Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Stjórnarsáttmáli Bjartrar sjálfreisnar

11. janúar 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Það hefur í sjálfu sér verið raunalegt að sjá þá félaga Óttarr og Benedikt verja gjörning Bjarna Ben og ósannsögli varðandi skýrsluna um skattaskjólseignir um leið og þeir réttlæta veru sína og ganga til ríkisstjórnarsamstarfs.

En eftir langa sængurlegu fæddist mús eða var það kannski ánamaðkur? Alla vega er þessi stjórnarsáttmáli afar dapurt plagg og augljóst að þeir flokkar sem gengu Sjálfstæðisflokknum á hönd gáfu eftir svokallaðar kerfisbreytingar sem hamrað hefur verið á undanfarna mánuði að sé samfélaginu nauðsynlegt og forsenda stjórnarsamstarfs.

Fjögur atriði sem ég kem auga á í fyrstu atrennu:

Við getum byrjað á því að Viðreisn fór úr því að 8% væri viðmiðið í uppboðsheimildum í sjávarútvegsmálum en gaf á endanum allt eftir til þess að komast undir sæng og engin kerfisbreyting verður þar.

Næst er það ESB en þar eiga þingmenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar að sitja á strák sínum fram til loka kjörtímabilsins og þá mega þeir greiða atkvæði eftir stefnuskrá flokka sinna og sannfæringu sinni.

Óttarr, heilbrigðisráðherra, segir að flýta eigi uppbyggingu meðferðakjarnans við Landspítalann en þar er samt áætlað að byggingu ljúki 2023 eins og hefur verið gert ráð fyrir nú þegar.

NPA - notendastýrð persónuleg aðstoð er nú þegar lögfest gott fólk – ekkert nýtt í þessu en næsta skref er að tryggja samskiptin á milli ríkis og sveitarfélaga – það er hins vegar ekki sett fram í þessu plaggi.

Þá eru það loftslagsmálin þar á að gera aðgerðaráætlun – Parísarsáttmálinn – hér þarf að kveða fastar að orði gott fólk því við erum búin að gangast undir þessi markmið – ekkert nýtt í þessu.

Yfirlýsingar eru um að aukinn kraftur verði lagður í uppbyggingu samgöngumála á öllum sviðum en því miður endurspegla fjárlögin það ekki og Bjarni og Benedikt hafa sagt að á þeim verði ekki breyting. Svo ég legg allt mitt traust á Jón Gunnarsson, samgöngu- og byggðamálaráðherra. Hvað þýðir þetta: Áhersla verður lögð á að… stuðla að hagkvæmum og greiðum samgöngum um landið með því að nýta fjölbreytni og möguleika samgöngukerfisins í heild? Hlakka til að spyrja.

Auka á sálfræðiþjónustu á heilsugæslu og í framhaldsskólum. Mér finnst þetta ferlega gott og kem til með að fylgja þessu vel eftir enda veit ég að sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum skiptir máli en minni á að í ár eru alla vega engir peningar til framhaldsskólanna í þessa þjónustu.

Ég vona svo sannarlega að ríkisstjórnin nái markmiðum sínum með að vinna upp traust á grunnstoðum samfélagsins hvort heldur Alþingi eða dómstólum eins og sagt er í stjórnarsáttmálanum. Ekki síður tel ég mikilvægt að við lagasetningu að fulltrúar ólíkra sjónarmiða hafi rúman tíma til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hvet ég sveitarfélög sérstaklega til að minna á þann þátt mála.

En upphafsorð sáttmálans eru einhvern veginn svona: “Ríkisstjórnin mun stuðla að uppbyggingu á innviðum samfélagsins, samgöngum, heilbrigðis- og menntakerfi og kraftmiklu og samkeppnishæfu atvinnulífi fyrir íbúa um land allt.” Og þetta á allt að gera með sóma án þess að afla tekna og þrátt fyrir að allir skólar, sýslumenn, löggæslan, Vegagerðin og allir hinir ÖSKRI á meira fjármagn. Nei innan hagsveiflunnar skal þetta gerast og gott fólk þetta þýðir bara skerðingu á þjónustu og einkavæðingu þar sem henni verður við komið.

Plaggið er ekki alslæmt – skárra væri það nú en hægri sveiflan er yfir og allt um kring og það nærir ekki mitt vinstra hjarta.

Kostur hefði verið að sjá 10 forgangsatriði og aðgerðaráætlun - eða fyrstu 100 dagana ætlar ríkisstjórnin að… en þetta er bla bla plagg því miður kæru landsmenn en ég og við Vinstri græn munum standa vaktina hér eftir sem hingað til, málefnaleg og með hag þjóðarinnar að leiðarljósi.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).