verið undirfjármagnaðir á Íslandi þrátt fyrir batnandi efnahagsástand undanfarinna ára. Þetta er alvarleg staða. Ef við fjárfestum ekki í menntun munum við eiga í miklum vandræðum með að takast á við áskoranir framtíðarinnar og við munum dragast aftur úr öðrum þjóðum þegar vísinda- og tæknibyltingin ríður yfir af enn meiri þunga en við höfum áður þekkt.

Langt undir meðaltali þróaðra ríkja

Miðað við þær áherslur sem fráfarandi ríkisstjórn hefur sýnt í menntamálum kom auðvitað ekkert á óvart þegar fjárlög voru lögð fram að bæði framhaldsskólarnir og háskólarnir bera skertan hlut frá borði. Því hafði verið lofað þegar framhaldsskólinn var styttur að það hefði ekki áhrif á fjárframlögin en annað hefur nú komið á daginn. Aðhald og niðurskurður uppá 1,5 milljarð króna verður til þess að margir skólar geta ekki endurnýjað tækjabúnað eða hlúð að skólastarfinu svo vel sé.

Sama má segja um háskólana sem hafa þurft að draga saman seglin og er nú svo komið að útgjöld til háskólanna eru langt undir meðaltali þróaðra ríkja. Þessu verðum við að breyta og við Vinstri græn leggjum áherslu á að fylgja stefnu Vísinda- og tækniráðs um framlög vegna háskólanna.

Nám í takt við tímann

Mikilvægur liður í því að bæta menntakerfið og samfélagið í heild er að efla menntun í heimabyggð. Það er bæði mikilvægt fyrir unga fólkið en líka fyrir þá sem vilja bæta við sig á fullorðins árum. Við Vinstri græn leggjum mikla áherslu á fjölbreytt nám um allt land, bóklegt, verklegt, listnám sem og fjarnám óháð aldri og efnahag. Ef við viljum að ungt fólk búi heima sem lengst og/eða flytji aftur heim þá þurfum við að byggja upp nám sem skapar atvinnu sem ungt fólk í dag hefur áhuga á, nám í takt við tímann. Ný námskrá gefur aukin tækifæri fyrir skóla til að bregðast við þessu.

Grafalvarleg staða leik- og grunnskóla

Ekki er hægt að ljúka umræðu um menntamál án þess að nefna þá grafalvarlegu stöðu sem leik- og grunnskólar standa frammi fyrir. Það þarf samhent átak sem hvetur fólk til að sækja sér menntun og starfa við kennslu, til dæmis með því að efla faglegt sjálfstæði kennara og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum en um leið þarf að tryggja fjármuni til hennar.

Það er ánægjuefni að sveitarfélög séu í auknum mæli farin að bjóða börnum í grunnskóla upp á frí námsgögn. Grunnmenntun á að vera gjaldfrjáls að öllu leyti og ekki á að gera upp á milli barna eftir efnahag. Meiri jöfnuður er ein besta leiðin til að auka velsæld og hamingju í samfélaginu sem við hljótum öll að vilja fyrir afkomendur okkar. Forgangsröðunin skiptir máli og það tækifæri er til breytinga í næstu kosningum.

Birtist fyrst í Austurlandi.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).