Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Flug, ferðamenn, íbúar og samgöngur!

24. febrúar 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Í störfum þingsins í dag.

Frú forseti. Ég ætla að vera á heimaslóðum í dag. Eins og flestir vita lauk kjördæmaviku í síðustu viku. Við þingmenn allra flokka fórum saman í kjördæmið okkar og hittum fjöldann allan af fólki. Það er kannski hlálegt að ekki er hægt að fljúga akkúrat núna, en í nótt var hins vegar flogið í beinu flugi til Akureyrar, þ.e. frá Keflavíkurflugvelli. Á síðasta ári fóru 183 þús. farþegar um Akureyrarflugvöll, það er í kringum 13 þús. farþegafjölgun á milli ára og mesti fjöldi sem farið hefur um Akureyrarflugvöll í fjögur ár.

Nú ber svo við að í samgönguáætlun er ekki gert ráð fyrir að flughlaðið verði byggt upp á Akureyri og ríkið nýti með skynsömum hætti peninga og afurðir sem koma úr Vaðlaheiðargöngum til að laga það og gera það þannig úr garði að hægt sé að nýta flugvöllinn sem millilandaflugvöll og bjóða upp á boðlegar aðstæður.

Ég vil líka segja í þessu samhengi að við erum að tala um að dreifa ferðamönnum um landið. Við erum að tala um vegi og annað slíkt. Í samkomulagi sem fjárlaganefnd gerði í desember þegar fjárlög voru afgreidd var Dettifossvegur m.a. þar á blaði. Nú ber svo við að ekki er gert ráð fyrir að farið verði í þær framkvæmdir nema það verði tekið af framkvæmdafé, einhverjir smotteríspeningar, úr tengivegum og slíku sem innan kjördæmisins eru. Sem er algjörlega óásættanlegt. Brothættar byggðir sem lagðir hafa verið fjármunir í og mikil vinna á svæðinu eru undir í þessu tilfelli.

Fara ber vel með fjármuni landsins. Það ber að gefa fólki kost á því að búa þar sem það vill búa og við eigum að dreifa ferðamönnum um landið. Fyrir utan svo það stóra mál sem við þreytumst ekki á að minnast á hér, við sem búum á landsbyggðinni, það er auðvitað flugverðið. Ekki ber stefnuáætlun ríkisstjórnarinnar það með sér að því eigi að breyta, þ.e. að búa eigi til eitthvert jafnræði þegar kemur að ferðamáta innan lands eins og í flugi t.d. fyrir (Forseti hringir.) Austfirðinga.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).