Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Sigmundur ekki maður sátta

27. júlí 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Enn ryðst Sigmundur Davíð fram á völlinn og telur að hann geti sett leikreglurnar eftir sínu höfði. Eins og sjá má á ummælum flokkssystkina hans þá eru ekki allir sáttir eða sammála hans nálgun á hvort hann sé sá rétti til að stýra Framsóknarflokknum og þaðan af síður hans að ákveða hvort kosið verði í haust eður ei.

Framsóknarflokkurinn undir forystu Sigmundar skipaði starfshóp um afnám verðtryggingarinnar sem skilaði af sér tillögum í janúar 2014 sem ekkert hefur verið gert með af hálfu ríkisstjórnarinnar en nú á það að vera eitt af þeim málum sem Sigmundur ætlar að klára á þeim tveim þingvikum sem framundan eru. Slíkt mál verður ekki klárað á svo stuttum tíma og það veit Sigmundur enda er hann að reyna að þyrla upp leiðindum og telja kjósendum trú um að hann og Framsókn vilji „klára“ þessi málin og hin en það sé Sjálfstæðisflokkurinn sem lofaði kosningum í haust og þannig ætlar hann sér og flokknum „hreint borð“ í kosningabaráttunni.

Í viðtali á Útvarpi Sögu í dag fór hann svo aftur í paranojuna þar sem hann enn og aftur talar um að heimurinn sé á móti sér og í samsæri gegn sér og á nú við Panamauppljóstrunina en hann sagði:
„En mjög margt áhugavert sem hefur komið í ljós. Þessi aðför sem hafði verið í undirbúningi í sjö mánuði í nokkrum löndum og beitt þessum gögnum sem Soros-vogunarsjóðskóngur hafði keypt og gat notað að vild,“

Ríkisstjórnarsamstarfið er augljóslega búið og það er ljóst að Bjarni Ben þarf að standa við stóru orðin um að stytta kjörtímabilið um eitt þing, nema hann ætli að láta Sigmund Davíð ráðskast með sig og gera sig að ómerkingi orða sinna.

Þinghaldið gekk ágætlega í vor – án Sigmundar nú kemur hann fram í fjölmiðlum og gerir hvað hann getur til að búa til ágreining það er ein af ástæðunum fyrir því að vænta má að þinghaldið gangi ekki eins vel í haust. Sigmundur er nefnilega ekki maður sátta og samtals.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).