Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Umboðslaus ríkisstjórn

6. september 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Herra forseti.

Hér höfum við umboðslausa ríkisstjórn á lokametrunum, ríkisstjórn sem er að skilja við innviðina í ekki nógu góðu ástandi hreint út sagt. Heilbrigðismálin, samgöngumálin, menntamálin, löggæslumálin, fjárvana háskólar, framhaldsskólar, kjör eldri borgara og öryrkja — allir eru einhvern veginn ósáttir en samt gumar þessi ríkisstjórn af afar góðu búi.

Hún hælir sér af því að greiða niður skuldir en er í raun bara að fresta inn í framtíðina og láta komandi kynslóðir borga. Í staðinn fyrir að nýta skattstofna ríkisins hefur hún veikt þá á kjörtímabilinu og hefur stólað á einskiptisaðgerðir sem við þekkjum og voru m.a. ræddar hér í gær, stöðugleikaframlögin. Hún er rekin til baka með ýmis mál, m.a. verðtryggingarmálin, haftamálin, hún var rassskellt af hálfu Seðlabankans, í gær held ég, varðandi verðtryggingarmálin og sama gildir í rauninni með haftamálin. Það er svolítið mikið á sömu bókina lært.

Afkoman sem hefur verið að batna hefur ekki skilað sér til þeirra sem þurfa mest á því að halda. Það er auðvitað miður og þótt það sé gott að greiða niður skuldir þarf stundum að gera hlutina samhliða. Það er ekki nóg að setja eggin í eina körfu og láta allt hitt bíða á meðan. Það hefur orðið niðurstaðan og raunin hér, því miður.

Ég segi að við þurfum nýja nálgun og til þess gefst tækifæri í komandi kosningum sem eru sem betur fer innan örskamms tíma og verða núna í lok október og ég hvet fólk til þess að mæta á kjörstað og sjá til þess að það verði breytingar.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).