Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Forgangsröðun

6. júní 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Kláraði að fara yfir nefndarálit mitt vegna ríkisfjármálaáætlunar og ræddi m.a. um heilbrigðismál, byggðamál, landbúnað, eftirlitsstofnanir, Alþingi og svo börnin sem gleymast svo alltof oft þegar við forgangsröðum fjármunum hins opinbera.

Ég ætla að fara aðeins yfir það sem ég komst ekki yfir í fyrri ræðu minni því eins og hefur komið fram hjá flestum er þessi tími afskaplega stuttur sem við höfum til að ræða málin og ljóst að hann hefur ekki dugað til. Mig langar að byrja aðeins á sveitarstjórnarmálunum. Það er mjög mikilvægt þegar horft er yfir sviðið að byggðamálin séu höfð í forgrunni. Við tölum eðli máls samkvæmt mikið um Landspítala – háskólasjúkrahús, um skólamálin o.s.frv., en ekki mikið um byggðamálin í hinu stóra samhengi. Það hefur komið fram hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að þau telji framtíðarsýn skorta fyrir málaflokkinn, hvernig eigi að framfylgja byggðaáætlun í ríkisfjármálaáætlun. Við Vinstri græn höfum gagnrýnt mjög fjármagnið sem hefur verið sett í sóknaráætlanir landshluta sem er ætlað að auka hlutdeild heimamanna í ákvörðunum og ráðstöfunum í byggðamálum. Því miður virðist vanta að setja töluvert aukna fjármuni til að þær komi til framkvæmda eins og þeim var ætlað.

Ég átti eftir að fjalla aðeins um landbúnað, sjávarútveg og fleira og langar að gera það áður en ég fer almennt í það sem hefur komið fram í umræðunni. Þessi stóra grein, landbúnaður, hefur afar lítið verið rædd og fengið litla athygli. Það eru ekki lagðar fram neinar greiningar á áhrifum ýmissa aðgerða og kringumstæðna sem ljóst er að munu hafa mótandi áhrif á landbúnað og stöðu hans á komandi árum í ríkisfjármálaáætlun. Við getum nefnt breytingar á löggjöf sem verða til þess að auka til muna innflutning á hráu kjöti. Það er í algeru trássi við viðvaranir og ráðleggingar fagfólks á sviði lýðheilsu og sóttvarna. Aukin tíðni matarborinna sjúkdóma og lyfjaónæmar örverur geta átt eftir að valda miklum og verulegum vandkvæðum í íslensku samfélagi. Því verður maður að segja að fjárveitingar til Matvælastofnunar eru uggvænlegar en af þeim má ætla að stofnunin verði vanbúin til að mæta sínu hlutverki á tímabilinu.

Slæm staða sauðfjárbænda er algerlega augljós. Þeirra staða er í uppnámi, ekki síst í dreifðustu byggðum landsins. Það er ljóst að án stuðnings hins opinbera munu þeir ekki halda velli. Vandi sauðfjárbænda verður ekki leystur á forsendum markaðarins einum saman. Við vitum að ríkisvaldið þarf að láta til sín taka með vel undirbúnum og heildstæðum aðgerðum þar sem við tökum bæði tillit til bænda og neytenda. Þetta þarf að gerast hratt og örugglega. Margir bændur eru að þrotum komnir vegna erfiðra rekstraraðstæðna.

Sama má segja um sjávarútveg og fiskeldi. Það liggur ekkert fyrir varðandi skipan auðlindagjalda í sjávarútvegi eða fiskeldi. Fjárveitingar til rannsókna og eftirlits virðast mjög knappar þótt fram hafi komið í skýrslu hjá Matvælastofnun að þörfin sé mikil til að styrkja starfsemi stofnunarinnar, enda er hún mikilvæg fyrir allar matvælaframleiðslugreinar landsins og hún hefur í raun eftirlit með í kringum 6.000 aðilum.

Hafró fær allt of litla peninga til að sinna sínum verkefnum. Miklar breytingar hafa orðið á starfsemi Fiskistofu, m.a. vegna flutningsins til Akureyrar, og álagið hefur verið töluvert. Það þarf líka að bregðast við vegna áforma um aukið fiskeldi.
Að allt öðru, að okkur hér innan húss, þ.e. Alþingi og eftirlitsstofnunum. Það hefur ekki fengið mikið vægi í umræðunni. Við erum með eftirlitsstofnunina Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis. Það er ljóst að þessir aðilar hafa ekki verið í færum til að fylgja þeim verkefnum eftir sem þeim er ætlað svo vel sé og ekki gert ráð fyrir því í fjármálaáætlun, a.m.k. er gagnsæið það lítið í henni að ekki er hægt að sjá að svo verði. Umboðsmanni er m.a. ætlað að innleiða svokallað OPCAT-eftirlit samkvæmt þingsályktun um fullgildingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Ekki er hægt að sjá að því sé ætlaður staður, hvorki hjá umboðsmanni né innanríkisráðuneytinu. Það sama má segja þegar kemur að utanríkismálum. Það er mjög dapurlegt að við skulum ekki verja meira fé til þróunarsamvinnu en hér er gefið til kynna. Því miður var þetta tekið úr sambandi í tíð síðustu ríkisstjórnar árið 2015 þegar við hefðum átt að komast að þeirri niðurstöðu að greiða u.þ.b. það sem Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt upp með, þ.e. 0,7% af vergum þjóðartekjum. Þrátt fyrir gríðarlega þörf fyrir alþjóðlega mannúðar- og þróunaraðstoð og yfir 65 milljónir manna á flótta höfum við ekki sinnt þessu sem skyldi og lagt okkar af mörkum sem rík þjóð.
Það sama er að segja um öll þessi eftirlitsbatterí, enda hefur gjarnan komið fram hjá Sjálfstæðismönnum að þeir aðhyllast ekki mjög eftirlit. Neytendastofa er fjársvelt og fleiri aðilar sem eiga að sinna þessu. Á sama tíma og talað er um í stjórnarsáttmála að það eigi að auka og efla neytendavernd fá stofnanir sem eiga að sinna henni ekki til þess fjármuni.

Þetta var það sem ég átti eftir að segja frá í mínu nefndaráliti.

Núna langar mig aðeins að venda mínu kvæði í kross og tala um einstök málefni sem hafa borið hæst í umræðunni og er að finna bæði í nefndaráliti meiri hlutans og allra minni hlutanna. Það er m.a. heilbrigðisþjónustan sem við vorum að ræða. Ég held að í ljósi þess sem við höfum upplýsingar um og greinar sem birtist í Fréttablaðinu í gær sem Sveinn Arnarsson tók saman um félagslega heilbrigðiskerfið hljóti meiri hlutinn að þurfa að hugsa sinn gang. Við eigum ekki að þurfa að ræða málefni einkaspítala þegar þetta liggur fyrir. Það sýnir ekki bara sú rannsókn sem er undir í greininni heldur er vitnað í hvernig til hefur tekist víða annars staðar.

Það segir í greininni að hægt sé að skipta heilbrigðiskerfum í þrennt: Félagslegt kerfi eins og tíðkast á Norðurlöndunum, blandað eða svokallað skyldutryggingakerfi sem þekkist víða í Vestur-Evrópu og svo einkarekstrarkerfi. Svo segir áfram, með leyfi forseta:

„Aðgengi að þjónustu er best í félagslegu heilbrigðiskerfi og hlutfallslegur kostnaður sá lægsti af þessum þremur. Einnig hafa rannsóknir sýnt að lýðheilsa einstaklinga er best hjá þeim þjóðum þar sem félagslegt heilbrigðiskerfi er við lýði.“
Síðar segir: „Við erum að færast frá félagslegu heilbrigðiskerfi.“ Þetta er að mati prófessors í lýðheilsufræðum, Rúnars Vilhjálmssonar

Svo segir hér:

„En hvenær erum við komin í þá stöðu að búa ekki við félagslegt heilbrigðiskerfi? Rúnar segir að um leið og einstaklingar séu farnir að neita sér um heilbrigðisþjónustu blikki rauð ljós í mælaborðinu. „Þegar stór hluti sjúklinga er farinn að neita sér um nauðsynlega þjónustu vegna kostnaðar erum við farin út úr þessum ramma.“

Það er akkúrat þetta sem við erum búin að vera að tala um mjög lengi. Fullt af fólki neitar sér um heilbrigðisþjónustu. Vegna hvers? Vegna þess að hún kostar of mikið.

Hér var samþykkt á síðasta kjörtímabili greiðsluþátttökuþak. Við héldum allflest að við værum að tala um 50 þús. kr. Síðan hefur verið talað um að fara allt upp í 70 þús. kr. Þá eru lyfin ótalin. Þetta er allt of hátt og ekki samkvæmt því sem lagt var upp með. Við þessu þurfum við að bregðast.

Mig langar að halda áfram að vitna í greinina þar sem talað er um að í stað þess að nota hugtakið einkavæðing um þær breytingar sem hafa átt sér stað í íslenskri heilbrigðisþjónustu hafi hér verið farin sú leið að tala um aukinn einkarekstur eða að styðja við fjölbreytt rekstrarform. Þetta séu, með leyfi forseta, „dæmi um hugtök til heimabrúks sem hafi lítið gildi í fræðilegri umræðu. Þar sé talað um einkavæðingu.“

Ég nefni þetta því ég minnist þess að síðasti heilbrigðisráðherra talaði mjög mikið um að við færum ekki rétt með hugtök.
Það er mjög margt undir. Eins og ég kom inn á áðan finnst mér bagalegt að við skerðum þjónustu mjög víða í heilbrigðisgeiranum. Það er verið að leggja niður sjúkraflutningabíla, t.d. í minni heimabyggð. Það gengur illa að semja við þá sem keyra sjúkraflutningabílana. Þetta er grunnþjónusta sem við eigum rétt á og hún á að vera til staðar. Það er aukinn ferðamannastraumur. Það skiptir máli að þessir hlutir séu til staðar, að löggæslan sé í lagi. Hún er ekki í lagi. Það þarf að skera niður núna miðað við fjárveitingarnar. Þegar stjórnarliðar tala um að þeir geti jústerað á milli málaflokka núna í haust þá langar mig að vita hvar þeir telja að hægt sé að bera niður.

Virðulegi forseti.

Ég ætla líka að velta því upp að þegar við tölum um stöðu fólks og það geti ekki sótt sér heilbrigðisþjónustu þá finnst mér sem talsmanni barna á Alþingi að við tölum allt of lítið um það hverjir verða fyrir því að fjármunum er ekki rétt dreift. Það eru börnin okkar. Allt of mörg börn eins og við þekkjum og skýrslur liggja fyrir um búa við fátækt. Ef við ætlum að fjárfesta í innviðum þá erum við að tala um mannauð, heilsu, velferð og menntun og ekki síst málefni barna. Við eigum að fjárfesta í þeim alls staðar. Allt frá því þau fæðast og þar til þau klára sína skólagöngu, fara að kaupa sér húsnæði og eignast heimili. Þau þurfa þessa fjárfestingu frá upphafi, stuðning og hjálp til að þroskast og eiga gott líf. Því miður er niðurskurður á þjónustu til barna. Það kom fram á síðasta kjörtímabili og áfram heldur það núna. Færri og færri foreldrar fá t.d. barnabætur, þetta eru að verða hálfgerðar ölmusubætur.

Geðheilbrigðismálin hafa verið mikið til umræðu, ekki síst gagnvart ungum börnum og ungu fólki í skóla. Því miður koma þeir 1,8 milljarðar sem ætlaðir eru til aukningar í fjölskyldumálum ekki til framkvæmda fyrr en í árslok 2022. Það er eitt af því sem er hálfgerður blekkingaleikur. Við erum að tala um fjármálaáætlun til fimm ára en látið er eins og mjög mikið komi fram á næsta ári.

Einnig er talað um að styrkja stoðir æskulýðsstarfs en mikið er horft á afrekssjóð og ekki er talað um að öll börn eigi að geti notið þess að taka þátt í æskulýðsstarfi eða íþróttum. Meira er horft á afreksfólk. Það er gott og gilt en ekki má gleyma hinu. Ég tek undir það sem fram kemur um þetta í nefndaráliti meiri hlutans og ég vona að við sjáum þess stað. Það er með þetta eins og þriðja geirann, við þurfum á því að halda að þessum málefnum sé vil fyrir komið.

Virðulegi forseti.

Tíminn æðir áfram eins og vanalega. Ég legg mikla áherslu á að við horfum til þess að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sé hafður að leiðarljósi þannig að við getum dregið úr ójöfnuði meðal barna í heiminum öllum. Það gerum við m.a. með því að auka hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu í þróunarsamvinnu, það gerum við með því að styrkja þetta kerfi sem heyrir undir fjölskyldumál í ríkisfjármálaáætlun sem er allt frá fæðingarorlofi, barnabótum, brú milli leikskóla og dagvistunar og skóla o.s.frv . Ég held að við þurfum að horfast í augu við að sækja auknar tekjur til þess að geta staðið undir þeim hækkunum sem við þurfum. Við getum ekki bara bætt við útgjöld, það væri óábyrgt, við þurfum að afla tekna til að geta staðið undir þeim. Því miður sýnist mér að ríkisstjórnin hafi ekki áhuga á því. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að við fáum að heyra í stjórnarliðum hvar þeir telja að við eigum borð fyrir báru. Í málflutningi þeirra hefur ítrekað komið fram og kemur fram í nefndarálitinu að ekki á að stækka rammann heldur hreyfa til milli ramma og málaflokka við fjárlagagerðina í haust. Allar umsagnir, nema kannski tvær eða þrjár, segja að við þurfum meiri peninga. Allt í lagi, það er gjarnan eðli stofnana og þeirra sem sinna þjónustu, en ef við horfum bara á það sem við getum kallað bráða grunnþjónustu þá spyr ég: Eru stjórnarliðar sáttir við að fjármagnið dugi ekki til og það þurfi að fækka lögreglumönnum? Er það í lagi? Erum við sátt við að ekki verður á næstu árum farið í að byggja t.d. upp legudeild á Sjúkrahúsinu á Akureyri? Erum við sátt við það að við ætlum ekki að láta fleiri fjölskyldur njóta þess að fá barnabætur? Við hvað geta fulltrúar meiri hlutans sætt sig?(Forseti hringir.) Hvernig er með framhaldsskólana? Hvar ætla þeir að fjármagna það sem þeir leggja til um að peningarnir haldist inni í framhaldsskólakerfinu?

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).