Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Fjárlagafrumvarp 2017

7. desember 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Fjárlagafrumvarp Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er til umræðu nú á Alþingi. Það er í fyrsta sinn lagt fram skv. nýjum lögum um opinber fjármál og byggir á fjármálastefnu og áætlun þessara tveggja flokka.

Ákall berst víða úr samfélaginu nú þegar frumvarpið lítur loks dagsins ljós og ljóst að það kemur mörgum á óvart í ljósi þess að fjármálaráðherra talar mikið um hvað allt sé hér gott í hagrænu tilliti.

Flestir flokkanna töluðu í kosningabaráttunni, og reyndar löngu áður, um áherslur í heilbrigðisþjónustunni, samgöngumálum, menntamálum og annarri innviðauppbyggingu.

Sjúkrahúsin senda út neyðarkall vegna vanfjármögnunar til að þurfa ekki að skera enn frekar niður í þjónustu en því er ekki mætt.
Samgönguáætlun er bara verk þingsins segir Bjarni Ben og tekur ekki ábyrgð á eigin samþykkt á áætluninni skömmu fyrir kosningar. 15 milljarða vantar til að uppfylla þá áætlun.

Háskólar og framhaldsskólar þurfa að leggja niður deildir eða treysta á nærsamfélagið þar sem þeir geta ekki greitt reikninga þetta er auðvitað óásættanlegt.
Ekki er heldur gert ráð fyrir að jafna stöðu milli hjóna og einstaklinga í almannatryggingakerfinu né heldur koma til móts við öryrkja.

Þetta hljómar undarlega í ljósi þess sem Bjarni Benediktsson sagði í Kastljósi 6. desember:

Tekjur ríkisins hafa verið að vaxa jafnt og þétt með þessari hagsveiflu. Og ef maður skoðar stöðuna bara heilt yfir, þá er í raun og veru hægt að segja „við höfum aldrei haft það jafn gott eins og í dag“. Og það er við þær aðstæður, þegar við erum þegar að gera ráð fyrir auknum útgjöldum, við höfum aldrei haft meiri tekjur, kaupmáttur launafólks hefur aldrei verið meiri (…) að þá er það við þær aðstæður að fólk segir „Nei, það þarf að gera svo miklu, miklu meira.“ Og þessu er ég bara ósammála. Og ég held að það sé varasamt að gera það.

Ég er ekki sammála Bjarna og tel að það sé vel hægt að afla tekna til að fjármagna þessa þætti sem ég hef hér rakið en það vill Bjarni ekki gera. En þingið er í einstakri stöðu þar sem raunverulega kemur í ljós hverjir geta unnið saman og eiga samleið í að ná þessum markmiðum því ekki er meirihluti starfandi og þingmenn geta því sameinast um einstök mál.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).