Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Sjúkrabíll í Ólafsfirði

22. mars 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ræddi þetta mikilvæga mál fyrir okkar litla samfélag í störfum þingsins í dag. Mun grípa heilbrigðisráðherra hér í þinginu á morgun og ræða beint við hann um málið.

Í Ólafsfirði hefur verið starfræktur sjúkrabíll í ríflega 30 ár sem safnað var fyrir á sínum tíma af hálfu Rauða kross deildarinnar þar. Nú ber svo við að Heilbrigðisstofnun Norðurlands hefur tilkynnt að vegna samdráttar verði bílnum lagt og fjármunirnir sem nýttir hafa verið til reksturs sjúkrabílsins nýttir til að ráða hjúkrunarfræðing á sjúkrahúsið á Siglufirði. Þetta er í raun birtingarmynd þess að fjárveitingar eru af of skornum skammti eftir sameiningu stofnananna eins og forstöðumaður hefur ítrekað við fjárlaganefnd og birtist m.a. í lokafjárlögum sem við fjöllum um hér á eftir.

Mikil ásókn ferðamanna er um Tröllaskaga og aðstæður að vetri oft erfiðar og aukin umferð fólks, ýmist gangandi, akandi, eða fljúgandi með þyrlum á hæstu fjallstoppa, sem eykst ár frá ári og oft mikill fjöldi á ferð í einu. Hver hefur ekki heyrt svo ég segi nú bara af stífluðum Múlagöngum með tilheyrandi hættu?

Tröllaskaginn er stórt og erfitt svæði, og eru sjúkrabílar svæðisins að fara samanlagt í u.þ.b. 400 sjúkraflutninga yfir árið. Sjúkrabíllinn í Ólafsfirði er staðsettur miðsvæðis á Tröllaskaganum og því alltaf með stystan viðbragðstíma. ef kalla þarf út auka sjúkrabíl. Í fyrra voru 107 sjúkraflutningar frá Ólafsfirði, 181 frá Siglufirði og 125 úr Dalvíkurbyggð. Það kemur oft fyrir að báðir bílarnir í Fjallabyggð eru á ferð á sama tíma og við vitum að það er jú oft viðbragðstíminn sem skiptir máli. Hver mínúta getur skipt máli og hefur það svo sannarlega sýnt sig oftar en einu sinni.

Ólafsfirðingar hafa verið svo lánsamir að hafa á góðu og vel menntuðu fólki að skipa þegar kemur að sjúkraflutningum og því er með öllu óskiljanlegt að ætlunin sé að mynda hóp vettvangsliða í samstarfi við björgunarsveitina og/eða slökkvilið til að sinna fyrsta viðbragði áður en sjúkrabíll kemur frá Siglufirði eða Dalvíkurbyggð. Ég hef áður staðið í þessum sporum sem ég er hér í dag og vona svo sannarlega að ég þurfi þess ekki aftur. Við erum að tala um mikilvægt öryggismál og ég skora á heilbrigðisráðherra og þingmenn hér að tryggja fjármagn til þess að starfrækja megi áfram sjúkrabíl í Ólafsfirði.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).