Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Tollasamningar og búvörusamningar

27. maí 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Herra forseti.
Þetta eru líflegar umræður enda stórt mál undir. Það er ekki að ósekju að menn hafi skiptar skoðanir og deili um framkvæmd. Eins og hér hefur verið ágætlega rakið er töluverð óvissa í þessum samningum, bæði tollasamningnum og búvörusamningnum. Eins og hér hefur verið talað fyrir líka, þó að hér sé hæstv. utanríkisráðherra eini ráðherrann í salnum, þá tengjast þessir tveir samningar, búvörusamningurinn og tollasamningurinn, óneitanlega. Þetta hangir saman og þarf eiginlega að ræða það í samhengi.

Það var áhugavert sem kom fram áðan þegar talað var um áhrifin sem þetta hefði víða, ekki bara á svínabændur eða eggjabændur eða kjúklingabændur heldur út í samfélagið. Það sem kannski er alvarlegt í þessu er að skrifað er undir þennan samning án þess að haft sé samráð við landbúnaðinn. Það er auðvitað afar bagalegt og getur ekki verið til þess fallið að ná einhverri sátt, hvorki varðandi búvörusamninginn eða þennan samning. Það var áhugavert sem hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði snemma í dag þar sem hann sagði sem svo að ef hann hefði verið í þeirri stöðu sem hann var, þ.e. formaður Bændasamtakanna, hefði hann slitið viðræðum um búvörusamninginn þegar hann hefði séð þennan tollasamning. Mér finnst það segja heilmikið. Þarna er maður sem talar af mikilli þekkingu um þessar greinar og veit nokkurn veginn held ég hvernig hljóðið er í þeim ranni.

Eitt af því sem ætti að vera markmið búvörusamninga og þessara tollasamninga er að tryggja afkomu bænda og að sjálfsögðu sanngjarnt vöruverð og hreina afurð til neytenda. Við erum að tala fyrst og síðast um lítil fjölskyldufyrirtæki sem eru burðarásar í íslenskum sveitum og þar af leiðandi má segja að slíkir samningar, hvort heldur eru tolla- eða búvörusamningar, séu gríðarlega mikið byggðamál. Ég held að við viljum öll hafa sveitirnar í byggð og tryggja afkomu bænda um leið og við viljum sjá framleiðsluna á skynsamlegu róli.

En hér var verið að ræða margfeldisáhrif. Það skiptir líka miklu máli og hér var vitnað í samninga verkalýðsfélaga. Þar undir eru auðvitað afurðarstöðvarnar, bæði varðandi kjötiðnaðinn og allt það, slátrun og vinnslu. Sumt af því er vissulega árstíðabundið á meðan annað er allt árið um kring eins og t.d. svínaframleiðslan. Það mundi hafa gríðarlegar afleiðingar ef stóru búin mundu hreinlega leggjast af. Það skyldi enginn ætla að það gæti ekki gerst. Þá erum við líka að tala um fóðurkaup og annað slíkt. Það gæti orðið til þess að aðrar vörur hjá öðrum framleiðendum yrðu mun dýrari. Það er nefnilega mikilvægt að ræða, um leið og við ræðum landbúnaðarkerfið og stefnuna, í raun alla virðiskeðjuna, velta fyrir okkur kostnaðarferlinu og hvernig kostnaðurinn verður til og hvaða afleiðingar hann hefur. Þess vegna segi ég og tek undir með hv. síðasta ræðumanni að skynsamlegt væri að skoða það áður en lengra er haldið.

Þegar búvörusamningurinn var til umræðu um daginn var líka rætt um þann kostnað sem bændur taka á sig, sumir hverjir mun meira en aðrir, við að innleiða nýjar aðbúnaðarreglur um velferð dýra, sem er auðvitað mjög gott mál, en komið hefur fram að við veitum með þeim samningi mjög lítinn stuðning og miklu minni en samkeppnislönd okkar sem eiga samkvæmt þessum tollasamningi að koma inn á okkar markað alveg hreint af fullum krafti.
Um daginn vorum við einmitt að ræða afleiðingarnar af þessu, þ.e. neikvæð áhrif fyrir búin. Þau geta ekkert staðið undir holskeflu af ódýru kjöti. Þróunin í Danmörku var sú að afkoman versnaði gríðarlega og það varð hrina gjaldþrota, 200 fjölskyldubú sem þar fóru á hausinn og hefur ekki mælst meira síðan 1994. Þar var fyrst og fremst verið að tala um lágt verð fyrir mjólk og svínakjöt. Þetta er kannski eitt af því sem þessir samningar gætu leitt af sér, vissulega lægra verð, en ég er ekki sannfærð um að afleiðingarnar yrðu allar góðar fyrir íslenskar afurðir.

Hér hefur aðeins verið drepið á hver innflutningurinn hefur verið og hversu mikið hann hefur aukist. Í svínakjötinu hefur hann aukist um 3–10% á árabilinu 2008–2012 og er orðinn 20% núna, nálægt heildarneyslu, og kjúklingurinn hefur farið úr 8% í 20%. Þetta er auðvitað gríðarlega mikið. Hér þarf einhvern aðlögunartíma. Þessi tvö ár eru mjög lítill tími eins og gefinn er þarna að mestu leyti. Það er mjög lítið sem fellur undir fjögur ár. Ég held að það sé eitt af því sem hlýtur að þurfa að skoðast afar vel. Ég mun auðvitað ekki samþykkja þennan samning.

Svo hefur verið talað um kjötleka, þ.e. þegar farið er fram hjá tollkvóta. Í dag var verið að ræða um svínasíður eða beikon sem væri verið að flytja inn á opnum tollkvótum en ekki í gegnum hefðbundna kvóta. Það segir okkur hversu lek tollverndin er. Eins með kjúklinginn, hversu mikill innflutningurinn er, á bringum og öðru slíku. Það hefur ekki verið nægjanlega rík vernd að mínu mati þar.

Virðulegi forseti. Við eigum auðvitað heilmikil tækifæri með okkar hreina lofti, hreina vatni og hreina landi. Við höfum sem betur fer borið gæfu til að banna hormóna og vaxtarhvetjandi efni til að framleiða kjöt á Íslandi. Við þrengdum verulega að notkun á sýklalyfjum í fóðrið. Það held ég að hafi verið afar mikilvæg ákvörðun og hefur sett okkur meðal fremstu þjóða í matvælaframleiðslu, enda slík notkun í algeru lágmarki sem hefur líka mikil áhrif á lýðheilsu okkar landsmanna. Það er ekki langt síðan við lásum í fréttum að mikið magn sýklalyfja fyndist í dönskum börnum. það er ástæða til að vekja athygli á því. Það styður við það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson var m.a. að segja. Þessi tvö atriði sem ég taldi upp gera vissulega landbúnaðinn óhagkvæmari en þann sem við keppum við en skipta um leið afar miklu máli.

Það næsta sem talað var um í sambandi við búvörusamningana var að við ættum að takast á við næsta stóra verkefni sem fæli í sér að leyfa ekki notkun á erfðabreyttum hráefnum í fóðurgerð á Íslandi. Ég held að það sé einmitt eitt af þeim mikilvægu verkefnum sem nauðsynleg eru til að við höldum íslenskum landbúnaðarvörum áfram í fremstu röð.

Þessa stefnu stjórnvalda í tollamálum tel ég grafa undan bættri velferð dýra, baráttu við smitsjúkdóma og lyfjalausum landbúnaði. Kjöt sem flutt er inn er ekki laust við sýklalyf. Hér var einmitt sagt frá því í dag að í kjötborði í Bretlandi hefði mælst 70% sýking í kjúklingi. Það er athugunarvert að við séum að flytja inn svo mikið sem raun ber vitni á meðan það er neikvæð umræða gagnvart íslenskum landbúnaði þegar kemur að því að styðja við hann. Mér finnst það eiginlega fráleitt að við vitum ekki um aðbúnað í kringum þær afurðir sem við flytjum inn á meðan við aukum kröfur á íslenskan landbúnað. Við ættum að krefjast þess að vita jafn mikið um það sem við flytjum inn. Svo mikill innflutningur þegar við getum framleitt mun meira er mjög neikvæður út frá umhverfislegu sjónarmiði. Það ætti að vera markmið okkar að stuðla að því að framleiða eigin matvæli í okkar nærumhverfi.

Við ræðum hér um lækkanir á tollum, aukið aðgangsfrelsi. Þá eigum við að spyrja og biðja um svör við því hvort það sé enginn stuðningur við þær vörur sem fluttar eru til landsins. Erum við viss um að kjötið sem við flytjum inn til landsins, hvort sem það er með tollum eða tollfrjálst, njóti ekki einhvers staðar stuðnings úti í hinum stóra heimi til að koma inn á íslenskan markað? Ekki ég. Ég veit það ekki. Fyrir utan að ég veit ekki svo mikið um uppruna á margri vörunni því að það hafa verið efasemdir um það víða í hinum stóru vöruhúsum þar sem flutt er inn matvæli víðs vegar að úr heiminum.

Svo er mikilvægt að halda því til haga að það er ekki sjálfgefið að vöruverð lækki eins og ítrekað hefur verið haldið fram því að við sjáum að verslunin hefur ekki skilað að fullu lækkun tolla eða styrkingu gengis til neytenda. Allt tal um að tollalækkanir skili sér til neytenda á því miður ekki við rök að styðjast.
Í lokin þá er það ekki séríslenskt fyrirbæri að gera samninga við landbúnaðinn eins og við sjáum í nágrannalöndum okkar og ESB-ríkjum. Við flytjum inn um það bil helming af öllum landbúnaðarvörum sem við neytum í staðinn fyrir að standa vörð um hollustu og heilnæmi afurða okkar og öfluga framleiðslu innan lands eins og raunhæft er að gera. Um leið og við aukum með því fæðuöryggi og drögum úr flutningi landa og heimshorna á milli. Þessi þingsályktunartillaga þrengir að því. Við eigum að stuðla að aukinni sjálfbærni með aukinni innlendri fóðurframleiðslu og styðja við bakið á fjölskyldubúum í staðinn fyrir að samþykkja þennan tollasamning. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að hafa öflugan og framsækinn íslenskan landbúnað. Því miður uppfylla þessir tveir samningar að mínu mati það ekki.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).