Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

90 daga gistileyfi

3. maí 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ég ræddi á Alþingi í dag um lögin um heimagistingu sem tóku gildi um áramótin. Vissulega er ekki langt liðið á árið en alveg ljóst að einhverjar brotalamir eru í ferlinu.

Á fund okkar í fjárlaganefnd hafa komið fulltrúar sveitarfélaga sem hafa haft við þetta frumvarp miklar athugasemdir, bæði vegna þess að sveitarfélög fá ekki tilkynningu um það hverjir skrá sig og svo hafa þau áhyggjur af eftirlitinu. Það sama átti sér stað þegar við fjölluðum um þetta í þinginu, við höfðum áhyggjur af eftirlitsþættinum. Eitt stöðugildi er í eftirlitinu sem vistað er hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Ég tel það morgunljóst að það dugar ekki ef ætlunin er að ná utan um málið.

En áhyggjurnar snúa ekki bara að eftirlitinu að það sé ekki nægjanlega gott heldur var ætlunin að “draga upp á yfirborðið” þá sem væru í svartri starfsemi en sú hefur því miður ekki orðið raunin, að því ég best veit og skráningar ekki ýkja margar.

Síðan er kostnaðurinn líka mun meiri en til stóð. Þetta átti allt að vera miklu einfaldara, þetta átti ekki að vera íþyngjandi.

Í lögunum segir: “Að auki felst í frumvarpinu að einstaklingar sem ætla að bjóða upp á heimagistingu skv. nýrri skilgreiningu þurfi að skrá sig á vef sýslumanna og staðfesta að þeir uppfylli ákveðnar kröfur um brunavarnir sem og ástand og samþykkt eignar sem íbúðarhúsnæðis. Fyrir skráningu verður greitt árgjald, 8000 kr. Þetta er ætlað til að einfalda og bæta eftirlit með leyfislausri starfssemi.”

“Einstaklingar sem skrá sig þurfa ennfremur að skila sýslumanni árlega nýtingaryfirliti og/eða tekjuyfirliti ásamt því að fá úthlutað skráningarnúmeri sem ber að birta og nota í allri markaðssetningu og eins ber að merkja viðkomandi húsnæði með númerinu.”

Sem sagt lagt upp með 8.000 kr. en síðan hefur fólk sem hefur sótt um jafnvel þurft að borga heilbrigðiseftirlitsgjald, hærri fasteignaskatta o.s.frv. jafnvel vegna leigu á sumarbústaðnum sínum eða í öðru húsnæði sem það á og hefur heimild til að leigja á þennan hátt.

Í allri umræðu um þetta mál kom aldrei fram að kostnaðurinn gæti verið á bilinu 100-200 þús. krónur til að fá leyfi auk þess sem þeirra biðu hærri fasteignaskattar.

Þáverandi ráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, sagði: “En það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig þessi lagasetning, sem er gríðarleg einföldun fyrir akkúrat þann hluta sem varðar einstaklingana, mun hafa til þess að færa þessa starfsemi meira upp á yfirborðið. Núna er það þannig að menn falla í efri flokk í fasteignagjöldum ef þeir leigja út. (Forseti hringir.) Þeir þurfa að sækja um rekstrarleyfi, heilbrigðisvottorð og allt það sem fælir fólk frá því að skrá, (Forseti hringir.) en kannski stundar fólk þessa starfsemi þrátt fyrir það.”

Þetta virðist ekki hafa orðið niðurstaðan. Fólk sem ætlar að leigja í 2-3 mánuði á ári er ekki tilbúið til að “koma upp á yfirborðið” þegar greiða þarf hærri fasteignagjöld, leyfisgjöld, heilbrigðiseftirlitsgjöld osfrv. Þess utan er augljóst að einungis einn aðili hjá sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu eigi að sjá um eftirlit á öllu landinu. Það sér hver heilvita maður að það gengur ekki upp. Við þurfum að skoða þetta mál aftur og fara betur yfir það.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).