Flokksráðsfundur
Tekið af vef mbl.is
„Víða um heim eru blikur á lofti í stjórnmálum og félagslegu réttlæti er ógnað.“ Þannig hefst stjórnmálaályktun flokksráðsfundar Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs sem fram fór í dag í Hlégarði í Mosfellsbæ. Ríkisstjórnin sé skipuð flokkum sem sameinist um hægristefnu og sem hafni því að sækja meira fjármagn til auðugasta fólksins í landinu og fara í þá innviðauppbyggingu sem samfélagið þurfi sárlega á að halda.
„Í stað skatta á fjármagn og auðlindanýtingu er stefnt að aukinni gjaldtöku á almenning. Samgöngukerfið verður vanrækt líkt og hjá fyrri ríkisstjórn, heilbrigðisþjónustuna á að nýta til aukins einkagróða, þar sem fjármagn verður sótt í sameiginlega sjóði okkar - sjúkratryggingar, með aukinni einkavæðingu og einkarekstri, menntakerfið býr áfram við þrengingar og húsnæðismál liggja í láginni,“ segir ennfremur í ályktuninni.
VG standi hins vegar vaktina í stjórnarandstöðu ásamt öðrum félagslega sinnuðum öflum innan þings og utan. Flokkurinn kalli eftir samstöðu þeirra afla „til að koma í veg fyrir óafturkræfar breytingar á íslensku samfélagi.“ VG setji mannréttindi, sjálfbærni og jöfnuð sem fyrr í fyrirrúm. Flokkurinn vilji tryggja réttlæti og félagslegan jöfnuð öllum til handa óháð aldri, kyni búsetu, þjóðerni, lífsskoðun, heilsu og efnahag.
„Stærstu viðfangsefni nýrrar aldar eru að stemma stigu við ójöfnuði og hlúa að lýðræði um allan heim, verja náttúruna fyrir gráðugum peningaöflum og berjast gegn loftslagsbreytingum sem ógna lífi á jörðinni. Vinstrihreyfingin grænt framboð heldur þessum sjónarmiðum til haga og mun sjá til þess að þessar stóru spurningar verði á dagskrá stjórnmálanna. Ísland á að vera sterk rödd í alþjóðasamfélaginu í þágu friðar og jöfnuðar.“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/03/04/vill_samstodu_felagshyggjuafla/
Posted in Óflokkað