Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Efnahagsbatinn - forgangsröðun

27. október 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Málefni eldri borgara og öryrkja sem og heilbrigðismál hafa mikið verið til umræðu þau þrjú ár sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur verið við völd. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki nýtt þau tækifæri sem skapast hafa með auknum efnahagsbata til að bæta kjör þessara hópa eða styrkja heilbrigðisþjónustuna með myndarlegum hætti en lofar nú allt fyrir alla enda að koma kosningar.

Fólkið í forgang

Við efnahagshrunið var Landsspítalinn nánast gjaldþrota. Hann átti hvorki fyrir launum né lyfjum og tæki höfðu ekki verið endurnýjuð þrátt fyrir brýna þörf. Eftir hrun tók við afar erfitt tímabil í rekstri allra heilbrigðisstofnana. Enn er fjárskorturinn mikill bæði á LSH og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Það síðarnefnda gleymist gjarnan í umræðunni, en það veitir sérhæfða sjúkrahúsþjónustu fyrir alla landsmenn og almenna þjónustu í sínu heilbrigðisumdæmi um leið og það er kennslu- og varasjúkrahús Landspítalans. Ekki er heldur hægt að horfa fram hjá því að fólk tekur á sig aukinn kostnað vegna heilbrigðisþjónustunnar þar sem það þarf oft á tíðum að sækja um lengri veg eftir þjónustunni auk þess sem gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu er alltof mikil. Mikilvægast er þó að takast á við stöðuna eins og hún er í dag því á bak við viðkvæmt heilbrigðiskerfi er fólk, sjúklingar og starfsfólk, sem okkur ber að sinna. Það á að vera fremst í forgangsröðinni.

Þeir sem minnst hafa

Ríkisstjórnin minnir okkur í sífellu á efnahagsbatann en hann skilar sér svo sannarlega ekki með réttlátum hætti til allra. Stöðugleikinn margumræddi á að snúast um að tryggja öllum mannsæmandi kjör og mannsæmandi líf, ekki síst lífeyrisþegum sem setið hafa eftir og geta með engu móti náð endum saman með þá framfærslu sem þeim er skömmtuð.
Núverandi ríkisstjórnarflokkar tóku við góðu búi en hafa ekki látið þá hópa sem veikast standa njóta þess. Það var stefna ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar að um leið og betur færi að ára í ríkisfjármálum yrðu þeir hópar látnir njóta þess. Það hafa núverandi stjórnvöld ekki gert.

Fólk borðar ekki prósentur

Það er því miður staðreynd að stór hópur öryrkja og aldraðra býr við fátækt. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands eru öryrkjar sá samfélagshópur sem verst stendur. Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn geta hártogast um prósentur eða milljarða eins og þeir gerðu svo eftirminnilega á Alþingi þegar málefni þessara hópa voru til umræðu en það er nú bara svo að fólk borðar ekki prósentur heldur snýst þetta um hvað hver og einn hefur til framfærslu. Þess vegna var krafa lögð fram af talsmönnum öryrkja og aldraðra, um 300 þúsund kr. lágmarks lífeyrir. Hún var studd af minnihlutanum á Alþingi. Þessi krafa er sanngjörn og réttmæt og mikilvægt skref í átt til að draga úr þeim ójöfnuði sem aðgerðir hægri stjórnarinnar hafa leitt af sér.
Vinstri græn vilja samfélag þar sem allir geta lifa með reisn, kjörin eru jöfnuð og byrðunum dreift með réttlátum hætti. Að því markmiði viljum við stefna og að því munum við áfram vinna.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).