Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Uppboðsleið í sjávarútvegi - er það lausnin?

25. ágúst 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Á þingi í dag var rætt um uppboðsleiðina í sjávarútvegi og samfélagslega sátt um skiptingu arðs af auðlindum þjóðarinnar.
Ég sagði þetta í 2 mínútna ræðu minni:

Enn og aftur erum við að ræða fiskveiðistjórnarkerfið í aðdraganda kosninga. Þessi mál hafa verið pólitískt bitbein alla vega frá árinu 1991 og kannski fyrr. Núna erum við helst að ræða þetta vegna uppboðsleiðar sem Færeyingar eru að fara, en það er vert að minna á að þetta er tilraun sem Færeyingar eru að gera og þeir eru ekki búnir að ákveða að þetta verði leið þeirra til framtíðar. Við sjáum ekki niðurstöðu af því hvernig færeyska þjóðin kemur út úr þessu fyrr en búið er að veiða þennan afla og það verður kannski einhvern tímann á næsta ári.

Vinstri græn hafa lengi talið mikilvægt að ráðast í úrbætur á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi til að ná fram réttlátara aðgengi að fiskveiðiauðlindinni. Umræðan um það hvernig heppilegast er að tryggja landsmönnum sanngjarnan arð af sameiginlegum eigum þeirra, hvort sem það er sjávarauðlindin eða aðrar sameiginlegar eignir, er bæði mikilvæg og margþætt. Aðferðir og framkvæmd skipta vissulega máli og það á við um það hvort sem farin er veiðigjaldaleið eða uppboðsleið. Það er ekki svo að ein leið gulltryggi ólík sjónarmið og nauðsynlegt er að við finnum sanngjarna leið fyrir alla.

Veiðigjöldin hafa verið og eru þyrnir í augum margra og ekki síst eigenda útgerðarfyrirtækja sem finna þeim margt til foráttu. Umframarður í sjávarútvegi hefur verið margir tugir milljarðar á ári mörg undanfarin ár. Þessi arður er eign þjóðarinnar. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að með endurgjaldslausri úthlutun aflaheimilda er renta af fiskveiðunum afhent eigendum útgerðarfyrirtækja og veiðigjöldin sem nú eru lögð á eru til málamynda og hafa snarlækkað í tíð núverandi ríkisstjórnar og gera lítið meira en að jafna út opinberan kostnað við sjávarútveg.

Það er líka mikilvægt í þessari umræðu að halda því til haga að veiðigjöld eru ekki skattar, það er arðgreiðsla sem fellur til samfélagsins vegna nytja af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

Núverandi kerfi er óréttlátt og ósanngjarnt og það er með öllu ótækt að hægt sé að kippa stoðunum undan byggðarlögunum í einu vetfangi eins og nú er. Uppboðsleiðin ein og sér hefði ekki tryggt Þorlákshöfn, Djúpavogi eða Þingeyri betri stöðu.

Við getum ekki ýtt þessu mikilvæga verkefni á undan okkur. Það er hægt að leysa þetta. Það er engin leið sú eina rétta. Við þurfum að fara blandaða leið og sameina ólík sjónarmið.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).