Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Eygló og kosningarskjálftinn

20. júlí 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Í orðum og skrifum Eyglóar Harðardóttur felst að hún hafi sem ráðherra ekkert haft að segja með forgangsröðun í sínum málaflokki þar sem Bjarni Ben og Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki viljað fara sömu leið og hún.

Þetta er nokkuð merkilegt að ráðherrann er með því að segja að hún sé valdalaus, ráðalaus og eiginlega hafi ekkert að gera í ráðherraembætti.
Við í stjórnarandstöðunni höfum ítrekað bent á að bæði vaxtabætur og barnabætur hafi verið skertar með viðmiðunum sem Eygló hefur þó samþykkt í þinginu fram til þessa í formi fjárlaga.

„Slagsmálin“ við Sjálfstæðisflokkinn sem Eygló talar um nú hefur hún aldrei opinberað og hefði líklega ekki gert fyrr en þá á næsta ári þegar kjörtímabilinu átti að ljúka en nú þegar kosningar eru fyrirhugaðar þá þarf Framsóknarflokkurinn sem er í sögulegri lægð að finna leið til að ná til fólksins.
Kannski verður næsti „tékki“ Framsóknarflokksins að hækka aftur vaxtabætur, barnabætur og líklega í ljósi umræðunnar þá lofa þau eldri borgurum og öryrkjum veglegri hækkun lífeyris. Til þess hefur Framsóknarflokkurinn haft þrjú ár og hefur samt tekið þátt í að skerða tekjur ríkissjóðs sem hefðu meðal annars getað tryggt þessum hópum betri kjör en Eygló og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa valið að gera það ekki þrátt fyrir betri hag þjóðarbúsins.

Þetta er örvæntingarfullt hjá ráðherra sem hefur haft mýmörg tækifæri til að láta ljós sitt skína á Alþingi en þessi sami ráðherra studdi að fullt af velmegandi fólki fékk mikla fjármuni úr ríkiskassanum í gegnum skuldaniðurgreiðslu Framsóknarflokksins.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).