Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Ræður vilji þingsins eða ráðherrans?

3. mars 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Það voru gríðarleg vonbrigði fyrir landsmenn að sú þverpólitíska niðurstaða um endurbætur á samgönguáætlun, sem lögð var fram og samþykkt af öllum flokkum í lok síðasta þings, skyldi ekki fjármögnuð nema að þriðjungi í fjárlagafrumvarpinu.

Þegar kom að vinnu og afgreiðslu fjárlaga í desember var gert samkomulag um að veita auknum fjármunum til vegagerðar uppá rúma 4,5 milljarða, sem var einungis um 1/3 af samþykktri samgönguáætlun frá því s.l. haust. Með þessu var ætlunin að takast á við allra brýnustu verkefnin í samgöngumálum.

Álagið á vegakerfið er okkur öllum kunnugt og óhætt að segja að það veki furðu að síðasta ríkisstjórn hafi ekki hafið uppbyggingu vegakerfisins þegar í upphafi síðasta kjörtímabils, þegar fjárhagslegt svigrúm hafði myndast til þess. Við umfjöllun fjárlaganefndar var gert ráð fyrir m.a. Dettifossvegi og Berufjarðarbotni sem samgönguráðherra hefur nú ákveðið að slá útaf borðinu samkvæmt fréttum Stöðvar 2 þann 2. mars. Þeir fjármunir sem ætlaðir eru í Dettifossveg eru fjármunir sem færðir voru milli ára og hluta á að taka úr því sem ætlað var í tengivegi og viðhald. Engir nýir peningar í verkefnið. Mörg önnur verkefni eru þurrkuð út og eina leið ráðherrans er aukin gjaldtaka þar sem allir sem leið eiga um tiltekna vegi borga. Það er þörf á að auka tekjur ríkissjóðs til að geta staðið almennilega að uppbyggingu innviða en þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar mega ekki heyra minnst á að sækja peninga til ríkasta fólksins í landinu eða auðlindagjöld til að fjármagna m.a samgönguinnviði.

En alvarleiki málsins er þó sá að samgönguráðherra ætlar að hundsa ákvörðun þingsins sem gerði fjárlögin að lögum í desember með ákveðnu samkomulagi um niðurröðun verkefna. Það hlýtur að kalla á endurskoðun á verklagi við gerð fjárlaga og framkvæmd hinna nýju laga um opinber fjármál.

Það er nefnilega þingræði í landinu ekki ráðherraræði en það virðist Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, ekki skilja.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).