Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

24. apríl 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Fyrir páska var til umræðu fjármálaáætlun hægri stjórnarinnar. Ég lagði orð í belg.

Frú forseti. Við ræðum fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 sem lengi hefur verið beðið eftir, er óhætt að segja. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum alla vega beðið og rætt um það að miðað við stefnuna sé ekki von á góðu. Því miður hefur það orðið raunin. Stefnan staðfestir það sem við Vinstri græn og fleiri höfum haldið fram í umræðunum, þ.e. að sú sókn í innviðauppbyggingu sem boðuð var af hálfu Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar fyrir kosningar sé hér fyrir borð borin.

Fjálglega er talað um sókn í velferðarmálum og að bjart sé fram undan eins og hæstv. ráðherra sagði, jafnvægi og framsýni séu það sem áætlunin beri í skauti sér. Ríkisstjórnin ætlar að herða verulega á aðhaldskröfunni, bæði til ráðuneyta og ríkisstofnana. Aðhaldsmarkmiðið verður almennt 2% á næsta ári og tekur til fleiri málefnasviða en lagt var upp með í fjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar; 2% veltutengt aðhald á næsta ári og eru það eingöngu heilbrigðis- og öldrunarstofnanir sem búa við 0,5% aðhaldskröfu.

Þessi 2% aðhaldskrafa nær til framhaldsskólastigsins, háskólastigsins. Þar verður aðhaldið fjórum sinnum strangara en það hefði verið samkvæmt ríkisfjármálaáætlun Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það er lækkun á dómstólakerfinu, sveitarfélögunum og byggðamálunum, ferðaþjónustumálum, framhaldsskólakerfinu og í húsnæðisstuðningi. Fram kemur að uppsöfnuð lækkun á útgjaldavexti ríkissjóðs verði í kringum 29 milljarðar til og með árinu 2022 og í heildina nemi uppsafnað aðhald út tímabilið 90 milljörðum. Þetta er á bls. 57.

Átti ekki að stórauka framlög til skólamála? Af þeim 660 milljónum sem háskólarnir hækka um milli 2017/18 fer stærsti hlutinn, eins og hér hefur verið bent á, í byggingu húss íslenskra fræða. Eina úrræði ríkisstjórnarinnar er að benda á að takmarka eigi nemendafjölda í háskólum ef tryggja eigi sambærilega fjármögnun og á hinum Norðurlöndunum. Talað er um yfirvofandi kennaraskort en engar tillögur um hvernig hægt sé að mæta honum. Það er jú sagt að við þurfum að endurskoða lögin um menntun þeirra og gera aðgerðaáætlun. Þetta er ekki nýtt vandamál.

Framhaldsskólarnir fá ekki að njóta fjármunanna sem sparast áttu við fækkun nemenda þrátt fyrir miklar yfirlýsingar þess efnis.

Framlög til sjúkrahússþjónustu eru um 7,3 milljarðar kr. á tímabilinu 2018–2022 ef frá eru talin framlög vegna byggingar nýs Landspítala. Það liggur alveg fyrir, eins og hér var rakið áðan af hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, að þessir fjármunir nægja engan veginn til að styrkja rekstur heilbrigðisþjónustunnar enda vandséð að hún muni halda í við fjölgun sjúklinga, hvað þá að hægt sé að standa við loforð um lægri greiðsluþátttöku sjúklinga eins og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ítrekað sagt.
Ég hef miklar áhyggjur af að þessi ríkisstjórn ætli að halda áfram á braut útvistunar og einkavæðingar.

Ég geri ekki lítið úr áformum um fjölgun sálfræðinga á heilsugæslum. Það var ákveðið í tíð síðustu ríkisstjórnar og góð áform eru hjá núverandi ríkisstjórn í þessa veru. Því miður get ég ekki séð að þessu séu ætlaðir nægjanlegir fjármunir.
Tíminn er lítill og af mörgu að taka. Í stefnu ríkisstjórnarinnar er ekki að finna neitt um húsnæðismál. Í þessari áætlun lækka stofnfjárframlögin þrátt fyrir að ljóst sé að sá fjöldi íbúða sem áður var rætt um að þyrfti næstu árin dugar engan veginn til. Gerðir voru ákveðnir samningar en það er alveg ljóst að það dugar engan veginn til. Vaxtabætur lækka verulega og frá árinu 2020 verða þær óbreyttar að raunvirði. Stóra málið í fjölskylduaðgerðum ríkisstjórnarinnar í baráttunni gegn fátækt er að setja af stað heildarendurskoðun um stuðning við barnafjölskyldur og þar eru hugmyndir um að hafa einar barnabætur þar sem settar eru saman hefðbundnar barnabætur og allar þær bætur sem foreldri fær í gegnum almannatryggingar. Það fer vonandi ekki sömu leið og gagnvart eldri borgurum sem endaði með því að mun færri fengu hækkun en ella hefði verið.

Í málaflokki 27, sem fjallar um örorku og málefni fatlaðs fólks, er gert ráð fyrir fækkun öryrkja, m.a. í gegnum starfsgetumat. Það er varhugavert að ætla að innleiða starfsgetumat áður en kannað hefur verið til hlítar hverjar afleiðingar þess gætu orðið fyrir þann hóp sem skal undir slíkt seldur. Kjör örorkulífeyrisþega eru léleg og ekki skánuðu þau við aðgerðir síðustu ríkisstjórnar. Ég tek undir þær hugmyndir að lengja tímabil sem einstaklingur getur verið á endurhæfingarlífeyri og tel mikilvægt að til séu staðir fyrir fólk sem er í endurhæfingu frekar en að pressan sé á atvinnuþátttöku því að almennt er vinnumarkaðurinn ekki svo áfjáður í að fá öryrkja til starfa.

Það kemur fram hækkun á bls. 54, í kafla um launa- og verðlagsforsendur og forsendur um hagrænar breytingar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Bætur og almannatryggingar eru áætlaðar í samræmi við meðalprósentuhækkanir launa á vinnumarkaði þar sem gert er ráð fyrir að þær verði umfram verðbólgu á tímabilinu. Miðað er við að hækkun bóta verði á bilinu 3,1–4,8%.“
Þetta er langt undir hækkun lágmarkslauna og þýðir í raun að staða lífeyrisþega versnar.

Loks á að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð. Því miður er það í ágreiningi við sveitarfélögin eins og sjá má á framlögðu frumvarpi félagsmálaráðherra en þar greinir á um hundruð milljóna. Allt er á sömu bókina lært hvað varðar samskipti við sveitarfélögin. Samkomulagið sem gert var um stefnuna, þar sem taka átti á gráu svæðunum, er hjómið eitt og birtist okkur hér. Meðaltal NPA-samnings vegna ársins 2014 var rúmlega 11 milljónir og kostnaðarþátttaka ríkisins hefur á þeim tíma farið úr 20% í 25%, en sveitarfélögin telja að hún þurfi að vera 30%. Á þessum tíma voru það í kringum 5.000 manns sem nýttu sér slíka þjónustu. Þeim á örugglega eftir að fjölga.

Það er óneitanlega sérkennilegt að lesa á bls. 328, með leyfi forseta:

„Staðan í málefnum barna með geð- og þroskaraskanir einkennist af skorti á heildarsýn, sem og skorti á samþættingu og samstarfi og skorti á þjónustu á ákveðnum sviðum.“

Afleiðing af þessu er meðal annars sú að ungum öryrkjum fjölgar. Mér þykir þetta segja afar mikið um aðgerðaleysi síðustu ríkisstjórnar og get eiginlega ekki séð að á þessu sé tekið í þessari áætlun. En það er nú reyndar þannig að það er erfitt að átta sig á mörgu, enda bara um heildarsummu að ræða í hverjum málaflokki og lítið sem ekkert brotið niður á málefnin og við því í algeru tómi með það hvernig fjármunum er ráðstafað.

Umhverfismál sem talin eru með allra mikilvægustu málaflokkum næstu áratuga — hvað sjáum við þar? Loftslagsmálin sem okkur verður svo tíðrætt um? Framlög til þessa málaflokks hækka í kringum milljarð á milli áranna 2017–2018 en svo lækka þau á milli 18 og 19. Það er ekki ásættanlegt hjá ríkisstjórn sem segist ætla að setja loftslagsmál í öndvegi.

Ég vil svo í lokin, því að tíminn flýgur áfram og maður veður á súðum við að koma sem mestu að, spyrja hæstv. ráðherra um nokkur atriði.

Á bls. 11 í áætluninni segir, með leyfi forseta:

„Auk þess verður settur skýrari rammi um hagnýtingu náttúru og auðlinda ríkisins, bæði til lands og sjávar. Þar þarf meðal annars að líta til tekjuöflunar ríkisins og sjálfbærni við nýtingu auðlindanna.“

Hvað er átt við? Hvaða mál eru hér í farvatninu? Verður til dæmis aðgangur að laxeldisleyfi áfram án auðlindagjalda?

Síðar segir:

„Koma þarf á samræmdu kerfi grænna skatta sem fela í sér eðlilegar álögur á mengandi starfsemi og skapa jafnframt hvata til samdráttar í losun og til annarra mótvægisaðgerða. Útfærsla á því krefst góðs undirbúnings, en fyrsta skrefið er stigið með þessari fjármálaáætlun og felst það í hækkun kolefnisgjalds.“

Eins og hæstv. ráðherra kom hér inn á. En felst losun mengandi starfsemi eingöngu í losun kolefnis? Er kolefnisgjald lagt á fleira en útblástur bifreiða, samanber undanþágur sem stóriðjan hefur, að minnsta kosti á hluta gjaldsins? Hvaða grænu skatta er ætlunin að samræma og með hvaða hætti? Hvaða stefnu aðhyllist ríkisstjórnin við skattlagningu rafbifreiða sem dregið hafa úr losun kolefnis? Verða þeir skattlagðir vegna tekjumissis ríkissjóðs? Í hverju felast í raun aðgerðir til að draga úr losun kolefnis?

Ég verð líka í blálokin að gagnrýna og taka undir með Mark Bly, prófessor í alþjóðlegri stjórnmálahagfræði. Hann hefur gagnrýnt fjármálaregluna sem er algerlega í anda þess sem við Vinstri græn ræddum þegar lögin voru samþykkt og mér finnst birtast hér í stefnunni og nú áfram í ríkisfjármálaáætluninni. Regluna sem er við lýði þekkjum við, en Mark Bly bendir á að fjármálareglur á borð við þessar séu að verða æ algengari. Þannig sé engu líkara en að reynt sé að festa í sessi og gera nánast óafturkræfa þá aðhaldsstefnu sem riðið hefur húsum víða um heim undanfarna áratugi. Slíkt gagnist engum nema lánardrottnum og ráðandi stéttum.

Undir þetta verð ég því miður að taka því að mér finnst allt benda í þá átt þegar við lesum þessa áætlun.
Ég ætla líka í lokin að varpa fleiri spurningum fram. Ýmist er talað um krónutölu eða hlutfallsaukningu í þessu plaggi sem er erfitt að nálgast; og það styður ekki gagnsæi. Hvers vegna er ekki búið að samræma markmiðasetningu ráðuneyta? Sum ráðuneyti eru hér með kostnaðartölur, önnur ekki, og sum hreinlega taka alls ekki á þessu og vinna ekki samkvæmt núverandi lögum, þau skila bara hálfköruðu verki (Forseti hringir.) til þingsins og ætla okkur svo að klára að vinna slakann.
Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að geta ekki komið í fleiri ræður í þessari atrennu.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).