Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Um kampavínsstaði

25. maí 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta mál og þessa sérstöku umræðu sem ég tel afar mikilvæga og nauðsynlega. Sem betur fer heyrist það sjónarmið æ sjaldnar að staðir sem gera út á nekt og nektardans séu í lagi og flestir hafa áttað sig á því að vændi, klám og mansal eru af sama meiði. Við sem samfélag eigum aldrei að fallast á að konur séu notaðar sem markaðsvara sem megi kaupa og selja til að uppfylla kynferðislegar langanir annarra.

Því miður virðist vera erfitt að koma í veg fyrir slíka starfsemi. Árið 2008, þegar lögreglan lokaði einum slíkum stað, var það kært og málið vannst á þeirri forsendu að það teldist ekki í verkahring lögreglunnar að skipta sér af himinháu verði á kampavíni. En kampavínsstaðir markaðssetja konur og líkama þeirra og gera þær um leið að söluvöru. Það er afar mikilvægt að við einbeitum okkur að forvörnum gegn mansali. Öll kerfin okkar, hvar sem þau eru, og allt samfélagið þarf að taka afstöðu gegn mansali. Við erum framsækið land og þurfum að spyrja okkur hvort Ísland eigi ekki að vera fyrsta ríkið til að setja í lög bann við slíkum stöðum sem gera út á fáklæddar konur og nýta sér bága stöðu þeirra kvenna sem þar vinna.

Við getum verið að tala um systur okkar og dætur en það er þó mun sjaldgæfara hér á landi að íslenskar konur séu að vinna á slíkum stöðum. Oftast er verið að flytja stúlkur hingað inn, m.a. frá Austur-Evrópu þar sem efnahags- og atvinnuástand er ekki eins gott og hér. Þær eru jafnvel blekktar til landsins með því að hér eigi lífið að vera svo gott en svo eru þær gerðar að kynlífsþrælum.

Þetta er ein af birtingarmyndum fátæktar og ójöfnuðar sem við höfum verið svo vel minnt á í tengslum við skattaskjólslöndin og bitna ekki síst á konum. Það er ekki svo langt síðan Ísland var svo fátækt að fólk fór erlendis í leit að betra lífi, en hvað hefði okkur fundist um það að ömmur okkar hefðu verið seldar mansali til nýlenduherranna sem voru peningamenn þess tíma?

Við höfum gott af því að setja okkur í spor þolenda mansals sem eru bara venjulegt fólk eins og við.

Svo er líka stóra spurningin: Eru það mannréttindi að kampavínsklúbbar og/eða strippstaðir fái að þrífast hér á landi?

Við Vinstri græn segjum nei. Við þurfum að uppræta slíka starfsemi með öllum tiltækum ráðum.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).