Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Aukin menntun og hæfni bætir lífskjör

25. október 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Miklar breytingar hafa átt sér stað að undanförnu á starfsumhverfi framhaldsskólanna. Því miður hafa flestar þessar breytingar gengið í þá átt að þrengja að starfsemi skólanna, gera þá einhæfari og draga úr möguleikum þeirra til að veita fjölbreyttum nemendahópi haldgóða menntun. Lítil umræða var um þessa miklu kerfisbreytingu en menntamálarherra fullyrti að sparnaður yrði af þeim og brottfall nemenda myndi minnka. Innihald námsins og útfærsla var hins vegar afar lítið rædd á Alþingi.

Fjölbreytt námstækifæri Þörfin fyrir iðn- og verkmenntun er afar mikil í okkar samfélagi og hlutdeild tækni- og verkþekkingar veigamikill í sköpun í velmegunar. Einmitt sökum þess að við vitum hversu mikilvægar verk- og tæknigreinarnar eru kemur það illa við okkur að sjá og heyra hversu lítils þær eru metnar í breytingunum sem gerðar voru á framhaldsskólakerfinu.

Það er óþolandi að skólameistarar skuli þurfa að koma fram í fjölmiðlum til að vekja athygli á bágri stöðu framhaldsskólanna. Að „greina eigi stöðuna“ þrátt fyrir að hún hafi legið fyrir í langan tíma sýnir að samskipti ráðuneytisins við stofnanir sínar er ekki í lagi. Framhaldsskólarnir eru vanfjármagnaðir og mjög víða er komin gríðarleg þörf fyrir endurnýjun á tækjabúnaði. Menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur ekki staðið sig fyrir hönd skólanna að sækja á um fjármagn sem dugar til að skólarnir njóti þess batnandi efnahags sem ríkisstjórnin gumar sífellt af.

Háskólinn á Akureyri Þrátt fyrir að Háskólinn á Akureyri sé sá háskóli sem hefur verið hvað best rekinn á undanförnum árum og staðið í miklum aðhaldsaðgerðum, launaskerðingum, fækkun brauta og aflagningu rannsóknarmissera hefur skólanum ekki verið umbunað. Eina góða ákvörðun tók þó menntamálaráðherra gagnvart HA þegar hann staðsetti lögreglunámið þar. Réttmæti hennar sýndi sig í aðsókninni í námið enda passar það nám afskaplega vel inní þá umgjörð sem skólinn hefur skapað.

LÍN Á síðustu dögum sínum í embætti reynir menntamálaráðherrann að troða í gegn mikilli kerfisbreytingu á Lánasjóði íslenskra námsmanna sem mætt hefur mikilli andstöðu. Í breytingunni felst ójöfnuður þar sem t.d. einstæðir foreldrar eða fólk með litlar tekjur, sem ekki getur sótt sér menntun án lánafyrirgreiðslu, greiðir í raun fyrir styrki sem allir nemendur fá, líka þeirra sem ekki þurfa að taka lán. Tekjutenging afborgana námslána verður aflögð þannig að allir sem taka lán greiða jafnt af lánunum, óháð tekjumöguleikum sem ólíkar námsleiðir gefa. Það þýðir t.d. að leikskólakennarinn greiðir jafn mikið af sínu láni og viðskiptalögfræðingurinn, þrátt fyrir að gera megi ráð fyrir miklum tekjumun þeirra á milli. Að auki verði frumvarpið að lögum í óbreyttri mynd er verið að festa í sessi verðtryggð 40 ára lán sem er andstætt því sem Framsóknarflokkurinn sagðist ætla að gera, þ.e. að afnema verðtrygginguna.

Það er forgangsmál að tryggja jöfnuð í menntakerfinu þannig að þeir sem stunda nám geti gert það óháð efnahag. Meiri jöfnuður er ein besta leiðin til að auka velsæld og hamingju í samfélaginu, sem við hljótum öll að vilja fyrir afkomendur okkar.
Forgangsröðunin skiptir máli og tækifæri er til breytinga í næstu kosningum.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).