Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Um kennaraskort

24. apríl 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að eiga þetta samtal hér við mig og þingmenn í dag. Nýútkomin skýrsla frá Ríkisendurskoðun um kostnað og skilvirkni kennaramenntunar á Íslandi leiðir í ljós fyrirsjáanlegan kennaraskort á landinu. Í skýrslunni kemur fram að skráðum nemendum við kennaradeildir Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri hafi fækkað um 35% frá árinu 2009 og að 51% færri nýnemar voru skráðir í deildirnar haustið 2016 samanborið við árið 2009.

Fyrir rétt um ári síðan birtist grein í Fréttablaðinu þar sem Helgi Eiríkur Eyjólfsson meistaranema og Stefán Hrafn Jónsson, prófessor við HÍ, kynntu niðurstöður rannsóknar sinnar. Þar kemur m.a. fram að allt að 50% aukning á útskriftum kennara næstu árin myndi ekki duga til að viðhalda kennarastéttinni. Á árunum 2014–2016 brautskráðust frá HÍ og HA að meðaltali 105 nemendur á ári með réttindi til að starfa á öllum skólastigum en það þarf a.m.k. 200 kennara bara í grunnskólann til að halda stéttinni við þannig að ljóst má vera að vandinn er mikill.

Jóhanna Einarsdóttir, forseti menntavísindasviðs Háskóla Íslands, segir þetta vera það sem þau hafa áður bent á og um sé að ræða samfélagslegan vanda þar sem stórir árgangar kennara eru að fara á eftirlaun og brautskráning kennara ekki haldið í við þá þróun. Hún segir að vilji sé allt sem þarf, málið sé hjá stjórnvöldum enda sé að skapast neyðarástand.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur m.a. fram að um 60% menntaðra leikskólakennara og um helmingur menntaðra grunnskólakennara sé við kennslustörf í leik- og grunnskólum landsins. Það segir okkur að kennaraskortur verður ekki eingöngu leystur með fjölgun kennaranema heldur þarf að horfa á málið í stærra samhengi. Áskorunin felst í því að laða menntaða kennara til starfa og hvetja þá til að halda áfram störfum innan stéttarinnar og þar getum við ekki horft fram hjá kjörum og starfsaðstæðum kennara. Því er ekki úr vegi að spyrja ráðherrann hvort hann telji að það markmið ráðuneytisins að fjölga kennurum yngri en 40 ára á árabilinu 2015–2019 gangi eftir að hans mati.

Viðbrögð ráðuneytisins við skýrslu Ríkisendurskoðunar eru athyglisverð að mörgu leyti. Merkilegast er þó að ekki hafi verið brugðist við fyrir löngu enda vandamálið ekki nýtt af nálinni eins og fram hefur komið. Heildstæð stefna var unnin í fyrra til fimm ára fyrir málefnasvið háskóla og vísindastarfsemi og var sú stefnumótun lögð til grundvallar við fjárlagagerðina. Einnig kemur fram að fjármálastefna ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára sé sett fram til að efla kennaramenntun og stuðla með því að endurnýjun í hópi kennara og betri framvindu nemenda í háskólum.

HÍ og HA segja hins vegar báðir í sínum viðbrögðum við skýrslunni að stjórnendur hafi ítrekað kynnt fyrir menntamálayfirvöldum, með leyfi forseta, „að langvarandi vanfjármögnun háskólastigsins hér á landi hefur hamlað framþróun starfsins, ekki síst nýliðun, endurnýjun innviða og þróun náms og nýbreytni í kennsluháttum“.

Nú þegar hefur HÍ fækkað námsleiðum vegna fjárskorts og HA segir t.d., með leyfi forseta, að það „væri mjög áhugavert að geta boðið bæði tónlistarkjörsvið og myndlistarkjörsvið í samvinnu við framhalds- og sérskóla í bænum“.
Því getur maður ekki annað en spurt sig hvernig ráðuneytið sjái fyrir sér að þetta komi heim og saman þar sem fyrir liggur að sú aukning sem boðuð er til háskólastigsins er allt of lítil og jafnvel er verið að skera niður námsframboð.

Frú forseti. Það er að mörgu að hyggja í þessu máli. Sífellt er sótt harðar að skólunum og starfsfólki þeirra og því mikilvægt að fram komi hjá ráðherra með hvaða hætti hann hyggist tryggja stuðning menntayfirvalda við kennara þannig að skólarnir geti stutt nægilega vel við bakið á yngri og eldri kennurum í þeim fjölþættu samskiptavandamálum sem þeir geta lent í gagnvart ytra starfsumhverfi. Með hvaða hætti mun ráðherra t.d. tryggja stuðning og ráðgjöf til skólastjórnenda og kennara í þeim tilfellum þegar tiltekin mál eru orðin mjög erfið í nærumhverfinu og jafnvel komin til umræðu í fjölmiðlum þar sem kennarar hafa ekki marga möguleika á að tjá sig opinberlega um sín sjónarmið? Ég get heldur ekki látið hjá líða að spyrja hæstv. ráðherra um vanda þeirra nemenda sem búa við geðræn vandamál en sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra þekkir hann að fábrotin úrræði eru til í skólum fyrir þá nemendur. Þetta er eitt af því sem veldur miklu álagi á kennara og nemendur. Eru einhver úrræði í úrvinnslu í ráðuneytinu til að taka á vanda þessa hóps?

Gjarnan er vitnað í Finna þegar kemur að góðu skólakerfi en þess má geta að í Finnlandi er þörfin fyrir sérkennslu greind og brugðist við henni mjög snemma enda er hún hugsuð sem forvarnaúrræði. Í finnskum grunnskólum fengu 28% nemenda sérkennslu árið 2013. Margir telja að sérkennslukerfi þeirra sé einn meginþátturinn í framúrskarandi árangri og jöfnuði sem einkennir finnska skólakerfið.

Ég veit að spurningarnar eru margar og ég vona að ráðherra komist yfir að svara þeim. Ég ætla að fara aðeins yfir þær. Sú fyrsta varðar Ríkisendurskoðun sem hvetur stjórnvöld til að grípa til aðgerða til að sporna við yfirvofandi kennaraskorti og dvínandi aðsókn í kennaranám. Mun ráðherra beita sér fyrir einhvers konar ívilnunum, t.d. í gegnum námslánakerfið eða með öðrum hætti? Telur ráðherra að breyta þurfi kennaranáminu á einhvern hátt? Ef svo er, hvernig? Er ráðherra sammála því að laun kennara séu ein orsök þess að einungis um helmingur útskrifaðra kennara ræður sig til kennslu? Telur ráðherra að sveitarfélög séu almennt fjárhagslega í færum til að bregðast við kennaraskorti? Hvað hefur verið gert af hálfu ríkisstjórnarinnar til að laða menntaða kennara til starfa og hvað er ráðgert í því efni á næstu mánuðum? Með hvaða hætti telur ráðherra að hægt sé að bæta starfsaðstöðu í skólum, gera kennarastarfið eftirsóknarverðara og efla skólastarf í landinu?

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).