Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Að drepa málum á dreif!

31. mars 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Það er áhugavert að fylgjast með Framsóknarfólki verja Tortólahjónin og um leið sannfæra sig um að það sé allt í lagi að einn áhrifamesti maður þjóðarinnar eigi fjármuni utan gjaldeyrishafta og í alræmdu skattaskjóli.

Til þess eru notuð ýmis meðul og það nýjasta er að henda í umræðuna að aflétta skuli leynd af skjölum vegna endurreisnar bankakerfisins. Gott og vel ég styð það.

Spurningin sem ég velti þó fyrir mér, en hef ekki séð fréttamenn spyrja, er hvers vegna Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn gerðu það ekki strax og þau komust í meirihluta. Þau hafa ríflegan meirihluta á þingi og ætti ekki að hafa verið neitt að vanbúnaði að koma slíku máli í gegn.

Núna lítur þetta hálf asnalega út og eiginlega eins og “af því þið eruð vond við Sigmund þá ætlum við sko að sparka í ykkur”. Af því markmiðið er eins og komið hefur margoft fram hjá formanni fjárlaganefndar að þarna megi finna eitthvað ólöglegt sem hún telur að fella muni Steingrím Joð.

En ég vona svo sannarlega að þau leggi fram þingmál til þess að þetta gangi nú eftir sem allra fyrst.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).