Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Um leiðréttinguna og húsnæðismál

22. febrúar 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Í störfum þingsins í dag.

Frú forseti. Í ljósi þeirra orða sem féllu áðan um það hvernig þingmenn hefðu greitt atkvæði um leiðréttingarmálin á sínum tíma verð ég að segja að það kallast að hártoga málið, drepa því á dreif og í rauninni koma fram við þingmenn eins og þeir hafi stutt málið að taka síðustu atkvæðagreiðslu um fjárlögin sem er tæknilegs eðlis. Þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði gegn þessari aðgerð. Björt framtíð er ekki heilög í því og ég vil að það komi fram hér. Þó að hv. þm. Nichole Mosty hafi talað sérstaklega um afgreiðsluna er varðaði fjárlög var það í gegnum allt ferlið sem við greiddum atkvæði gegn þessu og mér finnst ekki góð vinnubrögð að halda því fram og láta að því liggja að sá flokkur hafi verið sá eini sem hafi staðið sig í stykkinu í gegnum þá umræðu.

En ég ætla að tala um húsnæðismálin sem komið var inn á áðan. Það er afar mikið áhyggjuefni þegar við stöndum frammi fyrir því að lesa dag eftir dag um að ungt fólk sé bókstaflega að hrekjast út í fátækt vegna þess að það er hrakið út á götuna. Íbúðir eru ekki til sölu nema fyrir háar fjárhæðir vegna þess að markaðurinn er ónýtur. Verið er að sprengja hann upp af einhverjum aðilum sem kaupa upp íbúðir og eru að verða stórgrósserar í húsnæðismálum. Í viðtali við fólk í gær kom fram að það ætlaði að kaupa sér fjögurra herbergja íbúð upp á tæplega 44 milljónir, fékk greiðslumat en getur ekki keypt sér vegna þess að það er fast í gildrunni á leigumarkaði, borgar 230.000 kr. í leigu. Þetta er hefðbundið fólk í ágætisvinnu og í námi og öðru slíku og hefur það í sjálfu sér fjárhagslega ágætt en markaðurinn er svo brogaður.

Gott samfélag sem rekur skynsamlega húsnæðisstefnu sem einkennist af því að ungu fólki sé tryggt húsnæði er auðvitað það sem við eigum að stuðla að. Því getum við ekki annað en spurt um þetta. Það er ekkert í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um ungt fólk og húsnæðismál. Það vantar fjárframlög fyrir 300 íbúðir í fjárlögum yfirstandandi árs. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Hún segist ekki ætla að taka upp fjárlögin. Hvað ætlar hún að gera í þessum málum?

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).