Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar

19. maí 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Nú hefur meirihluti fjárlaganefndar skilað áliti sínu á ríkisfjármálaáætlun. Fátt sem kemur á óvart en það verður þó að segjast að hann er heldur gagnrýnni en ég átti von á sem er gott útaf fyrir sig. Það sem verra er er að ekki eru lagðar til breytingar á tekju- og gjaldahlið til að mæta þeirri brýnu þörf í uppbyggingu velferðarkerfisins og annarra innviða sem nauðsynleg er.

En stóra fréttin er að sjálfsögðu sú að meirihluti fjárlaganefndar styður ekki stærstu einstöku tillögu fjármálaráðherra um breytingu á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna og ef það gengur eftir er ljóst að ríkisfjámálaáætlunin er ekki fjármögnuð.

Það sem kemur ekki á óvart er að meirihlutinn vill einkavæða innviðina eins og t.d. Keflavíkurflugvöll með öllu tilheyrandi og styðja við “fjölbreytt” rekstrarform í öllu mögulegu, auka gjaldtöku í samgöngum en minnka samneysluna.

Ég er ánægð með þá tillögu að menntakerfið eigi ekki að sæta jafn miklu aðhaldi og lagt er til af hálfu ráðherra en svo er að sjá hvort það gengur eftir því það hlýtur að verða tekið af einhverju öðru ef ekki á að auka tekjurnar.

Ekkert á að koma til móts við þarfir lögreglunnar og sýslumanna, dómstigið nema að afar litlu leyti.

Eldri borgarar og öryrkjar njóta ekki uppsveiflunnar í hagkerfinu og svo mætti lengi telja.

En ríkisfjármálaáætlunin verður rædd í þinginu á þriðjudaginn og hvet ég sem flesta til að fylgjast með þeirri umræðu.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).