Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Um matvælaframleiðslu, matvælaöryggi, bændur og neytendur.

25. febrúar 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Á dögunum var umræða um matvælaöryggi og matvælaframleiðslu, stöðu búvörusamninga og fleira. Ég sagði þetta í 2 mín. ræðu um málið.

Þetta er afar mikilvægt mál sem við ræðum, um stefnu ráðherra og ríkisstjórnar í matvælaöryggi og fæðuöryggi á Íslandi. Hér hefur aðeins verið komið inn á upprunamerkingar og sýklalyf, notkun á vaxtahvetjandi efnum og öðru slíku sem við erum svo heppin að vera laus við í framleiðslu okkar. Ekki einungis það heldur höfum við nægan aðgang að góðu vatni en því er ekki fyrir að fara alls staðar í heiminum. Sunnan Miðjarðarhafsins þar sem það grænmeti er ræktað sem við flytjum inn eru birgðir af vatni ekki mjög miklar. Það er ágætt að láta hugann reika í því sambandi en í kringum 75 lítrar af vatni eru á bak við einn lítra af ávaxtadjús, þ.e. frá ræktun til framleiðslu.

Mér finnst líka vert að við skoðum stefnu ráðherra varðandi breytingar á reglum um innflutning matvæla, hvaða áhrif það hefur á afkomu bænda, afurðastöðvarnar, hvort sem við erum að tala um kjötið eða mjólkina. Þetta hefur mikil áhrif á dreifbýliskjördæmin.

Hver eru raunveruleg markmið með því að flytja inn matvæli? Það hefur verið sagt að við fáum fjölbreyttara úrval og á einhverjum tímapunkti hugsanlega líka lægra verð.

Ef við hugsum þetta heildrænt, eru líkur á því að verulega minnkuð tollvernd lagi stöðu bænda? Eigum við líka að bæta eftirlitið til að fylgja eftir kröfum um sjúkdómavarnir sem varða innflutning matvæla? Það vantar tilfinnanlega eftirlit, ekki bara á pappír, heldur með almennri sýnatöku. Við þurfum að hafa mun nákvæmara eftirlit.

Mig langar að spyrja ráðherra um ákvæði í lögum um dýravelferðarkröfur. Það þarf að setja reglugerð. Ég spyr hvort hún sé komin eitthvað af stað á hennar borði. Þetta er auðvitað afar stuttur tími. Ég hefði líka viljað ræða vistsporið á innfluttu salati sem er tíu sinnum meira en það innlenda. Við erum hérna með Friðheima sem eru meðal topp tíu á lista yfir athyglisverðustu tómataframleiðendur í heiminum. Þeir eru vistvænir og farnir að selja vörur úr tómötum og selja mat alla daga, fengu 135 þús. gesti (Forseti hringir.) á síðasta ári.

Ég verð að segja að við þurfum að velta því fyrir okkur hverju við ætlum að ná fram í styrkjakerfi landbúnaðarins. Eigum við að styðja við innlenda framleiðslu til að hún geti staðist samkeppni, m.a. við búsetustyrki sem hliðarstuðning við ferðaþjónustu? Við þurfum að muna það við endurskoðunina að tekjur bænda hafa staðið í stað eða jafnvel lækkað í samanburði við aðrar greinar undanfarin ár.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).