Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Samgöngur og fjárlög

14. desember 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Í kosningabaráttunni ræddum við Vinstri græn um mannauðinn, fólkið, innviðina, heilbrigðisþjónustu, menntastofnanir, löggæslu, samgöngur, ferðaþjónustu og svo margt fleira.

Nú þegar við þingmenn tökumst á við fjárlagafrumvarpið er að mörgu að hyggja og við verðum að sjálfsögðu að hafa í huga það sem við ræddum fyrir kosningar. Í þessum pistli ætla ég að ræða samgöngumál. Úrbætur í þeim eru afar brýnar og ljóst að aðgerða er þörf strax.

Ég sit í fjárlaganefnd sem hefur nýverið fundað m.a. með Vegagerðinni og Innanríkisráðuneytinu. Það er ljóst eftir framlagningu fjárlagafrumvarps að bregðast þarf við vanfjármagnaðri samgönguáætlun sem fjárlög fráfarandi ríkisstjórnar eru í engum takti við.

Ótal margar framkvæmdir eru undir. Sumar þeirra eru komnar áleiðis eða eru tilbúnar til útboðs, en Vegagerðin hefur ekki getað komið þeim af stað sökum þess að á annan tug milljarða vantar til að standa við samþykkta samgönguáætlun.

Í Norðausturkjördæmi bíða mörg ærin verkefni í samgöngumálum, líkt og víðar á landinu. Þar á meðal er Dettifossvegur. Hann hefur margoft verið á samgönguáætlun, en er nú enn og aftur tekin út. Við það verður ekki unað lengur enda um að ræða veg að gríðarlega fjölmennum ferðamannastað. Stað sem er eitt helsta aðdráttarafl fyrir ferðamenn á Norðurlandi. Núverandi vegur er að hluta til gamall, niðurgrafinn moldarvegur sem getur engan veginn annað núverandi umferð að þessum vinsæla ferðamannastað. Óviðunandi ástand vegarins er ekki einungis hamlandi á núverandi umferð og eykur slysahættu, heldur dregur hann einnig verulega úr vaxtarmöguleikum ferðaþjónustunnar á svæðinu.

Í kjördæminu þarf líka að huga að öðrum vegaframkvæmdum, t.d. Berufjarðarbotni, Axarvegi, Skarðsvegi, Bárðardalsvegi, rannsóknarfé til Fjarðarheiðargangna og svo mætti lengi telja.

Ekki síður þarf að huga að hafnarframkvæmdum. Ríkinu ber skylda samkvæmt lögum að taka þátt í þeim framkvæmdum að hluta ásamt sveitarfélögum. Hafnirnar eru lífæð margra sveitarfélaga og margir hafnarsjóðir eru búnir að skuldbinda sig fyrir framkvæmdum enda gefa lögin tilefni til þess.
Nú eru sérstakir tímar í pólitíkinni, enginn meirihluti og enginn minnihluti á Alþingi. Ég vona að þingmenn beri gæfu til að nýta þetta einstaka tækifæri til þess að vinna þvert á flokka með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).