Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Mikilvægt

26. október 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Það var sláandi að fylgjast með því hversu hatrömm umræðan var um nýgerða búvörusamninga. Harkan í umræðunni skapaðist ekki síst vegna vinnubragðanna við gerð samninganna. Mörgum var misboðið vegna þeirra. Samningsferlið, undir handleiðslu stjórnarflokkanna, fór fram fyrir luktum dyrum og fáir voru kallaðir að borðinu. Konur áttu þar litla aðkomu. Eðlilegra hefði verið að vinna þetta stóra mál þvert á stjórnmálaflokka og upplýsa almenning betur um hvað stæði til enda um háar fjárhæðir að ræða. En það sem kom á óvart í umræðunni er hversu margir virðast enn hafa neikvætt viðhorf til landbúnaðar. Sú krafa var hávær að það ætti að fella niður allar hindranir svo að innflutningur geti orðið sem mestur og matur sem ódýrastur. Stóryrði flugu og bændur voru af sumum þátttakendum umræðunnar stimplaðir sem afturhaldssamur hópur sem væri andsnúinn öllum breytingum. Það er vitanlega fjarri sanni.

Mörg tækifæri

Þetta neikvæða viðhorf til íslensks landbúnaðar er á skjön við vaxandi áhuga á fjölbreyttri og vandaðri innlendri matvælaframleiðslu. Matur á ekki endilega að vera sem ódýrastur. Hann á að vera sem bestur. Við eigum að bera virðingu fyrir mat, borga aðeins meira fyrir vandaða framleiðslu og henda aðeins minna. Neytendur vilja meira vöruúrval og lífrænar landbúnaðarafurðir. Fleiri og fleiri gera kröfur um hreinleika matvæla og rekjanleika. Þessi eftirspurn gerir það að verkum að það eru óendanlega mörg tækifæri í íslenskum landbúnaði. En þróunin í þessa átt gengur of hægt hjá okkur og í þeim efnum höfum við dregist aftur úr þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við.

Nýsköpun og lífrænar afurðir

Mikilvægt er að efla nýsköpun í landbúnaði og auka fjölbreytni. Það þarf að uppfylla þarfir og óskir neytenda um lífrænar landbúnaðarafurðir og efla stuðning við lífræna framleiðslu. Innlendur landbúnaður á að vera gæðaframleiðsla í sátt við umhverfið og samfélagið. Tilvist hans eykur lífsgæði allra landsmanna og styrkir búsetuskilyrði um allt land.

Eflum fullvinnslu

Það er tímabært að færa íslenskan landbúnað upp á næsta stig. Í því felst m.a. að gera bændum kleyft, án þess að slegið sé af kröfum um heilnæmi og gæði matvara, að fullvinna afurðir sínar, rækta meira korn og grænmeti með sjálfbærum hætti. Það þarf því að endurskoða reglur um fullvinnslu afurða og hafa þær þannig úr garði gerðar að heimaunnin matvæli verði raunhæfur kostur þeirra bænda sem kjósa að selja sína vöru sjálfir.

Innlendur landbúnaður er einn veigamesti þátturinn í að byggja sjálfbært samfélag á Íslandi. Tækifærin til að sækja fram eru til staðar. Nýtum þau. Gerum það saman og gerum það vel.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ingibjörg Þórðardóttir og Berglind Häsler.
Höfundar skipa 2., 4. og 6. sæti á framboðslista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).