Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Sundurlyndi á stjórnarheimilinu

17. mars 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Herra forseti. Það er óhætt að segja eins og hér kom fram áðan að ríkisstjórnarflokkarnir veita okkur umræðuefni til að tala um á hverjum einasta degi og stundum mörg á dag. Tók nú alveg steininn úr þegar þessar fregnir birtust í blöðum í gærkvöldi og svo áfram í dag. Maður spyr sig hvort einhvers staðar sé eitthvað meira undir steini.
Á stjórnarheimilinu virðist ekki alveg ríkja friður. Í gærkvöldi var farið aðeins yfir þau málefni sem flokkarnir virðast ekki ná saman um og eru hreint ansi stór. Það er til dæmis staðsetning Landspítalans. Heilbrigðisráðherra fullyrðir að hann eigi að vera við Hringbraut, en forsætisráðherra er kominn með tvær tillögur að minnsta kosti um hvar sem hann vill setja niður nýjan Landspítala. Þar greinir menn á og eiginlega er algerlega ótækt að bjóða upp á slíkt í jafn viðkvæmu máli og þar er.

Búvörusamningarnir, við höfum heyrt Sjálfstæðisflokkinn og fulltrúa hans tjá skoðanir sínar á því sem fagráðherra Framsóknarflokksins hefur gert.

Húsnæðismálin og húsnæðisfrumvörpin, við höfum heyrt af því að þar ríki heldur ekki einhugur um það.

Verðtryggingin, Sjálfstæðisflokkurinn talar gegn yfirlýstum áformum Framsóknarflokksins um afnám verðtryggingar.

Gjaldtakan á ferðaþjónustuna, sem nefnd var áðan, þar gerir Framsóknarflokkurinn nánast grín að samstarfsráðherra sínum og fagráðherra.

Bankasalan, hvort við ætlum að selja bankana, þar er mikill ágreiningur þrátt fyrir að Framsóknarflokkurinn hafi samþykkt fjárlögin þar sem það kemur fram. Svo er fæðingarorlofið það nýjasta þar sem fótgönguliðar Sjálfstæðisflokksins komu fram og töluðu gegn hæstv. fagráðherra, Eygló Harðardóttur, þar sem hún var búin að fá í hendurnar tillögur frá starfshópi sem hún skipaði sem hún hyggst auðvitað fylgja eftir með einhverjum hætti.

Ágreiningurinn er alls staðar, í öllum meginlínum og stórum málum.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).