Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Dagur í lífi frambjóðenda

14. október 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Þetta eru nú skemmtilegir dagar þó oft séu þeir langir. Mér þykir óskaplega gaman að hitta fólk og spjalla um landsins gagn og nauðsynjar eins og gjarnan er sagt.

Ég byrjaði daginn heima í Ólafsfirði tók strætó til Akureyrar þar sem við Berglind Häsler, kosningastýra og frambjóðandi, hittumst á Berlín og fengum okkur gott í gogginn. Mæli með þessum stað allan daginn. Sóttum Steingrím og héldum af stað austur á land. Fyrsta stopp hjá Ragga og Ásdísi á Hótel Seli þar sem kosningastýran gerði og græjaði og vertarnir buðu uppá kaffi og súkkulaði sem var vel þegið.

Næsta stopp var á Egilsstöðum þar sem við snæddum léttan hádegisverð á Gistihúsinu áður en við renndum á Reyðafjörð til að grípa 3ja sætis Ingibjörgu.

Kíktum í búðina á Stöðvafirði þar sem við hittum heldur betur hressar konur og að sjálfsögðu keypti ég mér kerti - geri það alltaf. :-)
Næsta stopp var á Breiðdalsvík en þar héldum við fínan fund og óhætt að segja að ýmis mál hafi borið á góma. Strandveiðar, byggðakvóti, samgöngur, frítekjumark og svo allt hitt. Við gerðum okkar besta til að svara og deila hugsjónum og hugmyndum okkar Vinstri grænna.

Næst var svo haldið á Djúpavog þar sem kúturinn var fylltur á veitingastaðnum Við Voginn og þaðan fórum við á Hótel Framtíð þar sem óhætt er að segja að fundurinn hafi verið líflegur og allt öðru vísi en sá fyrri. Lífeyrismál, samgöngur, menntamál, fiskeldi og margt fleira bar á góma.

Eins og gjarnan gerist teygðist úr fundinum og við seint á ferð en sátt við dagsverkið.

Á morgun ætlum við að heimsækja Seyðisfjörð og Borgafjörð eystri.

Þangað til ….

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).