Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Hvítþvottur

12. maí 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ræddi aflandsmál í morgun á þingi.
Það er óhætt að segja að blaðið Tíund sem skattstjóri gefur út sé afar áhugaverð lesning og leiðari þeirra sem þar skrifa, í ljósi þess að formaður Framsóknarflokksins hefur verið að reyna að klóra í bakkann með því að senda út á vefinn excel-skjöl sem hann álítur að séu nægjanleg gögn til þess að hreinsa sig af því sem hann telur væntanlega að á sig hafi verið borið, þ.e. að hann hafi ekki staðið sína plikt og skilað tilheyrandi gögnum, CFC-skýrslum eða hverju öðru sem þeim hjónum ber að skila. Hann virðist vera að gera tilraun til þess að hvítþvo sig af því. Það sem þar birtist dugar þó ekki til að mínu mati því að það breytir engu um að þau áttu þetta félag. Það er það sem skiptir máli í þessu samhengi, það er siðferðið sem felst í því að velja sér þessa stöðu, fyrir utan það að leggja ekki fram skattskýrsluna fyrst hann telur ástæðu til þess að upplýsa um einhver gögn þeirra hjóna. Það væri auðvitað hreinlegast og best til þess fallið í staðinn fyrir að birta einhver excel-skjöl.

Í leiðara Tíundar kemur m.a. fram að flestir hafi ekki séð ástæðu til að geta um eignir sínar í skattaskjólum og talið við hæfi að þeim væri óhætt að hafa þær á aflandssvæði í skjóli fyrir afskiptum skattyfirvalda. Þar er minnt á að þetta var tekið fyrir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar er því líka velt upp að það sé áleitin spurning hvers vegna fjármagnseigendur hafi í rauninni ákveðið í stórum stíl að fara þessa leið. Margir hafa nú viðurkennt að þeir hafi verið að leita eftir leyndinni á meðan við sjáum hér forustufólk ríkisstjórnarflokkanna neita því dag eftir dag að þeir eigi nokkuð í skattaskjóli. Maður gæti jafnvel haldið að nöfn þeirra hefðu ekki einu sinni birst í Panama-skjölunum, slíkur er hvítþvotturinn að verða.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).