Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Fjölskylduannáll 2016

27. desember 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Öryfirlit ársins 2016 hjá fjölskyldunni Hlíðarvegi 71, Ólafsfirði

Að vanda var mikið að gera hjá heimilisfólkinu í Hlíðarvegi 71. Það er líka óhætt að segja að árið hafi verið viðburðaríkt hjá fjölskyldunni.
Jódís Jana tók bílpróf í vor og hóf störf í Bókasafni Fjallabyggðar í sumar og starfaði að mestu á Siglufirði og þá kom hið nýfengna próf nú vel að notum. Hún fékk þá umsögn að hún væri frábær starfsmaður sem er nú ekki amalegt.

Heimasætan hin eldri, Klara Mist, skilaði sér heim í ágúst eftir tæpa árs dvöl í Coventry en þar lagði hún stund á meistaranám í átaka- og friðarfræðum og útskrifaðist þaðan í nóvember. Á meðan dvölinni stóð ferðaðist hún aðeins um Evrópu og fór einnig í nokkurra vikna hjálparstarf til Marakkó. Þá kenndi hún áfanga í miðannarviku í Menntaskólanum á Tröllaskaga nú í haust.

Húsbóndinn stóð í stórræðum og steig úr stóli útibússtjóra Arionbanka og gerðist þjónustustjóri með aðal aðsetur á Siglufirði eftir að hafa starfað rúm 30 ár í Sparisjóðnum og síðar Arionbanka í Ólafsfirði. Þannig að nú þarf hann að vakna fyrr á morgnana til að keyra í vinnuna sem er nú áskorun útaf fyrir sig.

Pólitíkin hefur tekið töluvert pláss eins og gjarnan áður hjá fjölskyldunni og húsfrúin ákvað að taka slaginn og bjóða sig fram til Alþingis aftur sem hafði í för með sér heilmikil ferðalög og fundastúss um allt kjördæmið. Þingsæti í höfn þannig að þið sjáið og heyrið væntanlega í henni reglulega enda þekkt fyrir að tala mikið.

Húsfreyjan er með hlaupadellu og yfirsteig ýmsar áskoranir í þeim efnum. Fyrsta opinbera þátttakan í hlaupi var í 10 km. Stjörnuhlaupi og svo var það 12 km. Norðurheimskautshlaup í Grímsey og að síðustu 10 km. í Reykjavíkurmaraþoni og enn er hún á hlaupum þó engin sé keppnin.

Hjónakornin nutu þess að geta flogið beint frá Akureyri og urðu Slóvenía og Króatía fyrir valinu sem óhætt er að segja að séu ómótstæðileg að sækja heim. Þessi kærkomna hvíld var dásamleg enda framundan miklar framkvæmdir í H-71 þar sem bóndinn græjaði nýjar tröppur úti með hita í sem kostaði nýja lagnagrind með tilheyrandi raski sem rétt sér fyrir endan á. Í leiðinni sá hann ástæðu til að fjarlægja nokkur risa stór tré og ýmist henda eða setja niður annars staðar.

Vendingar urðu á vormánuðum þegar hjónakornin seldu Kaffi Klöru og Gistihús Jóa og í desember skipti Tröllakot svo um eigendur þannig að við í H-71 höfum nú hætt í veitinga- og ferðabransanum eftir 11 ár. Þetta þýðir að nú verður tekið til hendinni í H-71 og kannski að gefa sér tíma til að ferðast svolítið meira.

Davíð, Eyrún og Tristan eru í Reykjavík og una sér vel og þykir húsfreyjunni ósköp gott að vera í göngufæri við þau meðan hún dvelur í borginni. Tristan kominn í skólahóp í leikskólanum og amman hefur að sjálfsögðu áform um að læra með honum.

Klara Mist útskrifaðist í nóvember og af því tilefni fóru hjónakornin til London ásamt útskriftardömunni. Að sjálfsögðu var tíminn vel nýttur og skotist til Birmingham í verslunarferð og svo að sjálfsögðu til Coventry.

Jódís Jana útskrifaðist 17 ára úr MTR og hlaut ýmsar viðurkenningar í náminu m.a. í spænsku enda ætlar hún að skreppa til Spánar eftir áramótin og dvelja hjá Helgu frænku sinni og Hrólfi og nema spænsku.

Mirra er orðin ein í kotinu, 12 ára gömul, en Indý kvaddi okkur í febrúar. Hún fær nú að rölta um allt hús og finnst að sjálfsögðu eldhúsið besti staðurinn í húsin en vill, þar fyrir utan, helst alltaf fá að liggja í návist fjölskyldumeðlimanna – herbergið Klöru Mistar er í sérstöku uppáhaldi og er hún meir að segja farin að fá að eyða þar nóttunum líka, húsmóðurinni til mikilla ama.

Nú þegar þetta er skrifað standa Helgi, Klara og Jódís á haus við að skreyta húsið að utan sem innan enda Helgi þekktur fyrir að vera „jólasveinninn“ þ.e. þegar kemur að skreytingum en húsfrúin stikkfrí í borginni að myndast við fjárlagagerð á Alþingi.

Kæru ættingjar og vinir njótið jólanna og komandi árs, verið góð hvert við annað.

Jólakveðja úr Ólafsfirði, Bjarkey, Helgi og fjölskylda.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).