Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Talsmenn barna

8. mars 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Í gær undirrituðum við sem fyllum hóp talsmanna barna á Alþingi yfirlýsingu um að hafa hagsmuni þeirra að leiðarljósi í öllum okkar störfum á þinginu. Af því tilefni hélt ég stutta tölu.

Það er mikill heiður að fá að vera talsmaður barna í annað sinn hér á Alþingi og mín skoðun er sú að eitt af okkar mikilvægustu markmiðum í störfum okkar hvar sem við erum sé að hlú að því að öll börn og ungmenni fái tækifæri til að njóta sín í leik og starfi. Þar gegnum við Alþingismenn mikilvægu hlutverki með setningu laga, reglna og útdeilingu fjár.

Í mínum huga eru börn mikilvægasti hópur hvers samfélags enda munu þau erfa landið og okkar að búa þeim umhverfi sem styður við að þau fái að þroskast og dafna. Því við sem þjóð höfum skuldbundið okkur til að tryggja jöfn tækifæri allra, ekki síst þeirra sem veika rödd hafa í samfélaginu, m.a. með því að fylgja eftir barnasáttmála Sameinuðuþjóðanna sem við lögfestum fyrir rétt rúmum fjórum árum.

Ég held að við þingmenn gerum almennt of lítið af því að ræða um börn og málefni þeim tengd í störfum okkar í þinginu og hvort eða hvernig við getum bætt lagaumgjörðina þannig að horft sé til þeirra hagsmuna.

Eitt af því sem ég tel vert að skoða er aðkoma ungmennaráða að lagasmíð, sérstaklega að málum sem tengjast þeim með beinum hætti eins og t.d. skólamál og tel að við þingmenn eigum að eiga samtal við ungmennaráðin og stjórnarráðið um eiginlega aðkomu.

Við höfum ítrekað bæði heyrt og rætt um stöðu og þörf barna og ungmenna vegna geðheilbrigðisþjónustu. Það kom fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir ekki löngu að ekki hafi verið metin þörfin fyrir ítar- og sérþjónustu en gert ráð fyrir miðað við þörfina annarsstaðar að gera megi ráð fyrir að um 16. þús. börn og ungmenni þurfi á slíkri aðstoð að halda. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem við sem talsmenn barna gætum óskað eftir að gert yrði.

Því þetta er gríðarlegt réttlætismál að samfélagið geri það sem í þess valdi stendur til þess að bæta líðan og tækifæri þessara barna. Hér er ekki aðeins lífsgæði barnanna sjálfra í húfi heldur framtíðarmöguleikar þeirra til að vera virk í samfélaginu með þátttöku og virkni á vinnumarkaði.

Ég er sannfærð um að við öll munum styðja við heilbrigðisráðherra og hvetja til góðra verka m.a. í geðheilbrigðisþjónustu við ungt fólk.

Í dag lagði hópurinn fram skýrslubeiðni um innleiðingu Barnasáttmálans þar sem Eygló Harðardóttir er fyrsti flutningsmaður.
Hana má finna á vef Alþingis en m.a. er óskað eftir þvi að fá svör við:

Þeim áhrifum sem leiða má af lögfestingu Barnasáttmálans á verkefni og þjónustu hinu opinbera.
Hvernig staðið hefur verið að greiningu á áhrifum lagasetningar, stefnumótandi ákvarðana og framkvæmd þjónustu á börn?

Gjaldfrjáls grunnskóli

Verið er að vinna frumvarp til endurflutnings um breytingar á lögum um grunnskólann þannig að óheimilt verði að krefja nemendur eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er skylt að nota í námi sínu og vonandi nær hópurinn saman um það.

Ofbeldisvarnaráð á Íslandi

Síðasti talsmannahópur var með í vinnslu að kannað yrði hvort ofbeldisforvörnum væri til langs tíma best komið innan sérstaks ofbeldisvarnarráðs sem sæi um samhæfingu aðgerða og framkvæmd forvarna, fræðslu og rannsókna og vona ég að núverandi hópur sjái sér fært að flytja það saman.

En allra skemmtilegast er að eiga samtalið við ykkur unga fólk efast ég ekki um að við komum til með að eiga gott samstarf.

Til hamingju með daginn.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).