Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Tortóla - siðferðislegt mat

28. mars 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Að eiga peninga á eyju, Tortóla, sem Íslendingar hafa fram til þessa litið á sem skjól fyrir þá sem vilja ekki láta auðæfi sín lúta almennu eftirliti er stóra syndin í máli forsætisráðherrahjónanna að mínu mati. Um og eftir hrun hefur skattrannsóknarstjóri reynt að fá fjármálaráðherra til að kaupa upplýsingar úr svokölluðum skattaskjólum vegna þess að litið hefur verið á að það sé ekki „eðlileg geymsla“ fjármuna að „geyma“ fjármuni á stöðum sem kenndir hafa verið við skattaparadísir.
Um siðferðislegt mat á stöðunni má ýmislegt segja að mínu mati.

Siðferðið felst í viðhorfi forsætisráðherra að einn æðsti ráðamaður landsins telji í lagi að konan hans geymi auðæfi sín á aflandseyjunni Tortóla.

Siðferðið felst í viðhorfi forsætisráðherra um að það sé í lagi að geyma fjármuni á Tortóla sem lútir ekki hefðbundnum lögmálum um gegnsæi.

Siðferðið felst í viðhorfi forsætisráðherra um að það sé í lagi að þeir sem hagnist í íslensku viðskiptalífi geymi auðæfi sín í skúffu á Tortóla.

Siðferðið felst í viðhorfi forsætisráðherra að á meðan fyrirtæki og einstaklingar voru beðnir um að geyma gjaldeyri sinn á Íslandi sökum erfiðs efnahagsástands þá taldi forsætisráðherra að betra væri fyrir fjölskylduarfinn að ávaxtast á Tortóla.

Siðferðið felst í viðhorfi forsætisráðherra að fjölskylduarfinum væri betur fyrir komið á Tortóla á meðan íslensk fyrirtæki og lífeyrissjóðir hafa þurft að ávaxta/fjárfesta innan hafta með verðtryggðri krónu eða sækja um undanþágur til að fjárfesta erlendis.

Málið snýst ekki um hvort forsætisráðherra og konan hans riti langar greinar með eigin spurningum og svörum um hversu frábær þau eða hann er eða hversu mikið hann telur sig hafa gert fyrir íslenska þjóð á kostnað konu sinnar.

Að geyma auðæfi sín á aflandseyju er siðlaust enda hafa ríkisstjórnir (ekki bara á Íslandi) barist gegn slíkum skattaskjólum.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).