Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Aðeins um búvöru- og tollasamninga

11. ágúst 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Bændablaðinu í dag.

Samfélagsleg sátt er mikilvæg

Margt hefur verið rætt og skrifað um búvöru- og tollasamningana sem nú liggja fyrir Alþingi og sitt sýnist hverjum. Hin ýmsu stéttarafélög gera kjarasamninga fyrir sitt fólk og í raun eru bændur þessa lands að gera kjarasamninga við ríkið í gegnum búvörusamninginn og því get ég tekið undir með formanni Bændasamtakanna að ef Alþingi gerir meiriháttar breytingar á samningnum hlýtur hann að þurfa að koma fyrir samtökin aftur til umfjöllunar og atkvæðagreiðslu.

Lítil og meðastór fjölskyldufyrirtæki eru burðarásar í íslenskum sveitum og þar af leiðandi má segja að þeir samningar sem hér eru gerðir að umtalsefni séu gríðarlega mikið byggðamál og við eigum að fjalla um þá m.a. út frá því sjónarmiði því ég trúi því að við viljum öll hafa sveitirnar í byggð og tryggja afkomu bænda um leið og við gerum kröfu um hreina afurð til neytenda og að framleiðslan sé á skynsamlegu róli.
Ég tel að, Sigurður Ingi, þáverandi landbúnaðarráðherra, hafi gert mistök að hafa ekki fulltrúa þingflokka með í öllu ferlinu þegar verið var að vinna nýja búvörusamninga enda lá ljóst fyrir að skoðanir eru ærið skiptar og um að ræða stórar fjárhæðir úr sameiginlegum sjóðum landsmanna og því miklar líkur á að slíkur samningur myndi valda deilum þegar kæmi að umfjöllun um hann í samfélaginu og við afgreiðslu Alþingis.

Nýjar aðbúnaðarreglur – afnám tolla

Settar voru nýjar aðbúnaðarreglur um velferð dýra, sem er gott, en því fylgir mikill kostnaður sem bændur taka á sig og í því samhengi er vert að geta þess að íslenska ríkið veitir mun minni stuðning til að takast á við þessar breytingar heldur en samkeppnislöndin sem eiga samkvæmt fyrirliggjandi tollasamningi að koma inn á okkar markað alveg hreint af fullum krafti. Ef gæta á sanngirni í umræðunni þá þarf að hafa þetta og fleira í huga. Í Danmörku varð þróunin sú að afkoman versnaði gríðarlega og það varð hrina gjaldþrota þar sem um 200 fjölskyldubú fóru á hausinn. Þar var fyrst og fremst um að ræða lágt verð fyrir mjólk og svínakjöt. Þetta er kannski eitt af því sem tollasamningarnir gætu leitt af sér, vissulega lægra verð á tilteknum vörum til neytenda, en ég er ekki sannfærð um að afleiðingarnar yrðu allar góðar fyrir íslenskar afurðir. Íslensku fjölskyldubúin geta ekki staðið undir holskeflu af ódýru innfluttu kjöti og ég spyr líka er það siðferðilega í lagi að kaupa „styrkt innflutt kjöt“ en ekki íslenskt? Að ég tali nú ekki um upprunamerkingar sem ég hef miklar áhyggjur af að séu ekki fullnægjandi af sumum innfluttum vörum.

Við höfum sem betur fer borið gæfu til að banna hormóna og vaxtarhvetjandi efni til að framleiða kjöt á Íslandi og þrengt verulega að notkun sýklalyfja í fóður. Það held ég að hafi verið afar mikilvæg ákvörðun og hefur sett okkur meðal fremstu þjóða í matvælaframleiðslu, enda slík notkun í algeru lágmarki sem hefur líka mikil áhrif á lýðheilsu okkar landsmanna. Með þessum auknu kröfum sem gerðar eru til íslensks landbúnaðar verður hann vissulega óhagkvæmari en sá sem við keppum við en það er umhugsunarvert og í raun fráleitt að við vitum lítið sem ekkert um aðbúnað, sýklalyfjanotkun eða uppruna margra þeirra afurða sem við flytjum inn en við ættum í raun að krefjast þess að vita það. Skv. 25. gr. dýravelferðarlaga, sem fjallar um dreifingu og merkingu dýraafurða, hefur ráðherra heimild til þess að takmarka eða banna innflutning frá þeim löndum sem gera ekki jafn ríkar kröfur um aðbúnað dýra og íslensk lög kveða á um en mér vitanlega hefur ráðherra ekki notfært sér þessa heimild.

Er tryggt að vöruverð lækki?

Það er líka mikilvægt að halda því til haga að það er ekki sjálfgefið að vöruverð lækki eins og ítrekað hefur verið haldið fram því við höfum upplifað að verslunin hefur ekki skilað að fullu lækkun tolla eða styrkingu gengis til neytenda. Hver er t.d. skýringin á því að svínakjötið hefur hækkað til neytenda en lækkað til bænda þrátt fyrir stóraukinn innflutning? Allt tal ríkisstjórnarflokkanna um að tollalækkanir skili sér til neytenda á þess vegna því miður ekki við rök að styðjast. Ég minni hér á þau svör sem ég fékk við fyrirspurn minni um áhrif þess að afnema tolla og finna má á þingskjali 343. Þar kemur m.a. fram að ekki hefur verið metið, af neinni alvöru, áhrif afnáms tolla, aukins innflutnings eða útflutnings á afkomu bænda nú eða verði til neytenda. Það er nefnilega mikilvægt, um leið og við ræðum landbúnaðarkerfið og stefnuna, að horfa á alla virðiskeðjuna og velta fyrir okkur kostnaðarferlinu, hvernig kostnaðurinn verður til og hvaða afleiðingar hann hefur.

Eigum samtal – leitum sátta

Í lokin þá er það ekki séríslenskt fyrirbæri að gera samninga við landbúnaðinn eins og við sjáum í nágrannalöndum okkar og ESB-ríkjum. Við flytjum inn um það bil helming af öllum landbúnaðarvörum sem við neytum í staðinn fyrir að standa vörð um hollustu og heilnæmi afurða okkar og öfluga framleiðslu innan lands eins og raunhæft er að gera. Svo mikill innflutningur, þegar við getum framleitt mun meira, er mjög neikvæður út frá umhverfislegu sjónarmiði. Um leið og við aukum fæðuöryggi með innlendri framleiðslu og drögum úr flutningi landa og heimshorna á milli stuðlum við að aukinni sjálfbærni og styðjum við bakið á fjölskyldubúum í hinum dreifðu byggðum landsins það er þjóðhagslega hagkvæmt.

Það er afar mikilvægt að ná fram samfélagslegri sátt um búvörusamninga og ekki síður að sjá hver raunveruleg áhrif verða m.a. af tollasamningnum og innleiðingunni á aðbúnaðarreglunum áður en gerðar verða svo umfangsmiklar breytingar til svo langs tíma. Þess vegna þurfum við að gefa okkur tíma til samtalsins.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
þingmaður Vinstri grænna

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).