Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Krampakennd tilraun til að ná athygli!

13. september 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Sagt á þingi í dag.

Í gær birtist okkur í hnotskurn ein af ástæðum þess að stjórnmál og umræðuhefð á Íslandi eru í alvarlegum vanda þegar formaður og varaformaður fjárlaganefndar boðuðu til blaðamannafundar um svokallaða skýrslu sem heitir Einkavæðing bankanna hin síðari. Skýrsla hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur er sögð unnin af og fyrir meiri hluta fjárlaganefndar, en enginn leggur þó nafn sitt formlega við hana. Hún hefur hvorki verið kynnt fjárlaganefnd með neinum formlegum hætti né hefur efni hennar og innihald verið lagt fyrir nefndina til umfjöllunar og við í minni hluta fjárlaganefndar gerum við það alvarlegar athugasemdir.

Þetta birtist mér sem heimavinna þingmanna og byggir meira og minna á klippum úr öðrum skýrslum sem er raðað saman í eina súra samsæriskenningu um að þáverandi fjármálaráðherra gengi erinda erlendra kröfuhafa. Við blasir að formaður og varaformaður fjárlaganefndar eru augljóslega að misnota nefndina í marklausum pólitískum leiðangri. Ég get ekki annað en óskað eftir viðbrögðum annarra hv. þingmanna meiri hluta fjárlaganefndar, Haraldar Benediktssonar, Valgerðar Gunnarsdóttur, Ásmundar Einars Daðasonar og Páls Jóhanns Pálssonar.

Eruð þið sammála framsetningu skýrslunnar og innihaldi og þeim ásökunum sem þar birtast?

Eruð þið þá um leið ósammála niðurstöðu hv. þm. Brynjars Níelssonar sem vann málið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd?

Þær ásakanir sem hér birtast eru í meginatriðum þær sömu og hv. þm. Brynjar Níelsson var með til umfjöllunar, en hann komst að þeirri niðurstöðu að ásakanir sem fram komu varðandi hlut á aðkomu fyrrverandi fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytisins í endurreisn bankakerfisins ættu sér ekki stoð í raunveruleikanum.

Það má gagnrýna margar gjörðir þeirrar ríkisstjórnar sem sat á síðasta kjörtímabili, en sú leið sem farin var við að endurfjármagna bankana var vel heppnuð. Ávöxtun ríkisins af þeim fjármunum er svo meira en viðundandi og mun nýtast við frekari uppbyggingu hér á landi. Nær væri að stjórnmálaflokkar töluðu um það með hvaða hætti á að ráðstafa þessum fjármunum til frekari uppbyggingar á Íslandi.

Í kosningabaráttunni sem framundan er ættu flokkarnir að bjóða fólki upp á framtíðarsýn fremur en að afhjúpa sig á hvers konar endastöð íslensk stjórnmálahefð er komin.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).