Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Skortur barna

22. janúar 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Á Alþingi 20. janúar 2016

Gera má ráð fyrir að rúmlega 6.100 börn á aldrinum eins til fimmtán ára líði efnislegan skort hér á landi. Þar af líða tæplega 1.600 börn verulegan skort.

Þetta kemur fram í ítarlegri skýrslu, þessari sem ég held hér á, sem UNICEF á Íslandi lét gera og kynnti í morgun og finna má einnig á vef samtakanna. Mælingar sem snúa að skorti á meðal barna eru einungis til frá árinu 2009 annars vegar og 2014 hins vegar, en þær sýna aukinn skort sem er verulegt áhyggjuefni.

Staðfest er að börn tekjulágra og atvinnulausra eða þeirra sem eru í 50% starfi eða minna eru líklegri en önnur börn til að líða skort. Þótt ekki sé hægt að alhæfa um þróun á skorti meðal barna og margar af þeim upplýsingum sem koma fram í skýrslunni komi ekkert sérstaklega á óvart eru niðurstöðurnar engu að síður óásættanlegar. Að hlutfall barna sem búa við efnislegan skort skuli hafa rúmlega tvöfaldast á tímabilinu, farið úr 4% í 9% er ekki hægt að láta óátalið og við sem samfélag verðum að bregðast við.

Það vakna margar spurningar við lestur þessarar skýrslu sem rýna þarf og leita svara við. Börn foreldra undir 30 ára eða ungra foreldra með eitt barn, eru líklegri til að líða skort og hlutfallið eykst og við þurfum að fá svör við því hvers vegna það er hjá þessum hópi umfram aðra. Hvers vegna er meiri skortur hjá drengjum en stúlkum t.d. þegar kemur að félagslífi? Er drengjum hættara við félagslegri einangrun?

Það er mikilvægt að fylgjast með þróun þessara mála þannig að hægt sé að bregðast við bæði með almennum og sértækum hætti. Þess vegna er afar mikilvægt að gera svona rannsóknir reglulega. Skortur barna af ýmsu tagi hefur áhrif til framtíðar hvort sem um er að ræða félagslegan skort, fæði og klæði eða hvað annað. Velferð barna í dag hefur áhrif á framtíð þeirra og þátttöku síðar meira á vinnumarkaði og almennt í samfélaginu.

Það er ástæða til að hafa áhyggjur af þessum niðurstöðum því að engin börn á Íslandi eiga að líða skort. Öll börn eiga að hafa sömu tækifæri til lífs og þroska eins og stjórnarskrá og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveða á um.

Sá mælikvarði sem UNICEF leggur fram um skort meðal barna og nýtir til þess áreiðanlegustu tölfræðigögn sem völ er á gerir öllum aðilum sem láta sig velferð barna varða kleift að leita leiða og lausna í baráttu fyrir réttlátu samfélagi öllum börnum á Íslandi til heilla.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).