Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Störf þingsins í dag.

26. maí 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ég ætla aðeins að tala um stöðu og áform ríkisstjórnarinnar, hver þau eru og hver ekki, og vitna í fundargerð þjóðaröryggisráðs sem var birt á dögunum þar sem eitt og annað kemur fram sem styður við það sem við höfum verið að segja, Vinstri græn og fleiri stjórnarandstæðingar, í pontu um m.a. ríkisfjármálaáætlun. Þar kemur nefnilega fram, haft eftir forsætisráðherra, sem sagði á fundinum að aukning ríkisútgjalda á þessu ári væri langt umfram það sem mætti reikna með til lengri tíma og langt umfram það sem hægt væri að standa undir til lengri tíma. Það kom líka fram hjá honum að lög um opinber fjármál væru farin að hafa mikil áhrif. Í stað þess að ráðstafanir í tekjumálum ríkisins kæmu fram í nóvember til afgreiðslu fyrir árslok kæmu þær nú fram að vori og tækju til margra ára. Það væri því mikilvægt að fjármálaáætlun kæmi ætíð fram á vori eins og lögbundið er og um hana næðist góð umræða.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að áherslan í ríkisfjármálaáætlun sé á niðurgreiðslu skulda, aðhald í rekstri og skynsamlega stjórnun fjárfestinga ríkisins. Þetta er það sem við höfum búið við og séð birtast í ríkisfjármálaáætluninni.
Í stjórnarsáttmálanum kemur fram um m.a. skattamál að hlutverk skattkerfisins sem tekjuöflunartækis fyrir sameiginleg útgjöld eigi að styrkja.

Hvernig? Með því að styðja við peningastefnunefnd? Nei, það á ekki að gera það heldur með því að lækka skatta. Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn eða meiri hlutinn sagt að hann ætli ekki að styðja við hækkun skatta á ferðaþjónustuna en það hefur hvergi komið fram að hann neiti að styðja lækkun virðisaukaskattsþrepsins, þ.e. úr 24% í 22,5%. (Forseti hringir.) Hér erum við enn og aftur að veikja tekjustofna ríkisins en ekki styrkja til þess að standa undir þeirri samneyslu sem lofað var fyrir kosningar af öllum flokkum, að styrkja innviði samfélagsins.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).