Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Um svæðisfjölmiðla

27. febrúar 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ég mælti fyrir þessari tillögu á dögunum.

Þetta er tillaga til þingsályktunar um úttekt á starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins og leiðir til að tryggja stöðu þeirra. Að málinu standa ásamt mér hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Birgitta Jónsdóttir, Smári McCarthy, Einar Brynjólfsson, Elsa Lára Arnardóttir, Eygló Harðardóttir, Oddný G. Harðardóttir, Guðjón S. Brjánsson, Logi Einarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson.

Tillagan hljóðar svona:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp sem geri úttekt á starfsemi og stöðu fjölmiðla sem starfræktir eru utan höfuðborgarsvæðisins og leggi fram tillögur sem feli í sér aðferðir og leiðir til að efla og tryggja stöðu landsbyggðarfjölmiðla þannig að þeir fái gegnt lýðræðis-, menningar-, upplýsinga- og fræðsluhlutverki sínu. Mennta- og menningarmálaráðherra sjái starfshópnum fyrir starfsaðstöðu og greiði kostnað við störf hans. Starfshópurinn leggi skýrslu sína og tillögur fram eigi síðar en 1. nóvember 2017.“

Að margra áliti búa fjölmiðlar sem starfræktir eru utan höfuðborgarsvæðisins, við erfið starfsskilyrði sem hamla því á ýmsan hátt að þeir geti rækt hlutverk sitt eins og æskilegt væri. Flutningsmenn þessarar tillögu líta svo á að þar sem frjáls og fjölbreytt fjölmiðlun er meðal þess sem lýðræðissamfélög geta síst án verið sé áríðandi að afla haldbærra upplýsinga um stöðu landsbyggðarfjölmiðla og styrkja rekstrargrundvöll þeirra þar sem þess er þörf og forsendur eru fyrir slíkum stuðningi.
Þingmál af sama toga og fyrirliggjandi þingsályktunartillaga hafa áður verið lögð fyrir Alþingi og bera þess vott að staða fjölmiðla sem starfræktir eru utan höfuðborgarsvæðisins hefur verið ýmsum úr hópi þingmanna hugleikin um nokkurt skeið. En þar sem ekki hefur tekist hingað til að ná samstöðu um að ljúka þessum málum með ráðstöfunum í þágu fjölmiðlunar á landsbyggðinni skal enn á ný gerð atrenna að því að láta kanna stöðu þessara mála og færa þau til betra horfs.

Á 131. löggjafarþingi lagði Dagný Jónsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, fram tillögu til þingsályktunar um staðbundna fjölmiðla ásamt þingmönnum úr röðum allra annarra þingflokka. Flutningsmaður mælti fyrir málinu og gekk það að svo búnu til menntamálanefndar sem sendi út umsagnarbeiðnir vegna þess snemma í apríl 2005. Sex umsagnir bárust sem lýstu mjög ólíkum skoðunum á málinu. Tillaga Dagnýjar Jónsdóttur og meðflutningsmanna hennar varð ekki útrædd á 131. þingi og var endurflutt á 132. og 133. þingi án þess að koma til lokaafgreiðslu. Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, flutti tillögu til þingsályktunar um staðbundna fjölmiðla á 139. löggjafarþingi ásamt samflokksmönnum sínum og þingmönnum úr Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Á þeim tíma bárust átta umsagnir um málið sem allar voru jákvæðar í garð þess en það hlaut þó ekki afgreiðslu menntamálanefndar.
Sú sem hér stendur lagði svo fram tillögu til þingsályktunar um svæðisbundna fjölmiðla á 144. löggjafarþingi ásamt fleiri þingmönnum. Hún var efnislega áþekk þeirri sem Dagný Jónsdóttir flutti upphaflega. Tillagan kom ekki til meðferðar á því þingi og ég lagði hana ekki fram í fyrra. Fyrirliggjandi tillaga er af sama toga og þær sem vikið er að hér að framan.

Ég vil líka geta fyrirspurnar Heiðu Kristínar Helgadóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar, til mennta- og menningarmálaráðherra á síðasta þingi um fjölmiðlastyrki og svars ráðherra þar sem kemur fram að ítarlegar rannsóknir og greiningar á rekstrarumhverfi fjölmiðla hér á landi séu nauðsynlegur undanfari og grundvöllur styrkveitinga til fjölmiðla í því skyni að stuðla að fjölbreytileika þeirra og vinna gegn samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlamarkaði.

Árið 2005, þegar Dagný Jónsdóttir lagði fram þingsályktunartillögu sína um staðbundna fjölmiðla, kom fyrir sjónir almennings viðamikil skýrsla, Skýrsla nefndar menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla, sem var afrakstur nefndarstarfs sem efnt var til í kjölfar þess að forseti Íslands synjaði staðfestingar lögum nr. 48/2000, um breytingu á útvarpslögum, nr. 53/2000, og samkeppnislögum, nr. 8/1993. Aðalefni skýrslunnar felst í umfjöllun um starfsumhverfi fjölmiðla almennt og þýðingu þeirra fyrir lýðræði, frjáls skoðanaskipti, upplýsingagjöf og menningarlega- og stjórnmálalega fjölbreytni, en þar var einnig vikið að þýðingu svæðisbundinna miðla á borð við bæjar- og héraðsfréttablöð og skyldum hins opinbera gagnvart slíkri starfsemi.
Fáum blandast hugur um mikilvægi frjálsrar fjölmiðlunar enda er þekking almennings á umheiminum og skilningur á honum að miklu leyti kominn undir fréttum miðlanna og annarri umfjöllun þeirra. Staðbundnir fjölmiðlar og fjölmiðlar á landsvísu sem starfræktir eru utan höfuðborgarsvæðisins gegna hlutverki við að tryggja nauðsynlega fjölbreytni lýðræðislegrar umræðu og skoðanaskipta þar sem margvísleg sjónarmið njóta sín og verða grundvöllur afstöðu og ákvarðanatöku.

Eigin dagskrárgerð og sjálfstæð ritstjórn og blaðamennska þykja jafnan grundvallarforsendur fyrir stuðningi við starfsemi fjölmiðla og einnig að um sé að tefla miðil sem birtir fjölbreytt ritstjórnarefni en er ekki einungis auglýsingamiðill. Opinber stuðningur við starfsemi fjölmiðla getur farið fram með ýmsum hætti en mikilvægt er að tilhögun stuðningsins sé þannig að hann hafi ekki áhrif á ritstjórnarstefnu viðkomandi miðla. Stuðningur getur falist í dreifingarstyrk og var þeirri leið nokkuð beitt sums staðar erlendis meðan prentmiðlar voru allsráðandi en miklu síður eftir að ljósvakamiðlar tóku forystuna hvað útbreiðslu snertir. Í mörgum tilfellum þykir nú vænlegra að ná markmiðum með styrkveitingu til fjölmiðla með því að styðja við framleiðslu á efni sem viðkomandi fjölmiðill framleiðir og ritstýrir sjálfur enda er það talið til þess fallið að styrkja rekstrarhæfi miðilsins til lengri tíma, stuðla að fjölbreytni, sjálfstæðum vinnubrögðum og óhæði ritstjórnar.

Meðal þess sem hefur einkennt þróunina í rekstri fjölmiðla undanfarin ár og áratugi er að eignarhald á fjölmiðlum og efnisveitum hefur færst á færri hendur en áður var. Til hafa orðið risastórar fjölmiðlasamsteypur sem starfa á alþjóðlegum markaði. Deilt er um þessa þróun og áhrif hennar á miðlun upplýsinga og menningarstarfsemi þar sem mörgum þykir gæta einsleitni og telja að það áhrifavald sem í fjölmiðlum býr sé ekki nægilega dreift. Við þær aðstæður verður þýðing staðbundinna miðla, sem eru hluti nærsamfélagsins, sinna því og birta umheiminum viðhorf þess, enn meiri en ella.
Opinberar styrkveitingar til fjölmiðla tíðkast á Norðurlöndum og er jafnan lögð áhersla á að slíkur stuðningur stuðli að fjölbreytni miðlanna og sjálfstæði þeirra. Í Noregi annast Medietilsynet veitingu styrkja til fjölmiðla. Þar er nú að störfum nefnd sem ber heitið Mediemangfoldsutvalget — ég að biðjast afsökunar fyrir fram á norrænni tungu hér. Fjallar hún um það hvernig beita megi opinberum stuðningi til að tryggja sem mesta fjölbreytni á norska fjölmiðlamarkaðnum. Er gert ráð fyrir að nefndin leggi niðurstöður sínar og tillögur fram vorið 2017, þ.e. nú í vor. Í Danmörku sér Medienævnet um úthlutun fjölmiðlastyrkja en í Svíþjóð er það Presstödsnämnden sem gegnir þessu hlutverki.

Í ljósi þeirra miklu breytinga sem átt hafa sér stað á fjölmiðlun og rekstri fjölmiðla á undanförnum árum og áratugum er að vonum að oft og mikið hafi verið fjallað um þennan mikilvæga þátt lýðræðisins á Norðurlöndunum. Hér verða aðeins nefndar fáeinar nýlegar norrænar skýrslur og greinargerðir um breytingar á starfsumhverfi fjölmiðla og gildi opinbers stuðnings við greinina sem hafa mætti til hliðsjónar í því starfi sem unnið verður ef þessi þingsályktunartillaga hlýtur samþykki. Í Noregi kom út árið 2000 skýrslan Pressepolitikk ved et tusenårsskifte. Dagspresseutvalgets instilling og árið 2010 birtist skýrslan Lett å komme til orde, vanskelig å bli hørt — en moderne mediestøtte. Utredning fra et utvalg oppnevnt av Kulturdepartementet den 19. oktober 2009. Avgitt 16. desember 2010. Snýst hún að meginefni til beinlínis um opinberan stuðning við fjölmiðla, eins og heiti hennar gefur raunar til kynna. Árið 2011 birtist í Danmörku ritið Demokratistøtte. Fremtidens offentlige mediestøtte, sem var afrakstur starfs nefndar sem menningarmálaráðherra Dana skipaði í samræmi við víðtækt samkomulag stjórnmálaflokka á danska þjóðþinginu árið 2006 og í Svíþjóð birtist í febrúar 2016 viðamikil greinargerð um stöðu fjölmiðla á markaði, Människorna, medierna & marknaden, þar sem meðal annars er gerð rækileg grein fyrir hlutverki opinbers stuðnings við sænska fjölmiðla.

Þessu til viðbótar skal nefnt að tjáningarfrelsi og fjölbreytt miðlun njóta viðurkenningar og verndar í mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 10. gr., og sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, sbr. 11. gr. Af þessum sökum hafa ýmsar stofnanir Evrópusambandsins samþykkt tilmæli til aðildarríkjanna um frjálsa fjölmiðla, starfsemi þeirra og starfsumhverfi. Einnig hefur Evrópusambandið staðið fyrir ýmiss konar verkefnum sem miða að því að tryggja stöðu og starfsemi frjálsra fjölmiðla og stuðla að fjölbreytni þeirra.

Eins og hér kemur fram er vert að nota nýjar rannsóknir og kannanir og fara yfir þær þegar, og ég vona að þetta fái loksins einhverja almennilega umfjöllun og afgreiðslu í menntamálanefndinni. Það er svo mikilvægt fyrir lýðræðið að frjálsir fjölmiðlar geti veitt aðhald með faglegri og upplýsandi umfjöllun og fréttaflutningi. Þess vegna held ég að það sé skylda stjórnvalda að sjá til þess að sjálfstæði þeirra sé varið sem og ritstjórnarlegt frelsi. Við þurfum í raun að sjá til þess að rekstrarskilyrði fjölmiðla séu almennt góð því að það er besta vopn okkar í baráttunni við spillinguna.

Með sameiningu sveitarfélaga og fjölgun íbúa á landfræðilega stærri svæðum er mikilvægt að svæðisbundin fjölmiðlun sé almennileg því að það er hlutverk svæðisbundinna fjölmiðla að hlúa að samfélögum sínum. Þeir gegna mikilvægu upplýsingarhlutverki gagnvart íbúum sínum varðandi umfjallanir um sveitastjórnarmálin, gagnvart stofnunum og gagnvart svæðisbundnu lýðræði almennt, atvinnulífinu og fleira, hvaða ákvarðanir eru teknar, og gefa íbúum líka tækifæri á að koma fram með skoðanir sínar, hvort sem það er í blöðum, sjónvarpi eða hvernig svo sem það er.

Við getum ekki horft fram hjá því að dregið hefur úr umfjöllun um landsbyggðina. Eðli málsins samkvæmt eru það meira þeir fjölmiðlar sem starfa hér, þeir fjalla um mál í nærsamfélagi sínu. Hér er þunginn og hér hafa fjölmiðlar úr miklu að moða. En eftir að hafa búið við svæðisfjölmiðla, til dæmis hjá Ríkisútvarpinu, sem var mjög öflugt þegar svæðisútvarpið var á sínum tíma, fann maður fyrir því og finnur fyrir því að þar er önnur nálgun. Þótt Ríkisútvarpið hafi aðeins komið aftur með því að vera með fréttamenn úti á landi er það mjög takmarkað og engan veginn ásættanlegt. Það er líka svo mikilvægt þegar við hugsum um rannsóknarblaðamennsku og annað slíkt, þegar við hugsum um fjölmiðlaflóruna — og ég held því ekki fram að fjölmiðlar hér á höfuðborgarsvæðinu, netfjölmiðlar og aðrir óski eftir stuðningi, ég held því ekki fram að miðlar hér á stórhöfuðborgarsvæðinu þurfi ekki á stuðningi að halda, könnun á því myndi væntanlega leiða í ljós eitthvað slíkt — en umfjöllunin um málefni hinna dreifðu byggða er því miður allt of lítil í hinum landsdekkandi miðlum.

Það er líka mikilvægt varðandi rekstrarskilyrði fjölmiðla á landsbyggðinni að þeir lifa fyrst og síðast á áskriftar- og auglýsingatekjum. Svo þekkjum við hvernig þróunin hefur verið, slíkt hefur dregist saman vegna breyttra miðla, vegna þess að það er meiri flutningur á netinu og svo framvegis. Þess vegna þurfum við að reyna að finna út úr því hvaða leið er best til að styðja við þá þannig að við missum þá ekki í það að vera eingöngu léttmeti eða auglýsingamiðlar í formi dagskráa og annars slíks sem dreift er í öll hús, á meðan blöðin eða sjónvarpsmiðlar og annað slíkt ná inn til allra. Mér dettur í hug N4 á Akureyri sem þarf að kaupa sér tengingu af samkeppnisaðila til þess að geta dreift efni sínu. Umhverfið er svolítið brogað.
Á litlu stöðunum eru fjölmiðlarnir mjög oft háðir einhverjum stórum aðilum á svæðinu og umfjöllunin getur orðið erfiðari. Það er óhætt að segja það því að þræðir þessara aðila liggja víða og þess vegna geta tengsl fjölmiðilsins við hagsmunaaðila vakið upp einhverjar spurningar. Þess vegna er mjög mikilvægt að breyta því.

Landsdekkandi miðlar, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem þeir eru í einkaeigu eða hvort það er Ríkisútvarpið, hafa takmarkað rými, getu og áhuga á að sinna dreifðu byggðunum. Þess vegna fréttum við allt of lítið af mörgu góðu sem er að gerast nema í gegnum — ég er t.d. áskrifandi að allflestum héraðsfréttamiðlum í mínu kjördæmi til þess að fylgjast með. Þessar fréttir birtast oft hvergi annars staðar. Ég held að við þurfum að reyna að finna út úr því hvort við getum með einhverjum hætti tryggt stöðu þeirra þannig að umræðan verði málefnaleg og þeir geti verið óháðir einhverjum stórum aðilum á sínu svæði. Þess vegna þurfum við sem kjörnir fulltrúar að styðja við svæðismiðlana en ekki horfa aðgerðarlaus upp á að þeir deyi og þjónustan sem þeir þó veita hverfi.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).