Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Hverra hagsmuna eiga lífeyrissjóðirnir að gæta?

10. júní 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Í fréttum í gær kom fram að árslaun Guðmundar Þ. Þórhallssonar, framkvæmdarstjóra Lífeyrissjóðs verslunarmanna, hefðu hækkað verulega frá árinu 2009 eða um 104,4% og eru í dag 37,37 milljónir á ári. Hækkun sem er ekki í takti við nokkurn skapaðan hlut hvorki almenna eða stjórnenda launavísitölu.

Vert er að rifja upp að í lok febrúar á þessu ári voru undirritaðir samningar á milli Samtaka atvinnulífsins og ASÍ en sá samningur felur í sér að laun á almennum vinnumarkaði hækka um 16,2 prósent frá og með 1. janúar 2016 til og með 1. maí 2018.

Til samanburðar hafa eldri borgarar og öryrkjar talað um 20-25% hækkun til að rétta sinn hlut og þar erum við að tala um örfáa þúsundkalla á hvern aðila en ekki milljónir eins og hjá stjórunum.

Lífeyrissjóðirnir gömbluðu með fjármuni launþega í fjárhættuspils kapitalismanum fyrir hrun sem varð til þess að gríðarlegt tap var hjá sjóðunum og mikið rætt um skerðingar til lífeyrisþega í framhaldinu.

Launafólk ber sjóðina uppi með vinnu sinni og fær í afrakstur smánarlega litlar fjárhæðir m.a. vegna þess að stjórnendur hirða risavaxinn hlut í laun og hlunnindi og telja sig svo vera að vinna fyrir bættri stöðu umbjóðenda sinna. Margir þessara aðila sitja svo í stjórnum hingað og þangað og þiggja fyrir það laun til viðbótar.

Er nema von að fólk spyrji vernig þessir aðilar telji sig geta réttlætt slík ofurlaun um leið og mjög stór hluti lífeyrisþega á varla ofaní sig og á og býr við skerðingar af öllu tagi í kerfinu sem á að taka við eftir að fólk stígur út af vinnumarkaði.

Posted in Óflokkað

Ein ummæli

  1. Friðrik Dagur Arnarson

    Því miður hafa sumir stjórar lífeyrissjóða hagað sér með óafsakanlegum hætti. Má minna á sjóðinn Brú II sem var gerður til að aðstöða sprotafyrirtæki að ná fluginu. Sjóðirnir afsöluðu sér valdi yfir þessum sjóðum í hendur Thule Investment sem hefur vaðið yfir allt, reynt að sölsa efnileg fyrirtæki undir sig og verið í áhættufjárfestingum sem hafa kostað sjóðina stórfé - eins og Helgi Seljan sýndi fram á í Kastljósi fyrir fáeinum árum. Og áfram er haldið að eyða fé sjóðanna í málaferlum og rugli og enginn stoppar þetta af. Þetta lyktar af því að eitthvað sé rotið þarna inni, einhverjir sameiginlegir peningalegir hagsmunir fyrst enginn vill gera neitt.