Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Ríkisstjórnin er rúin trausti

19. ágúst 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins keppast við að hæla sér af “afrekum” sínum, tala um hagvöxt, verðmætasköpun og efnahagslegan stöðugleika, og reyna ítrekað að telja þjóðinni trú um það að enginn nema núverandi ríkisstjórn og þingmenn stjórnarflokkanna geti klárað einhver mál sem nauðsynlegt sé að ljúka en þeim kemur að vísu ekki saman um hvaða mál það ættu að vera.

Auðvitað er það ekki svo enginn annar geti ekki komið að því að skapa aðstæður sem undirbyggir verðmætasköpun, hagvöxt eða stöðugleika.

Það má líka velta því fyrir sér þegar við tölum um stöðugleika að núverandi ríkisstjórnarflokkar sem berjast á banaspjótum í fjölmiðlum, með ráðherra innaborðs sem styður ekki stefnu stjórnvalda til næstu fimm ára sé merki um stöðugleika.

Það er líka hjákátlegt að sami ráðherra, Eygló, lagði í morgun fram fjölskyldustefnu og því eðlilegt að spyrja sig hvort hún samræmist stefnu stjórnvalda og gert sé ráð fyrir henni í ríkisfjármálaáætluninni. Bjarni Ben sagði í hádeginu á RÚV að hún væri eins og óþægur leikskólakrakki, sem er alger dónaskapur ekki bara við Eygló heldur og líka við öll leikskólabörn þessa lands og hann bætti því við að hún fengi ekkert af sínum málum í gegn sökum afstöðu sinnar.

Svo ætlast þetta fólk til þess að við treystum því til að halda stöðugleika.

En þetta er líka ódýrt hjá Eygló svona rétt fyrir kosningar að sitja hjá við afgreiðslu stefnu ríkisstjórnarinnar sem hún hefur ítrekað fylgt eins og kom m.a. fram hjá formanni Öryrkjabandalagsins í gær á RÚV “hún hafi sjálf tekið afstöðu og ákvarðanir á kjörtímabilinu sem miða að því að halda lífeyrisþegum í fátæktargildru”.

Hæstv. forsætisráðherra telur afstöðu félags- og húsnæðismálaráðherra hvorki vera vantraust á sig né hæstv. fjármálaráðherra. Utanríkisráðherra er sannfærð um að flokkurinn verði áfram í ríkisstjórn og hafnar því að flokkurinn tapi atkvæðum vegna formannsins.

Ég veit ekki alveg í hvaða veröld þetta fólk lifir. Ríkisstjórnin er umboðslaus og rúin trausti. Hún er umboðslaus m.a. vegna Panama-hneykslisins og það var í raun ódýrt að einungis forsætisráðherran segði af sér fleiri hefðu átt að gera það og ríkisstjórnin hefði í raun átt að fara frá á þeim tíma og boða til kosninga.

Þinghaldinu lauk um hádegi í dag þar sem hin brýnu mál ríkisstjórnarinnar virðast ekki meira áríðandi en svo að ekki þarf að nýta þá örfáu þingdaga sem eftir eru betur en þetta.

Þetta er pínlegt.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).