Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Ungt fólk til ábyrgðar!

5. apríl 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Í störfum þingsins í dag.

Í morgun varð ég þess heiðurs aðnjótandi að stýra fundi sem bar heitið Raddir unga fólksins – er hlustað á skoðanir ungmenna? Þar var á ferðinni ungmennaráð Barnaheilla, umboðsmanns barna og UNICEF ásamt fulltrúa Ungmennafélags Íslands.

Ég velti fyrir mér í framhaldinu þegar verið er að tala um ungmennaráð að við erum með starfandi ungmennaráð hjá ýmsum félagasamtökum og við erum með starfandi ungmennaráð hjá sveitarfélögum. Nú hefur því verið velt upp í hópnum, talsmenn barna hér á Alþingi, að stofna ungmennaráð Alþingis. Það er nokkuð sem við ætlum að taka fyrir og skoða og ég vona að við berum gæfu til að finna flöt á því að ungmenni hafi hér aðgang að ákvarðanatöku. Við erum að velta fyrir okkur: Geta ungir haft völd? Hvaða eiginleika þarf til að hafa völd í samfélaginu?

Það eru uppi staðalímyndir, bæði hjá okkur eldra fólkinu og líka unga fólkinu. Geta ungir t.d. aukið þekkingu eldra fólks í pólitík eða veldur aldurstengd valdauppbygging kerfisbundinni mismunun, t.d. ef við horfum til þess hvernig strúktúrinn er í skóla, á milli ungra nemenda og eldri nemenda?

Er það ekki okkar að veita upplýsingar, vera ráðgefandi og þiggja ráð og ábendingar með því að bjóða öðrum til viðræðna við okkur, t.d. á þingi, gefa þeim val um það að taka þátt? Lýðræðisfræðsla snýst ekki um að skipta upp í lið, börn og fullorðnir, heldur að allir séu tilbúnir að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi, hver á sínum forsendum. Kosningaþátttaka var eitt af því sem var rætt í morgun og hugnast öllum þeim sem tóku til máls að færa kosningaaldur niður í 16 ár. Því skora ég á þingheim að taka vel í tillögu okkar Vinstri grænna um það mál en við höfum lagt til að byrjað verði á því að 16 ára ungmenni fái að kjósa til sveitarstjórna vegna þess að það krefst ekki breytingar á stjórnarskrá. Með því getum við sýnt í verki að við viljum fá álit þeirra á málefnum sem skipta ekki bara þau máli heldur okkur öll.

Svo vil ég minna á að um helgina verður haldin ráðstefna ungmennaráðs UMFÍ þar sem umfjöllun verður um lýðræðið og það að ungt fólk er leiðtogar nútímans, ekki bara framtíðarinnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).