Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Ágætu kjósendur

28. október 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Á laugardaginn verður kosið til Alþingis. Þá gefst kjósendum tækifæri á að hafa áhrif á stjórn landssins á komandi árum. Valið er kjósenda.

Undanfarin þrjú og hálft ár hefur verið hér við völd dæmigerð hægristjórn. Afleiðingum þess sér stað víða í þjóðfélaginu. Má þar að nefna ýmislegt sem snýr að landsbyggðinni. Niðurskurður til heilbrigðismála, s.s. með lokun heilbrigðisstofnanna, algeru verkleysi í samgöngumálum, aðför að starfsskilyrðum framhaldsskóla, sinnuleysi í uppbyggingu ferðamála, ljósleiðaravæðing í skötulíki, geðheilbrigðismál ungmenna í algeru lamasessi, niðurskurður á fjármunum til öldrunarstofnanna o.s.frv. Vel er gerlegt að halda þessari upptalningu áfram en gerist varla þörf.

Fráfarandi ríkisstjórn tók við góðu búi vorið 2013 og að auki hafa margir utanaðkomandi þættir lagt stjórnvöldum lið, má þar nefna olíuverð, gengisþróun og gífurleg fjölgun ferðamanna. Þessir þættir hafa að sönnu bætt hag flestra landsmanna. En ríkisstjórnin hefur þó ekki talið það nóg fyrir hálaunafólk og ríkustu þegna landsins. Til að bæta þeim stöðuna hefur verið tálgað flest það af skattakerfinu sem nýst getur til að þessir hópar leggi sanngjarnt framlag í sameiginlegan sjóð landsmanna.

Jöfnuður og réttlæti

Þessari stefnu þarf að hverfa frá og snúa á braut réttlætis og jöfnuðar. Ríkissjóður stendur nokkuð vel og tækifæri er til að bæta stöðu margra þeirra sem búa við bágust kjör og lítið hefur verið sinnt á yfirstandandi kjörtímabili. Eldri borgarar eiga það einfaldlega inni að hagur þeirra verði stórbættur, þar ber sérstaklega að nefna þá sem lítil lífeyrisréttindi hafa. Gæði samfélaga má auðveldlega meta eftir því hvernig þau meðhöndla þá meðborgara sem erfiðast eiga með að bera hönd fyrir höfuð sér, t.d. börn og öryrkja. Þeir hópar hafa ekki fengið eðlilega hlutdeild af batnandi hag ríkissjóðs. Þarna þarf að bæta verulega í og það mun VG beita sér fyrir fái hreyfingin til þess afl í komandi kosningum.

Stórátak þarf

Innviðauppbyggingu samfélagsins á landsbyggðinni þarf að taka föstum og skipulögðum tökum. VG hefur þá sýn að samfélagið eigi að búa fólki sambærileg skilyrði hvar sem það kýs að búa og finna hæfileikum sínum og frumkvæði í atvinnusköpun farveg. Til að það sé gerlegt verður að snúa frá því aðgerðaleysi sem ríkt hefur undanfarin ár. Endurvekja þarf sóknaráætlanir landshlutanna, bæta samgöngur, gera stórátak í ljósleiðaravæðingu, lækka flutningskostnað, lækka kostnað við flugsamgöngur, ljúka þrífösun rafmagns til sveita, efla nýsköpun í landbúnaði, skipuleggja landnýtingu þannig að sátt ríki um hana, tryggja byggðafestu í sjávarútvegi, gera stórátak í styrkingu innviða ferðaþjónustunnar og bæta öryggi ferðamanna.

Þetta er hægt með því að sækja fjármagn til þeirra sem aflögufærir eru: stóreignafólk, hátekjufólk, margskonar iðnfyrirtæki, fjármálafyrirtæki og fólk sem hefur lifibrauð sitt af því að hirða gríðarlegan arð af fjármagni. Að auki ber að nefna að sækja þarf fjármuni til þeirra sem eru að reka svarta atvinnustarfsemi og eða geyma fjármuni sína í skattaskjólum. Enn eru þó ónefndir þeir aðilar sem nýta auðlindir þjóðarinnar, fiskinn, orkuna og afnot af landinu fyrir ferðamenn en skila engu að síður mjög litlu af arðinum til samfélagsins. Við þá stöðu verður ekki unað og henni verður að breyta.

Hér að framan hafa verið settir fram þeir valkostir sem fólk stendur frammi fyrir núna. Það er algerlega augljóst að stefna VG er tæpast aðlaðandi fyrir flest stóreigna og eða hátekjufólk. Við beinum sjónum okkar að afkomu hins venjulega Íslendings þ.e. þeirra sem teljast til millistéttar eða lágtekjufólks. Það er sá hópur sem samfélagið á að beina sjónum sínum að og það er megininnihaldið í stefnu VG.

Ef þú kjósandi góður ert sammála okkur í að breyta þurfi forgangsröðun frá því sem verið hefur hvað varðar þau atriði sem hér hafa verið talin þá getum við auðveldlega átt samleið á komandi kjörtímabili. Við erum tilbúin í þá vegferð og bjóðum þér að taka þátt í því að reyna að tryggja að á Íslandi verði næsti forsætisráðherra ung, eldklár, réttsýn og sanngjörn kona – Katrín Jakobsdóttir.

Settu X við V á kjördag.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).