Ósvaraðar fyrirspurnir
Það er með eindæmum hvað hægt gengur að fá sumum fyrirspurnum svarað. Ég er með tvær annars vegar á dómsmálaráðherra og hinsvegar á fjármálaráðherra báðar frá því í lok maí.
Mér þykir áhugavert í ljósi umræðunnar um stóruppkaup erlendra aðila á jörðum og svo tregðu ríkisins til að endurleigja út þær jarðir sem fólk þó vill búa á.
Hvað skyldi nú tefja?
Þessi er til dómsmálaráðherra
1. Hve margar jarðir í eigu ríkisins hafa losnað árlega úr ábúð sl. 10 ár, hve margar þeirra hafa verið auglýstar lausar til ábúðar, hve margar eru ekki lengur í ábúð og hver er ástæða þess?
2. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar um ábúð ríkisjarða og sölu bújarða í eigu ríkisins?
3. Hver er eigendastefna ríkisins um bújarðir?
4. Á hve stórum hluta ríkisjarða hefur farið fram mat á því hvort það felist samfélagslegur ávinningur í eignarhaldi ríkisins eða almannahagsmunir, svo sem vegna landgræðslu, vegagerðar eða annars sem ríkið metur til almannahagsmuna?
5. Hvaða skilyrði þarf ábúð á ríkisjörð að uppfylla til að talið verði að samfélagslegir hagsmunir byggðar á viðkomandi svæði skaðist ekki verði látið af ábúð? Hversu þungt vega þessi sjónarmið við mat á nauðsyn ábúðar á ríkisjörðum?
6. Tryggir ríkissjóður fjallskil á þeim jörðum sínum þar sem þau eiga við?
7. Hyggst ráðherra setja skýrar reglur til þess að koma í veg fyrir kaup erlendra aðila, sem ekki hafa hér lögheimili og fasta búsetu, á landi, m.a. jörðum í eigu ríkisins? Ef svo er, hvert verður megininntak þeirra reglna?
8. Hvernig hyggst ráðherra tryggja megináherslur samningsins um viðhald ræktunar og endurræktun á grasi, grænfóðri og korni á bújörðum ríkisins svo að ræktað land sem ekki er setið fari ekki fljótlega í órækt?
og þessi til fjármálaráðherra
Hyggst ráðherra setja skýrar reglur til þess að koma í veg fyrir kaup erlendra aðila, sem ekki hafa hér lögheimili og fasta búsetu, á landi, m.a. jörðum í eigu ríkisins? Ef svo er, hvert verður megininntak þeirra reglna?
Posted in Óflokkað