Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Um heilbrigðismál

1. mars 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ég ætla að gera heilbrigðismál að umtalsefni og getuleysi stjórnvalda í þeim efnum. Það er sorglegt að vita til þess að heilbrigðisráðherra stefnir með heilbrigðisþjónustuna í einkavæðingu í enn meira mæli en áður. Ég get ekki annað en tekið undir með stjórn BSRB um að heilsa fólks og heilbrigði geti aldrei orðið eins og vörur á markaði og því get ég ekki verið sammála áformum heilbrigðisráðherra um þá einkavæðingu heilsugæslustöðva sem hann stefnir hér fram með.

Komið hefur fram að íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um 20 þúsund síðastliðinn áratug, en heilsugæslukerfið hefur ekki vaxið að sama skapi. Þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar um að aldrei hafi meira fé verið lagt til heilbrigðismála hefur heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins nú úr 9% minni fjármunum að spila en árið 2008 þrátt fyrir mikla íbúafjölgun.

Ég ræddi í síðustu viku um ástandið í geðheilbrigðismálum barna og ungmenna sem geta þurft að bíða í allt að eitt og hálft ár eftir þjónustu, sem við hljótum að vera sammála um að er algerlega óásættanlegt. Ólafur Guðmundsson, formaður Barnageðlæknafélags Íslands, segir að það þjóni litlum tilgangi að vera með átak til að vinna upp biðlista, við verðum að ráðast að rótum vandans.

Nú síðast fengum við þær fregnir að nýbakaðar mæður og þær sem þjást af þunglyndi þurfa að vera í gömlu, gluggalausu, mygluðu lyfjabúri ásamt nýfæddum börnum sínum. Svo spyr ég auðvitað: Hvað með sjúkrahótelið, kæri heilbrigðisráðherra? Hvar er því ætlaður staður eftir að einkavæðingin klúðraði málum?

Ítrekað hefur komið fram að vilji landsmanna er sá að hið opinbera sjái um rekstur heilbrigðisþjónustu á landinu. Ég gef lítið fyrir þá hugmyndafræði heilbrigðisráðherra að einkavæðing verði til þess að auka skilvirkni og hagræði, enda hefur reynslan víða annars staðar sýnt fram á hið gagnstæða og ótal rannsóknir á ólíku fyrirkomulagi heilbrigðisþjónustu sýna að opinbert heilbrigðiskerfi stuðlar að bættri lýðheilsu og jafnara aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Það er gott að fjölga heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu, en gerum það með opinberu fé. Bankarnir skila milljörðum. Eigendur sjávarútvegsins greiða sér milljaðra í arð. Bara eigendur HB Granda borga sér 3 milljarða í arð á meðan ríkið fær 1 milljarð fyrir auðlindina. Það er til nóg af peningum í landinu. Það skiptir máli hverjir stjórna.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).