Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Aðeins um nýsamþykkt fjárlög

12. janúar 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Bændablaðinu í dag 12. janúar

Það var um margt sérstakt að vinna að gerð fjárlaga fyrir árið sem nú er nýhafið bæði vegna þröngs tíma ramma og vegna þess að fulltrúar sjö flokka á alþingi þurftu að fara saman í gegnum frumvarpið og leita málamiðlana um fá en mikilvæg mál, þar sem ekki var starfandi ríkisstjórn með þingmeirihluta. Af þessum sökum var margt sem ekki fékk nægjanlega umfjöllun. En megin-niðurstaðan er að samkomulag tókst um mikilvægar viðbætur til heilbrigðis-, mennta- og samgöngumála. Við Vinstri græn fengum því framgengt að framlög voru aukin til skattaeftirlits og skattrannsókna. Þingmenn tókust með þessu á við ábyrgð sína gagnvart samfélaginu og stjórnskipulega skyldu. Málamiðlun var nauðsynleg við ríkjandi aðstæður og þótt samkomulag tækist er það alveg ljóst að Vinstri græn hefðu kosið að leggja aðrar áherslur í samræmi við stefnu flokksins í fjármálum ríkisins og samfélagsmálum, en tök voru á að þessu sinni.

Það þarf að gera betur

Það er sannarlega sérstakt að fyrsta fjárlagafrumvarpið með nýju og gerbreyttu sniði komi til umfjöllunar Alþingis við þær aðstæður sem uppi voru nú. Telja má fullvíst að margir aðilar innan og utan ríkisgeirans hafi ekki áttað sig fyllilega á hinum gagngeru breytingum sem lögin um opinber fjármál hafa valdið á framsetningu fjárlaga og hlutverki þeirra, sem nú er mun takmarkaðra en áður þar sem stefnumörkun í ríkisfjármálum fer nú að mestu fram við gerð fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. Ný framsetning fjárlagafrumvarpsins veldur því að ekki er hlaupið að því að gera samanburð við fyrri fjárlagafrumvörp.

Fjárlaganefnd gerir sjaldan miklar breytingar í heildarsamhengi fjárlagafrumvarpsins. Þær breytingar sem nú voru gerðar leysa sannarlega ekki allan vanda en eru mikilvægar viðbætur og skref til að rétta af slaka stöðu nokkurra stofnana. Um leið er alveg ljóst að ýmsar opinberar stofnanir eru vanfjármagnaðar og verða reknar með halla á nýju ári verði ekkert að gert. Ég ætla að ræða hér þrennt sem fjárlaganefnd gerði breytingu á.

Löggæsla og sýslumenn

Þrátt fyrir að auknum fjármunum sé veitt í málaflokkinn í fjárlögum ársins 2017 er óralangt í að staðan geti talist ásættanleg. Á undanförnum árum hefur álag á löggæsluna aukist jafnt og þétt. Þetta skýrist einkum af stöðnun í fjölda stöðugilda og fjölgun verkefna. Lögreglumenn voru 652 talsins í febrúar 2011 en 659 á sama tíma árið 2016. Leiðrétta þarf öfugþróun síðustu ára og tryggja að framlög til lögreglunnar verði slík að embættin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og boðið starfsfólki sínu upp á góð starfsskilyrði.

Gera þarf miklar úrbætur á rekstrarumhverfi hinna nýju sýslumannsembætta sem hafa verið vanfjármögnuð allt frá stofnun þeirra árið 2015. Þrátt fyrir sameiginlega niðurstöðu fjárlaganefndar um niðurfellingu uppsafnaðs rekstrarhalla að hluta stendur eftir að fjárþörf embættanna er enn ekki rétt metin og munu þau því búa við viðvarandi hallarekstur ef fjárheimildum til þeirra verður ekki breytt.

Samgönguáætlun

Það er í raun óþolandi að nýsamþykkt samgönguáætlun sé ekki að fullu fjármögnuð enda samþykkt mótatkvæðalaust í október. Álagið á vegakerfið er okkur öllum kunnugt og óhætt að segja að það veki furðu að fráfarandi ríkisstjórn hafi ekki hafið uppbyggingu vegakerfisins þegar í upphafi síðasta kjörtímabils, þegar fjárhagslegt svigrúm hafði myndast til þess.
Það er þó mitt mat að samkomulagið sem náðist um að takast á við allra brýnustu verkefnin í samgöngumálum var til mikilla bóta þó einungis hafi tekist að bæta við 1/3 af því sem samþykkt var í haust. Af helstu framkvæmdum má nefna Dettifossveg, Dýrafjarðargöng, Berufjarðarbotn, Vestmannaeyjaferju ásamt auknum fjármunum í viðhald sem er afar brýnt en betur má ef duga skal.

Það eru mörg gríðarstór verkefni framundan þegar kemur að sameiginlegri velferð og innviðauppbyggingu landsins það kostar peninga og þá getum við sótt á rétta staði ef næsta ríkisstjórn hefur til þess vilja og kjark.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).