Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Að hlaupast undan merkjum

10. október 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Nú reyna Sjálfstæðimenn að hlaupa frá því að þeir samþykktu í ríkisfjármálaáætlun sem gerði ráð fyrir miklu aðhaldi á heilbrigðisstofnanir, menntastofnanir, samgöngukerfið og öllu hinu.

Fjárlagafrumvarpið sem fór í gegnum ríkisstjórnina og síðan í gegnum þingflokka ríkisstjórnarflokkanna inn í þing. Nú þegar Sjálfstæðismenn þurfa ekki að standa með fjárlagafrumvarpinu lýsa þeir því yfir að þeir myndu ekki hafa stutt þetta eða hitt.

Það breytir í engu því að ríkisstjórnarflokkarnir undir forystu Sjálfstæðisflokksins boða aðhald í opinberri þjónustu. Stærsti hluti útgjaldaaukningarinnar fer í laun og verðlagsbætur. Rekstur heilbrigðisstofnana er ekki styrktur, framhaldsskólarnir fá ekki að halda óskertum framlögum eins og Sjálfstæðisflokkurinn lofaði þegar stúdentsnámið var stytt, háskólarnir eru langt frá OECD viðmiðum hvað þá Norðurlöndum, vegakerfið - ja þarf eitthvað að tíunda það!
Bjarni Ben segir í öðru orðinu að ekki sé hægt, og í raun óábyrgt, að setja meira í innviði t.d. heilbrigðismálin, en í þætti kvöldsins sagðist hann geta sótt tugi milljarða í bankakerfið. Er þetta ábyrgur málflutningur?

Nú skelfist Sjálfstæðisflokkurinn þegar hann stendur frammi fyrir því að verða líklega ekki í ríkisstjórn eftir næstu kosningar. Allt og allir eru ómögulegir við efnahagsstjórn nema Sjálfstæðisflokkurinn og hér fer allt í bál og brand nema þeir verði við stjórnvölinn að þeirra mati.

En raunin er sú að spillingin, óheiðarleikinn, leyndarhyggjan og það að Bjarni Benediktsson stendur fyrir sýnir að hann er ekki maður traustsins og heiðarleikans.

Enn í kvöld var hann að afneita því sem stór hluti þjóðarinnar hefur mótmælt í margvíslegum tilgangi - ríkisstjórnin sprakk vegna leyndarhyggju og siðrofs en ekki síður vegna þess að viðhorf hans og líka fjármálaráðherra, sem reyndi að bæta úr með afsökunarbeiðni í kvöld á stöð 2, er það sem að er. “Þetta mál var ekki þesslegt að hér ætti að slíta ríkisstjórn”. Hérna kemur siðferði og viðhorf þessara aðila í ljós.

Hverjum treystir þú?

Við getum gert svo miklu betur og ég vona svo sannarlega að þjóðin velji VG í kosningunum framundan það er kominn tími til breytinga og sú sem nýtur langmest trausts þjóðarinnar skv. könnunum er Katrín Jakobsdóttir sem hefur áunnið sér fádæma traust og stað­ist gylli­boð um að fara í rík­is­stjórn með flokkum sem stefna í aðra átt. . Kjósum hana til forystu í komandi ríkisstjórn.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).